22.04.1933
Neðri deild: 55. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (2232)

154. mál, áveitu á Flóann

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég vil að gefnu tilefni út af orðum hv. þm. Str. endurtaka þá spurningu, sem ég bar fram við 2. umr. þessa máls til stj. Þegar ákveðið var á þingi 1932 að skipa þessa 3 manna n., þá var annað verkefnið að athuga greiðslu á skuldum við ríkissjóð vegna áveitu og mjólkurbús Flóamanna. Hér liggur fyrir annað atriðið af því verkefni, sem n. átti að inna af hendi, en hitt er ekki ennþá komið fram. Ég spurði um það f. h. n. hverju þetta sætti, en fékk ekki svar, af því að stj. var ekki viðstödd. En ég vil nú endurtaka þessa spurningu mína. Annars þarf ég litlu við að bæta, en vildi aðeins svara ávítum hv. þm. Str. til n. fyrir að hafa ekki borið fram brtt. fyrr en við 3. umr. og svo seint, að afbrigða þurfti að leita. Ég vil ekki taka á móti ákúrum f. h. n. fyrir þetta, því það er ekkert, sem veldur þessu, annað en óþreyja forseta, sem hefir rifið málið á dagskrá fund eftir fund, þótt n. hafi ekki verið búin að ljúka störfum sínum. Hann vissi, að n. ætlaði að koma með brtt. eftir 1. umr., en hann bíður ekki eftir því, heldur tekur málið á dagskrá. Það var bara af meinleysi, að við heimtuðum ekki þá, að málið væri tekið af dagskrá. Ef hér er um sök að ræða, þá er hún hjá forseta, sem hefir rifið málið á dagskrá eins og hans er venja, þegar hann á mál hér á þingi.

Ég skal svo geta þess út af ræðu og till. hv. 1. þm. Árn., f. h. n., að hún fellst alveg á till. hans og vill mæla með þeim, ef hann vill ganga að öllum till. n. óbreyttum.