13.03.1933
Sameinað þing: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í D-deild Alþingistíðinda. (2386)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Það gerast ýms skemmtileg tíðindi með þjóð vorri á þessum síðustu tímum. Fyrir nokkrum missirum síðan hefði það ekki þótt trúleg saga, að hv. þm. Str. mundi þeysa fram á vígvöll þjóðmálanna sem lítilsháttar knapi til þess að skjóta skildi fyrir hæstv. dómsmrh. Svo mikils þykir honum við þurfa, að hann stígur úr forsetastóli til slíkra hreystiverka! — En það er synd að segja, að hv. þm. hafi tekizt vörnin fimlega, hvort sem það hefir stafað af því, að honum var hlutverkið óljúft, skal ég engum getum að leiða. Hv. þm. Str. hélt því fram, að hér væri aðeins um smámál að ræða, og þótti honum óhæfa, að það væri látið leiða til stjórnarskipta. En ég verð nú að segja, að þó ég geti fallizt á, að þetta eina mál, sem hér liggur fyrir, sé ekki nema miðlungi stór blóðmörskeppur í hinum stóra sláturpotti stj., þá er hann nægilega stór til þess, að hann megi verða hæstv. dómsmrh. að falli. Hér er um það að ræða, að opinberum sjóði, sem hæstv. dómsmrh. og starfsmanni hans, skrifstofustjóranum í atvmrn., er falið að varðveita og stjórna, er ráðstafað af þeim sjálfum þvert á móti skipulagsskrá sjóðsins á alveg óforsvaranlegan hátt.

Fyrst tekur skrifstofustjórinn um 1/4 hluta sjóðsins og lánar sjálfum sér það fé, með aðstoð og samþykki fyrrv. atvmrh., Tryggva Þórhallssonar, og misnotar þannig aðstöðu sína sem fjárhaldsmaður sjóðsins. Því næst ver hann helmingnum af sjóðnum til þess að kaupa fyrir það jörð af sjálfum sér með óhæfilega háu verði. Þetta gerir hann fyrir tilstilli núv. hæstv. dómsmrh. og á hans ábyrgð. Það er augljóst, að þetta er beinlínis gert í þágu skrifstofustjórans, sem hefir vörzlu sjóðsins á hendi. Þetta er svo greipilega vítavert, að það verður ekki séð, að þingið geti sóma síns vegna gengið framhjá frv. eða látið það óátalið.

Hv. þm. Str. sagði, að hann teldi það ekki viðeigandi, að till., er lýsti vantrausti á stj., væri borin fram í sambandi við annað mál. Það kom ekki skýrt í ljós, hvort hann teldi þetta brot á þingsköpum, en þó skildist mér, að hann ætlaði að líða þetta sem forseti, líklega af einhverri náð! Þetta þykir mér næsta undarlegt. Ég man ekki betur en að þessi hv. þm., sem nú er forseti Sþ., hafi sjálfur eitt sinn sem stjórnarformaður komið sér undan því að taka á móti vantrauststill. með þingrofinu sællar minningar. Það er vitanlega þægilegt fyrir

stjórn að hafa forseta, sem hún getur stungið í vasann þegar henni liggur á. Þess vegna er það ekkert undarlegt, þó að þessum hv. þm. lítist vel á þá aðferð, sem hann hefir sjálfur beitt áður með svo góðum árangri. En hvers vegna er þá hæstv. forseti að taka á dagskrá mál, sem hann telur eigi lögformlegt að afgreiða?

Hv. þm. Str. sagði, að í þessari dagskrártill. okkar jafnaðarmanna væri ráðizt á utanþingsmann, sem ekki ætti þess kost að bera hönd fyrir höfuð sér á þessum vettvangi. En þessi maður, skrifstofustjórinn í atvmrn., verður tæplega talinn varnarlaus, þegar hæstv. dómsmrh. og forseti Sþ. skiptast svo bróðurlega á um að bregða fyrir hann skildi. Að vísu er fremur væmið líkræðubragð að þessum varnarræðum þeirra. Og keimurinn að hinum miður þokkalegu ráðstöfunum, sem lýst hefir verið, er þannig, að ég tel það í alla staði eðlilegt og sjálfsagt, að þingið víti slíka framkomu hjá mönnum í opinberri þjónustu. Ég man ekki betur en að þegar síldareinkasalan og landsverzlunin voru hér áður til umr. á Alþingi, þá fengju starfsmenn þeirra stofnana ómilda dóma og hvassar árásir. Við því er auðvitað ekkert að segja, ef ástæða þykir til slíks, og þess vegna er ekkert undarlegt, þó að skrifstofustjórinn verði að þola hið sama.

