20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í D-deild Alþingistíðinda. (2403)

88. mál, björgunarstarf og eftirlit með fiskibátum á Faxaflóa

Flm. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þessa till. til viðbótar þeim ástæðum, sem fram koma í grg. Ég vil aðeins benda hv. þdm. á, að sjósóknin hér við Faxaflóa er nú orðin mjög mikil og jafnframt mjög hættusöm, bæði vegna þess, hvað hún er stunduð af miklu kappi, og að hún er einmitt stunduð á þeim árs, þegar veður eru hörðust, í skammdeginu og um miðjan veturinn. Fiskibátarnir eru nú orðnir mjög margir, eða 110, þó ekki séu taldir með smærri bátarnir.

Það mál, sem hér er um að ræða, er þríþætt. Það eru ráðstafanir til þess að vernda mannslífin og auka öryggi þeirra. Það eru ráðstafanir til þess að vanda veiðarfærin, og í þriðja lagi ráðstafanir til þess að gæta þess mikla verðmætis, sem landhelgin hefir í sér fólgin. Fyrir langa löngu hefir ríkisvaldið viðurkennt nauðsyn þessara ráðstafana. Fyrir allmörgum árum var gerður samningur við Vestmannaeyinga um það, að ríkið legði til skip til þess að gæta báta og veiðarfæra þeirra, gegn því, að Vestmannaeyjakaupstaður legði fram nokkra fjárupphæð árlega. Nú er það svo, að útgerðin hér við Faxaflóa er orðin nokkru meiri heldur en t. d. við Vestmannaeyjar, og hér er að öllu leyti sama nauðsyn á eftirliti með bátunum fyrir hendi.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en óska, að þessu máli verði vísað til hv. sjútvn. Hér er næst á dagskrá mjög skyld till., sem að sjálfsögðu fer líka til sjútvn. Vænti ég þess, að auk þess sem hv. n. tekur afstöðu til hvorrar till. fyrir sig, athugi hún í heild, hvað hægt er að gera til verndar útgerðinni eins og nú hagar til, og þá fyrst og fremst þar, sem þörfin er mest í því efni, sem vitanlega er þar, sem fiskiveiðarnar fara að langsamlega mestu leyti fram að vetrarlagi.