29.04.1933
Neðri deild: 59. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (2718)

161. mál, tollalög

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég mun ekki greiða atkv. með þessu frv., og má það engum á óvart koma, sem kunnugur er stefnu okkar jafnaðarmanna í slíkum málum sem þessu yfirleitt. Ég vil benda á það í sambandi við þau tekjuaukafrv., sem fram eru komin, að það er ekki heppileg leið í skattamálum að bæta vissri % sí og æ ofan á þá tolla, sem fyrir eru. Skattalöggjöf okkar var slík, að varla varð við unað, en hún stórversnar þó við þetta. — Þetta á almennt við um þau skattafrv., sem fram hafa komið, og einnig um þetta frv. Hér er um mikla hækkun að ræða. Og þótt hæstv. fjmrh. segði, að tollurinn yrði ekki hærri en innflutningstollurinn af sömu vörum hefði verið og hann teldi, að hann mundi ekki lenda allur á neytendum, þá mun það þó mjög orka tvímælis, hve sannspár hann reynist um það. Engin trygging er sett fyrir því, að tollhækkunin komi ekki öll fram sem verðhækkun á vörunni. Mér er nú að vísu ekki neitt sárt um ölið. Það er nær að tolla það en ýmislegt annað. En hitt er óhæfilegt, að hækka kaffibætistollinn upp í 2 kr. á kg., sem þýðir það, að innlenda tollvörugjaldið verður 1 kr. á kg. af því, sem framleitt er hér. Hér er um miklu meira en verndartoll að ræða. Hér er um að ræða hreint innflutningsbann í tolllagaformi. Þessi tollur gefur þeim, sem framleiða kaffibæti hér á landi, tækifæri til að hækka verðið á honum upp í það, sem innfluttur kaffibætir mundi kosta, og þó meira en nemur tollinum, því ef þeir geta framleitt hann fyrir sama verð og hægt er erlendis, þá kemur einnig til greina, að flutningur hráefnis er ódýrari en á unninni vöru. Í frv. eru engin fyrirmæli, sem meini framleiðendum að hækka vöruna að þessu marki. Ég get því tekið undir það, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði, að þetta mundi líklega valda meiri hækkun á verði vörunnar en sem tollhækkuninni nemur. Mismunur sá, sem verið hefir á innflutningstolli og framleiðslutolli á kaffibæti, hefir þegar verið svo mikill, að kaffibætisgerðir hafa þegar þotið upp miklu meira en heppilegt er. Þessi mikli mismunur á innflutnings- og framleiðslutolli skapar skilyrði fyrir stórgróða og gerir vöruna dýrari en vera þyrfti.

Að öðru leyti get ég vísað til þess, er ég hefi áður sagt um tollamálin almennt. Hér er ekki þörf á að endurtaka það.