13.03.1933
Sameinað þing: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í D-deild Alþingistíðinda. (2383)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Lárus Helgason:

Ég skal ekki tefja tímann lengi. Það er þegar búið að eyða of löngum tíma í þetta mál. Ég held, að þingið hafi annað við tímann að gera en eltast við mál eins og þetta, sem ekki koma því nokkurn skapaðan hlut við. Það er auðséð á vinnuaðferð þeirra manna, sem valdir eru að þessum óþörfu töfum og væringum, að þeir una illa samvinnu þeirra flokka, sem geta unnið saman, og kunna illa við að geta ekki rótað neinstaðar upp. Það er sýnilegt, að þeirra tilgangur er ekki sá, að koma í veg fyrir eitthvað, sem ekki á að eiga sér stað, því að þingið þurfti ekki að koma nærri þessu máli, því að vitanlegt er, að það er þegar úr sögunni. Það má alltaf um það deila, hvort þörf hafi verið á að gera eins mikinn hvell út af þessu máli og gert hefir verið, en það er illt fyrir þingið, að geta ekki komið í veg fyrir, að svona óþarfa tafir komi fyrir. Ég hélt helzt, þegar þessi dagskrártill. kom fram, að hún mundi koma til atkv. strax og hefði ekki skoðað huga minn um að greiða atkv. gegn henni, því að ég veit, af hvaða hvötum þetta er fram komið.