Eitt atriði í ræðu hv. þm. Str. þótti mér mjög kynlegt. Hann taldi ekki hæfa að eyða tíma þingsins til andspyrnu gegn stj. út af slíku smámáli sem þessu, þar sem svo mörg stór og mikilvæg mál biðu úrlausnar Alþingis og afstaða þingmanna til stj. yrði að miðast við þau. En ég verð nú að lýsa því yfir, að hv. þm. á sem forseti mesta sök á því, hvað dregizt hefir að afgr. þetta mál. Það var í lófa lagið að ljúka málinu síðast þegar það var hér til umr., ef hæstv. forseti hefði þá ekki tekið það af dagskrá og frestað því. Annars vil ég í þessu sambandi beina einni fyrirspurn til hv. þm. Str.: Hvað líður stóru málunum? Þessi hv. þm. og hæstv. forsrh. eru stundum að varpa fram hér í þingsalnum óákveðnum stóryrðum um þá höfuðnauðsyn þjóðarinnar, að leyst verði úr kreppunni, en helzt ekki nema í sambandi við stjórnarskrármálið eða undir umr. um vantraust á stj.

Hvenær koma kreppumálatill. frá mþn. í skuldamálum bænda? Þingið er nú búið að sitja í mánuð og engin till. er enn fram komin í þessa átt. Ég lýsi hér með eftir þeim. Hv. þm. Str. er form. í kreppunefnd Nd., sem ég á sæti í, og hann er ekki enn farinn að kalla n. saman á fund.

Hv. þm. V.-Sk. var með einhverjar föðurlegar áminningar í garð okkar jafnaðarmanna út af því, að með flutningi þessarar vantrauststill. á hendur hæstv. dómsmrh. séum við að spilla hinu góða samkomulagi stóru flokkanna í þinginu. En ég hygg, að það sé hv. 1. landsk., sem hefir sýnt mesta viðleitni í þá átt að kljúfa stærsta þingflokkinn (Framsfl.) og draga hann sundur í 2 dilka; og ég vil sannarlega styðja hann að því starfi. Þess vegna tek ég undir þau tilmæli hv. 1. landsk., sem hann beindi til hæstv. forseta, að hann beri fyrst undir atkv. vantrauststill. hv. 2. þm. Reykv., og gefi Framsfl.mönnum þannig tækifæri til að sýna, hverjir af þeim fylgja Sjálfstfl. að málum og hverjir Alþfl. Mér finnst rétt, að það komi skýrt í ljós, hverjir vilja samþ. traust á hæstv. dómsmrh. Ég vona, að afstaða hv. þm. V.-Sk. verði þannig, að hann greiði atkv. með vantraustinu, úr því að hæstv. dómsmrh. lét þessa ágætu samninga! um kaupin á Reykjahlíð ganga sér úr greipum. Fylgi þessa hv. þm. við vantraustið byggist náttúrlega á allt öðrum forsendum en þeim, sem við jafnaðarmenn byggjum vantrauststill. á, en kemur þrátt fyrir það að sömu notum. — Hv. þm. kvaðst sem sé greiða atkv. á móti vantraustinu af þeirri ástæðu, að honum þóttu jarðakaupin svo álitleg. En þessi góðu kaup gengu til baka, og hæstv. dómsmrh. hefir glatað hinu ágæta tækifæri! Þetta athæfi hlýtur hv. þm. að telja tilefni til vantrausts, og verður hann því að fylgja þeirri till. okkar, þegar hún kemur til atkv.

Um rökstuðning hv. 1. landsk. í þessu máli er nákvæmlega hið sama að segja. Hann útmálaði það svo fagurlega í ræðu sinni, hvað hæstv. dómsmrh. hefði gert góð kaup á jörðinni Reykjahlíð, og bætti því við, að eftirkomendur okkar mundu sjá ákaflega mikið eftir því, að þessu ágæta tækifæri til þess að stofna fávitahæli hér á landi hefði verið sleppt. Eftir alla þessa lofdýrð frá form. Sjálfstfl. um málið fer það að verða torskilið, að hæstv. dómsmrh. skyldi taka upp á því að rifta aftur kaupsamningunum. (Dómsmrh.: Ég hefi ekki gert það). Jú. (Dómsmrh.: Alls ekki). Hæstv. ráðh. bjó sér til yfirskinsástæðu til þess að afturkalla jarðakaupin og lék mjög skemmtilegan leik í því sambandi við fjvn. Nd.

Hv. 1. landsk. sagði, að samkv. skipulagsskrá gjafasjóðsins væri stj. ætlað að kaupa jörð fyrir gamalmennahæli. En af einhverjum ástæðum féll það alveg úr frásögn hv. þm., að þessi kaup áttu ekki að gerast fyrr en eftir 40 ár. Það hefir sannarlega ekki átt að láta þessa framkvæmd brenna inni. Annars býst ég ekki við, að þau húsakynni, sem nú eru í Reykjahlíð, verði beinlínis topp-móðins til afnota fyrir gamalmennahæli eftir 40 ár. (Dómsmrh.: Hvað segir skipulagsskráin?). Hún segir a. m. k. ekki, að það eigi nú að kaupa jörð eða reisa hús fyrir gamalmennahæli.

