18.05.1933
Neðri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í D-deild Alþingistíðinda. (2685)

175. mál, gjaldþrot Síldareinkasölu Íslands

Fyrirspyrjandi (Jóhann Jósefsson):

Ég þakka hæstv. ráðh. þá skýrslu, sem hann hefir gefið og á margan hátt var merkileg. M. a. upplýsti hæstv. ráðh. það, að framundan er fleiri ára starf fyrir skilan., ef hún á að sitja áfram sem slík, þar til öllum sökum og gagnsökum er lokið í þessu máli.

Það er eftirtektarvert í sambandi við aðrar ófarir síldareinkasölunnar, að það er hvorki meira né minna en 13 mál, sem eru á döfinni vegna skipta hennar við innlenda og útlenda menn. Hæstv. ráðh. minntist sérstaklega á þrettánda og stærsta málið, sem útibú Landsbankans á Akureyri hefir höfðað gegn einkasölunni út af ca. 400 þús. kr. skuld, og taldi hann það skipta miklu fyrir útkomuna, hvort það mál ynnist eða ekki. (Dómsmrh.: Gagnvart ríkissjóði). Ég sé engan mun á því fyrir þjóðina hvort tapið lendir hjá Landsbankanum eða ríkissjóði. Tapið er komið fram og er tap landsins á einkasölunni, á hvorum staðnum, sem það lendir. — Mér skildist á hæstv. ráðh., að það væri viðurkennt, að um eða yfir 1 millj. kr. tap hefði orðið á einkasölunni, og bæti maður þessum 400 þús. kr. við, er tapið komið upp í hátt á aðra millj. kr., sem að vísu getur lækkað eitthvað, ef þeim, sem fara með mál einkasólunnar gagnvart útlendingunum, skyldi takast að vinna inn fé fyrir einkasöluna í þeim málaferlum.

Mér heyrðist hæstv. ráðh. segja, að réttarrannsókn hefði farið fram á gjaldþroti einkasölunnar l. samkv., en eins og ég tók fram, var því haldið hér fram á síðasta þingi, að stj. væri skylt að láta fara eins að við einkasöluna og við önnur gjaldþrot, þótt stj. hefði valið þá leið að skipa þessa skilan. Það er þá sennilega fyrir þær raddir, sem á þinginu komu fram, að stjórnin hefir fyrirskipað rannsókn.

Á síðasta þingi var ýmsu um það spáð, hvernig fara mundi fyrir síldarútveginum eftir að ríkisvaldið hafði sleppt af honum hendinni, eftir þau frægu afskipti, sem einkasalan fyrir ríkisins hönd hefir haft af þessari atvinnugrein. Fyrrv. dómsmrh., hv. 5. landsk., lét svo um mælt þá: „Ég hefi enga trú á, að kraftur verði í útgerðinni í sumar eða yfirleitt fyrr en skipulag kemur aftur, með hvaða hætti, sem það verður“. Alþýðublaðið tók í sama streng og kvað það útilokað, að nokkurt vit væri í því fyrir útgerðarmenn að stunda síldveiðar áfram. Í þveröfuga átt hnigu ummæli hv. þm. Ak., sem lét svo um mælt hér á síðasta þingi: „Eins og nú er komið, hefi ég bezta trú á framtaki einstaklingsins. Ef það dugir ekki til að rétta við síldarútveginn, þá dugir ekkert annað“. Gæti verið nógu gaman að athuga þessa spádóma og þá reynslu, sem fengizt hefir af því, að einkasalan var lögð niður. Ég held, að allir hafi verið við því búnir á síðasta þingi, að útvegsmenn væru svo lamaðir eftir einkasöluna, að ekki mundi verða neinn kraftur í útgerðinni 1932. A. m. k. var ég við því búinn, að afdrif einkasölunnar hefðu lamandi áhrif á síldarútveginn. Sem betur fór varð þó sú raunin á, að útkoma ársins 1932; þegar framtak einstaklingsins fékk að njóta sín óhindrað af ríkisvaldinu, var öll önnur og betri en ársins þar á undan og síðustu árin, sem einkasalan starfaði. Hæstv. ráðh. skýrði frá því, að 109 þús. tn. hefðu verið óseldar, þegar einkasalan tók við. Þetta ár, 1931, voru saltaðar og sérverkaðar 212 þús. tn., svo að það var meira en helmingurinn, sem einkasalan átti eftir að koma í peninga, þegar skilan. tók við. Árið 1932, þegar

