06.05.1933
Neðri deild: 67. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (2554)

111. mál, útflutningsgjald

Jóhann Jósefsson:

Ég verð að játa, að ég hefi alltaf verið á móti því að hækka útflutningsgjald af beinum. Þó verð ég að kannast við það, að eins og nú er erfið aðstaða fyrir fiskmjölsframleiðendur, þá gæti þetta orðið þeim til bóta gagnvart erlendum keppinautum, en það má ekki gleyma því, að beinaþurrkunin veitir atvinnu mörgu fólki, sem annars myndi enga atvinnu fá. Smærri framleiðendur nota a. m. k. unglinga, konur og gamla menn til þess að gera beinin að verzlunarvöru. Hv. þm. G.-K. tók að mínu áliti svo réttilega á þessu máli, að ég gæti gert hans orð að mínum.

Ég vil svo ekki orðlengja þetta meira, og úr því n. hefir fallizt á að taka aftur sínar till. til 3. umr., þá skal ég einnig fúslega taka mína aftur, þó að hún sé eiginlega við næsta mál á dagskrá, en þessi mál verða að ræðast saman.