En um fávitahælið vildi ég segja það m. a., að ég átti nýlega tal við góðan borgara hér í bænum, sem er samflokksm. hæstv. dómsmrh., og sagði hann; að þau húsakynni, sem nú eru í Reykjahlíð, væru hvorki nógu fullkomin eða rúmgóð fyrir slíkt hæli. Og ef þau ættu að koma að notum, þá yrði að leggja timburhjalla, einskonar nýmóðins póla, beggja megin við húsin til íbúðar fyrir fávitana. Um byggingar- og rekstrarkostnað fávitahælisins skal ég ekkert segja, en vitanlega hefði sú upphæð orðið þungur baggi á ríkissjóði. Það virðist hafa vakað fyrir hæstv. dómsmrh., að á þennan hátt gætu orðið nokkur not af jörðinni sjálfri, en húsin hefðu ekki getað staðið að verulegu gagni fyrir fávitahæli.

Ég skal ekkert um það karpa, hvort þetta hafi verið kjarakaup eða ekki, en hitt er víst, að eigandi jarðarinnar hafði mikinn hug á því að losna við hana, jafnvel þó að söluverðið væri talsvert lægra.

Annars er það einkennilegt, að hæstv. dómsmrh. skuli ekki hafa beitt sér fastar fyrir stofnun þessa fávitahælis, ef það er svo, að hann og flokksmenn hans álíta í alvöru, að þetta hafi verið hin mestu kjarakaup.

Þeir fóstbræðurnir. hv. þm. V.-Sk og hv. 1. landsk., fullyrtu, að næstu kynslóðir mundu harma það stórum, að þessum kjörum um kaup á Reykjahlið var ekki sætt!

Hvernig stendur þá á því, segi ég, að hæstv. dómsmrh., sem er æðsti yfirmaður allra fávita í landinu, skyldi ekki samhliða því að gera þessi ágætu jarðakaup leggja sig fram um að útvega fjárveitingu til stofnunar og rekstrar þessu fyrirhugaða fávitahæli? Hann hefði að sjálfsögðu átt að leggja fyrir þingið frv. um stofnun fávitahælis og undirbúa málið á allan hátt með sínum ágæta málflutningi og hinum góðu stuðningsmönnum málsins í sínum flokki. En ekkert af þessu hefir hæstv. ráðh. borið við að gera. Sennilega hefir hann verið sér þess meðvitandi, að kjörin væru ekki eins ágæt og hv. þm. V.-Sk. og 1. landsk. vildu vera láta. Þá fór hv. 1. landsk. að víkja því að hv. 2. þm. Reykv., að þetta væri afskaplegur málaflutningur frá hans hálfu, þar sem hann samkv. eigin yfirlýsingu hefði ekki lesið þann kaupsamning, sem um væri deilt; og vildi hann gera úr þessu höfuðsök á hendur hv. 2. þm. Reykv. En hv. 2. þm. Reykv. upplýsti það í umr., að samkv. bréfi frá skrifstofustjóranum (VE) sjálfum, hefði sér alltaf verið neitað um að sjá samninginn, þó hann hefði óskað eftir því. En að lokum hefði hann aðeins fengið að sjá óstaðfest afrit af svokölluðu samningsuppkasti hjá hæstv. dómsmrh.

Jafnvel þó að ekki sé litið á þessa hlið málsins, liggur fyrir yfirlýsing frá hæstv. dómsmrh. um það, að þær upplýsingar, sem hv. 2. þm. Reykv. hefir gefið í þessu máli, hafi hann fengið frá hæstv. dómsmrh. sjálfum, svo að það þarf ekki að vefengja mikið þær fréttir, sem þar eru fengnar!

Um þær almennu hugleiðingar hv. 1. landsk. væri freistandi að segja hér eitt og annað. Ég er honum að ýmsu leyti sammála í þessum hugleiðingum hans. Ég vil undirstrika það, sem hann sagði : „Ég held, að ekkert annað en stjórnarskrármálið hafi ráðið því, að við sjálfstæðismenn settum mann í samsteypustjórnina“. Mér var mjög mikil ánægja að fá þessa yfirlýsingu frá hv. 1. landsk., vegna þess að ég hefi nokkrum sinnum verið að beina fyrirspurnum til samflokksmanna hans hér í hv. Nd. um þetta efni, en það hefir verið erfitt að fá nokkur svör. Hv. 1. landsk. sagði ennfremur, sem mér er ánægja að taka upp eftir honum, að fyrir sitt leyti vildi hann heldur samvinnu við Framsfl. um stj. og um lausn kjördæmamálsins með það fyrir augum, að stjórnarskrárfrv. fengist afgr. á þessu þingi. Mér var einnig ánægja að hafa fengið þessa yfirlýsingu frá þessum hv. þm. Samkomulaginu milli Framsfl. og Sjálfstæðisfl. og hvernig blöð Framsóknar eru að hnippa í hæstv. dómsmrh. get ég ekki verið að skipta mér af, því að það eru einskonar heimiliskritur, sem ekki er vert að blanda sér inn í.

Ég vil að lokum taka undir þau tilmæli hv. 1. landsk. til hæstv. forseta, að till. okkar jafnaðarmanna verði borin fyrst upp og komi fyrst til atkv. Ég tel óviðurkvæmilegt að vísa vantrausti frá með brtt. við rökst. dagskrá.