09.05.1933
Efri deild: 67. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (2251)

154. mál, áveitu á Flóann

Páll Hermannsson:

Ég hefi skrifað undir nál. með fyrirvara, og ber ekki að skilja fyrirvara minn svo, að ég sé ekki sammála meðnm. mínum um það, að leysa eigi þetta mál nú. Mér er það fyllilega ljóst af þeim upplýsingum, sem fyrir liggja um tilkostnaðinn við Flóaáveituna, að bændum er það algerlega um megn að greiða nokkurn verulegan hluta af þessum kostnaði, ekki sízt í því árferði, sem nú er. Í raun og veru er líka áveitukostnaðurinn gefinn upp eftir frv., því að þótt bændum sé gert að greiða 1 kr. af ha. í 30 ár upp í þennan kostnað, er það svo lítið, að það nemur undir 1% í ársvexti af því fé, sem til áveitunnar hefir verið varið, og hefði ég fyrir mitt leyti því allt eins vel getað gengið inn á að strika þetta alveg út.

Ég get hinsvegar ekki gengið inn á, að rétt sé að sleppa þeim möguleika úr frv., að hægt sé að fjölga býlum á þessu svæði, þar sem slíkt má verða án verulegra óþæginda fyrir landeigendur. Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir, að stj. geti krafið landeigendur þess, að þeir greiði með landi, ef nauðsyn þykir vegna nýbýlastofnunar. Nú hefir n. viljað fella þetta niður. Ég býst að vísu ekki við, að þetta komi að sök yfirleitt, en þó getur það í vissum tilfellum orðið því til fyrirstöðu, að nýbýli sé stofnað. Segjum svo, að tvær jarðir leggi fram engjaland til nýbýlis, en þriðja jörð vilji ekki láta land undir tún eða bæjarstæði. Ég vil því ekki láta fella þetta ákvæði niður. Ég geng út frá því, að stj. beitti þessu skynsamlega og krefðist ekki lands, nema nauðsynlegt væri og landeigendum nokkurn veginn bagalaust. Ég mun því greiða atkv. gegn þessari brtt., en mun verða n. sammála að öðru leyti. Að vísu álít ég, að það, sem greinir á milli n. og frv., hefði mátt laga með því að láta skilning sinn í ljós í nál. eða ræðu, svo að brtt. hefði ekki þurft með.