29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í D-deild Alþingistíðinda. (2441)

195. mál, Þingvallaprestakall

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Hv. 2. þm. Árn. kvaðst vera hlynntur því, að söfnuðurinn fengi prest, og er ég honum þakklát fyrir það. En hann taldi tormerki á, að presturinn byggi á Þingvöllum, og nefndi Arnarfell, Svartagil eða Gjábakka sem æskilegt prestssetur. Nú hefir það komið í ljós við þessar umr., að a. m. k. tvær af þessum jörðum eru mjög lélegar og þar að auki illa í sveit settar sem prestssetur, eins og t. d. Svartagil, sem er afskekkt kot uppi í fjöllum. Enda þótt komast megi á bíl þangað á sumardegi, þá hygg ég, að þegar snjóa leggur eins og gerist í Þingvallasveit, muni örðugt að komast þangað. Þykir mér og óviðfelldið, ef söfnuðurinn á að fela prestinn sinn í jafnafviknu skúmaskoti eins og Svartagil er.

Hér er um að ræða söfnuð, sem vill fá prest, og það er ekki eins og prestssetrið vanti í raun og veru, langur vegur frá því. Þingvellir hafa einmitt verið prestssetur frá alda öðli, og á Þingvöllum ætlast þjóðin til, að prestssetur sé áfram. Þjóðin á þar minningar einmitt í sambandi við kirkju á Þingvöllum og prestssetur, og einmitt á þeim minningum byggi ég að mjög miklu leyti þessa þáltill. Og söfnuðinn á fullan rétt á að fá prestinn á þennan stað. Hv. 2 þm. Árn. gat því sparað sér að benda á aðra staði. Það er aðeins einn staður, þar sem presturinn hefir jafnan haft aðsetur, og það eru Þingvellir sjálfir.

Þá kvað hann erfitt fyrir prestinn að hafa umsjónarstarfið með höndum. Ég veit ekki betur en að þar hafi verið hafður fastur umsjónasmaður allt sumarið, sem hv. 2. þm. Árn. gaf skipunarbréf sem nokkurskonar lögreglustjóra á staðnum. Ég vona, að ég fari rétt með, að þetta var kennari úr Reykjavík, og heiti Gísli Sigurðsson. Ég hygg einnig, að þetta skipunarbréf sé ekki búið að taka af honum ennþá. Það var því langt frá því, að presturinn væri einn um starfið. Ég held ég hafi þá ekki fleira við ræðu hv. þm. að athuga.

Þetta mál liggur alveg ljóst fyrir mér og meiri hl. íslenzku þjóðarinnar, að það þætti a. m. k. óprýði á staðnum, ef prestinum er alveg útskúfað af Þingvöllum, af þeim einföldu ástæðum, sem ég rakti hér. Íslendingar eru ekki frábrugðnir öðrum þjóðum í því að vilja varðveita gömul verðmæti og hlúa að fornum minningum. Að vísu eiga þeir sökum sinnar fátæktar færri verðmæti að geyma frá liðnum öldum, en ég vil segja, að því færri sem minningarnar eru, því meiri ástæða er til að halda sem allra fastast í þær.

Annars geri ég ekki ráð fyrir, að hv. 2. þm. Árn. setji fótinn fyrir það, að prestur sé á Þingvöllum, sökum þess að hann viðurkennir að prestur eigi að vera í prestakallinu, og að mér skilst þarna í nánd, fyrst hann nefndi þessar þrjár jarðir.

Að lokum fáein orð til hv. 5. landsk. Hann hélt sínu máli mjög til streitu, en runninn var þó af honum mesti móðurinn með kaffið, enda held ég hann hljóti að sjá eftir að hafa flutt þessa slúðursögu sem hann hafði eftir ónefndum þingmanni. Við þann þm. vildi ég sagt hafa, að þetta mátti sízt á honum sitja, svo mikils góðs sem hann mun hafa notið á því heimili sem gestur.

Hv. þm. kvað þetta mína sök, af því að ég hefði verið svo djörf að nefna kaffiveitingar. En ég nefndi þær einungis í sambandi við hans eigin orð um það, að ekkert gerði til, hvort presturinn væri á staðnum eða ekki. Þetta stendur vonandi svart á hvítu hjá skrifurunum. Þá kom ég að því, að umsjónarmaðurinn á sjálfur að hafa sent hreppsnefndinni reikning yfir veitingar, og skildi ég ekki, að það hafi skeð fyrr á landinu. En viðvíkjandi glósum hv. 5. landsk. hefi ég fengið svar og lesið það. Og í sambandi við þessa einu undantekningu vil ég geta þess, að sú var tíðin, á stríðsárunum, að margar vörur — og ekki sízt sykur — voru af mjög skornum skammti hjá öllum þorra manna. Hitt er kunnugt, að í öllum öðrum tilfellum en þessu alls eina naut hver einasti kirkjugestur góðgerða á þessum stað, enda var heimilið orðlagt gestrisniheimili í hvívetna.

Hv. þm. sagði, að það hefði verið mikill gróði fyrir Reykjavík, að þessi maður fékk að búa á Svartagili. En ef hún er eins mikil nytjajörð og henni er lýst hér, þá hefði ekki þurft að styrkja hann eins mikið og raun ber vitni, og skírskota ég hér með til reikninga á bæjarstjórnarskrifstofunni um þetta efni.

Ég nenni nú ekki að hirða fleira af því, sem hv. þm. tíndi fram, og mun ekki leggja fleira til málanna. Ég vona, að þótt hv. 5. landsk. skilji aldrei, að nokkur maður geti haft áhuga á slíku máli sem þessu, þá sé þó svo mikið Íslendingseðli í öðrum hv. þm., að þeir skilji fullkomlega, að Þingvellir við Öxará eru staður, sem þjóðin á að sýna fullan sóma, m. a. með því, að þar sitji góður, vel menntaður og skörulegur prestur.