06.04.1933
Neðri deild: 46. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í C-deild Alþingistíðinda. (3035)

94. mál, vigt á síld

Vilmundur Jónsson:

Ég verð að segja, að þessi afgreiðsla n. er einstök. N. segist leggja til, að frv. verði samþ., en till. hennar eru í raun og veru þær, að frv. verði fellt, því að ef till. hennar verða samþykktar, þá eru ákvæði frv. að engu gerð.

Þegar l. um vigt á síld voru sett fyrir nokkrum árum, varð það ofan á í n. að hafa skilyrðislaust ákvæði um það, að síldin skyldi vegin, en á síðustu stundu var þessi fleygur settur í l., sem ég vil nú fá felldan í burtu. Hv. 1. þm. S.-M. lét þá gabba sig til að gína við þeim fleyg og samþ. þessa undanþágu, sem síðan hefir verið notuð og gefizt mjög illa, sem kunnugt er orðið. Nú hefir n. öll fallizt enn á ný á, að réttara sé að vega síld en mæla hana, en samt hefir hún eftir sem áður látið ginnast af þessum sama fleyg og vill setja það inn í frv., að síld megi mæla, ef vog er ekki tiltæk. Þetta þýðir auðvitað sama sem það, að verksmiðjurnar geti mælt síldina, ef þær vilja, því að ef einhverri verksmiðju þóknast ekki að hafa vog, þá er hún ekki tiltæk, og þá er heimilt að mæla síldina. Ég ætla, að hv. 1. þm. S.-M. gerist nú gamlaður, ef hann getur ekki skilið, hver hringavitleysa þetta er.

Ég vil því mjög mælast til, að fyrri brtt. n. sé felld, ef n. vill ekki gæta þeirrar skynsemi, að taka hana aftur. Og það er raunar alveg óhætt að fella brtt. í heilu lagi. Enn eru óþekktar fljótandi bræðslustöðvar hér við land, og því kemur ekki til, að síld verði afhent á skipsfjöl. Og þó að til þess kæmi, þá álít ég ekki nema rétt og sjálfsagt að skylda slík skip til að hafa vog. Það er alveg eins mikið rúm fyrir vog á þilfari skips eins og á bryggju, svo að það er engin ástæða til að veita þessháttar skipum slíka undanþágu.

Ég mun því bera fram skrifl. brtt. við brtt. n., um að orðin „eða þar, sem nothæf vog er eigi tiltæk“, falli burt. Það er alveg meiningarlaust að láta þau standa. En höfuðkrafa mín er, að n. taki þessa dæmalausu till. sína aftur.