10.03.1933
Sameinað þing: 4. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (2371)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég hafði ekki ætlað að flytja langa ræðu við þessa umr. - Hv. 1. landsk. sagði, að mér hefði verið kunnugt um, að Sjálfstfl. hefði haft sínar eigin till. til tekjuöflunar. Mér var kunnugt um, að flokkurinn vildi leggja jafna prósentu á flesta gildandi tolla og skatta. En við það hefði ég ekki getað fellt mig, af því að skattakerfið sjálft er ekki réttlátt. Um leið og krafizt er réttlátrar kjördæmaskipunar, á líka að sýna réttlæti í þessum efnum. Mér var ljóst, er ég lagði fram stjfrv. um kjördæmamálið, að ýmsum framsóknarmönnum þætti of langt gengið, eins og sjálfstæðismönnum nú í skattamálunum. En menn verða að reyna að mætast sem næst miðri leið.

Ég hefi tekið það fram, að ef einhver ákvæði skattafrv. væru svo vaxin, að sýnt væri, að þau yrðu einstaklingum eða atvinnufyrirtækjum of þungbær, væri ég tilbúinn til samninga. En ég hefi ekki enn heyrt rök fyrir slíku. Ég mun þó gefa hér sömu skuldbindingar og áður, að taka fullt tillit til óyggjandi röksemda.

Það er vitanlega rétt, að tekjuskatturinn má ekki á neinu stigi fara fram úr tekjum. Það væri áþekkt ákvæðum um hámarkslaun, sem ekki samrímast atvinnulífinu eins og það er nú. En fyrir slíku er ekki gert ráð í frv. Hitt er annað mál, hvernig skatturinn samrímast við útsvörin. Fyrir álagningu þeirra eru litlar eða ókunnar reglur víðast hvar. En þótt útsvör séu beinn skattur, má ekki blanda þeim algerlega saman við tekjuskattinn. Mér hefir verið sagt, að útsvör væru stundum hærri en nemur öllum tekjum. Þetta getur því aðeins átt sér stað hér í Rvík, að um auðuga menn sé að ræða, sem það árið hafa haft litlar tekjur. En í sveitum, þar sem víða eru engar nettótekjur, verður þó að jafna niður þetta 4-10 þús. kr. og þaðan af meiru. Þetta kemur því ekki á tekjurnar, heldur á tap á atvinnurekstrinum. Þetta út af fyrir sig er sterk röksemd fyrir því að hækka tekjuskatt á nettótekjum. Þar er þó trygging fyrir því, að tekið sé af einhverju. Ég hefi ekki haft tíma til að athuga línurit hv. 1. landsk. af skattstiganum. Vildi ég því mælast til, að hann lánaði mér þau á milli umr., því að eins og ég hefi sagt mun ég beygja mig fyrir öllum óyggjandi röksemdum. En hér mun einhver veila í vera.

Ég hefi látið gera áætlun yfir útsvör og skatta eftir frv. með tilliti til sömu gjalda í fyrra. Þær áætlanir gáfu allt aðra útkomu en töflur hv. 1. landsk. Ég get því miður ekki gagnrýnt þessar töflur nú, en merkilegt má heita, ef þær koma að öllu leyti heim við veruleikann. Ég skal þá taka þrjú dæmi úr þeim áætlunum, er ég hefi látið gera.

1. dæmi :

Tekjur kr. 8010,00, tekjusk. kr. 112,00 (Frádráttur: tekjusk. síðasta árs og fyrir 3 börn).

Eign kr. 3400,00, eignarsk. - 31,80

Útsvar .................... - 300,00

Álag skv. frv. ............ - 44,80

Samtals kr. 488,60

Ekki rekur þetta sig upp undir.

2. dæmi :

Tekjur kr. 12162,00, tekjusk. kr. 417,00 (Frádráttur fyrir 2 börn).

Eignir engar.

Útsvar ................... - 1150,00

Álag .................... - 291,00

Samtals kr. 1858.00

Ekki rekur þetta sig upp undir heldur. En ljóst er, hvort hér hirðir meira af tekjunum, bær eða ríki.

3. dæmi :

Tekjur kr. 27150,00, tekjusk. kr. 1967,00

Eignir kr. 60000,00, ókunnugt um eignarskatt.

Útsvar ................... - 370,00

Þetta rekur sig heldur ekki upp undir. Ég hefi að vísu ekki sagt, að slíkt geti ekki komið fyrir eftir frv., og í sveitum fara útsvörin langt upp yfir nettótekjur, ef nokkrum er þá til að dreifa.

Það eru slæmir skattar, sem verka eins og slátrað væri mjólkurkúnni, svo að eftir stuttan tíma er bæði kjötlaust og mjólkurlaust. En að því er snertir tekjuskattinn er um það eitt að ræða að njóta nytjanna af húsdýrunum. Hann má því teljast góður skattur.

Hv. 1. landsk. sagði, að frv. væri hnefahögg í andlitið á þeim flokki, er vildi styðja sjálfsbjargarviðleitnina í landinu. Þetta er harður dómur, sem ég vildi ekki eiga skilið. Og frv. er einmitt borið fram vegna ráðstafana; sem miða að því að hjálpa sjálfsbjargarviðleitninni í landinu. Það á með þessu að hjálpa þeim, sem hafa orðið fyrir ranglæti, sem þjóðfélagið gat ekki hindrað, og það verður ekki gert með öðru en því að taka af þeim, sem betur mega. Þegar svo sérstaklega stendur á, að slíkt ranglæti hefir skapazt við tilflutning á verðmætum, verður að leiðrétta það með þessum hætti, að þeir borgi, sem það geta. Og það er engin nýjung hjá okkur, þótt seilzt sé djúpt í vasa gjaldendanna á erfiðum tímum. Íhaldsmenn í Englandi hafa þannig eftir ófriðinn hjálpað til að hækka skatt af hátekjum svo mjög, að þetta frv. kemst þar ekki í hálfkvisti við. Ég mun ekki hafa fleiri orð að þessu sinni, en óska, að málinu verði vísað áfram til fjhn.