Alþýðublaðið taldi útilokað, að nokkurt vit væri fyrir útgerðarmenn að stunda síldveiðar, voru saltaðar og sérverkaðar 247 þús. tn., eða 35 þús. tn. meira en síðasta ár einkasölunnar, og var framleiðslan að kalla öll seld um síðustu áramót, að því er ég bezt veit. Aðeins óseldar nokkur hundr. tn. Á síðasta ári einkasölunnar fengu sjómennirnir 2 kr. á tn., en er fyrirsjáanlegt var um hið mikla tap einkasölunnar, mun skilan. hafa viljað heimta þessar 2 kr. inn aftur, þótt hún hyrfi frá því aftur, af því að ríkisstj. mun hafa lagt á móti því. 1932 hefir afkoman orðið öll önnur og betri; þannig mun hafa verið greitt 5,50 til 6 kr. fyrir ferska síld, og alls hefir andvirði seldrar síldar í fyrra numið 21/2 millj. kr. meira en árið 1931. Þá er ekki síður ástæða til að minnast á það, hvað verkuninni hefir fleygt áfram undir hinu frjálsa fyrirkomulagi. Þannig er mér kunnugt um það, að firma eitt í Hamborg hefir skrifað viðskiptamönnum sínum í Skotlandi, að íslenzka síldin frá árin 1932 hafi verið svo vel verkuð, að hún sé að verða hættulegur keppinautur fyrir skozka síld á þýzka markaðinum. Þetta sýnir það, að strax og einkasalan sleppir hendinni af atvinnugreininni, batnar hagur þeirra, er að henni vinna, og verkunin er bætt, svo að við fáum betri fótfestu á markaðinum.

Ástæðurnar fyrir óförum einkasölunnar, sem skilan. tekur fram, eru aðeins endurtekning á því, sem velunnarar einkasölunnar, jafnaðarmenn og framsóknarmenn, hafa áður sagt í því máli. Þar er ekki minnzt á, að nein mistök hafi verið á stjórn einkasölunnar, né heldur á það, að einkasalan notaði skemmt salt og lélegar tunnur, sem hvorttveggja olli stórum skemmdum á vörunni. Þeir, sem berja vilja í brestina fyrir óstjórn einkasölunnar, minnast lítið á þetta, nema þeir séu til neyddir. Þeir tala jafnan um of mikla söltun árið 1931, sem sé sök alls ófarnaðar. En þetta er í meira lagi villandi. 1932 var saltað miklu meira, en þó fór allt vel, að ég hygg mest vegna þess, að engir þeirra, sem afskipti höfðu af stjórn einkasölunnar, voru riðnir við verkun eða útflutning síldar það ár, og verða vonandi aldrei framar.

Ég skal svo ekki orðlengja þetta öllu meira. En trúað get ég því, að mörgum útvegsmanninum muni þykja fróðleg skýrsla sú, sem hæstv. ráðh. hefir gefið.

Það er líklega ekki hægt að hraða störfum skilanefndar meira en gert er. Hún verður víst að fá að vinna áfram um stund, fyrir sjálfa sig og föðurlandið, á rústum hins mesta vandræðafyrirtækis, sem sögur fara af í seinni tíð. Sú bót er þó í máli, að nefndarmennirnir vinna ekki fyrir gýg. Þeir fá hátt launað starf árum saman, og mun a. m. k. framsóknarmönnum þykja það vel farið. Ekki tel ég nú samt útilokað, að þessa vinnu hefði mátt leysa af hendi fyrir eitthvað hóflegra gjald.