10.05.1933
Efri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

1. mál, fjárlög 1934

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég þakka hv. n. fyrir ágæt störf og ýtarlegt álit. Greiðsluhallinn er ekki mikill, en æskilegast er þó, að hægt væri að afgreiða fjárl. hallalaust, og ef ekki verða samþ. neinar stórkostlegar till. umfram það, sem n. hefir lagt til, má laga greiðsluhallann með því að hækka a. m. k. 2 liði í tekjuáætluninni, sem vitað er um, að eru of lágt áætlaðir. En slíkt þarf ekki að athuga fyrr en við 3. umr.

Ég þarf ekki að telja þær till., n., sem ég get mælt með, en mun drepa lítillega á þær till., sem ég mundi fremur kjósa, að biðu eða gengju ekki til atkv. nú. Þannig hefir n. gert till. um að lækka greiðsluna til endurskoðenda LR, og vildi ég óska, að n. tæki þá till. aftur til 3. umr. til nánara umtals. Starf endurskoðenda LR er bæði mikið og vandasamt, og eins og kunnugt er, hefir það 2 hin síðustu ár verið rækt af mjög miklum dugnaði og samvizkusemi af endurskoðendunum. Þegar hér við bætist, að endurskoðendur eru búsettir utan Reykjavíkur, eins og nú er um einn þeirra, verða núv. laun sízt of há, og fremur of lág. Hinsvegar hefði getað komið til mála að gera nýja skipun á þessu starfi, þannig að endurskoðendurnir yrðu aðeins 2, í stað 3 nú, enda er sú venjan um alla endurskoðun, að skoðunarmennirnir séu 2, og mætti þá hækka laun þeirra nokkuð og þó um leið skapa áþekkan sparnað og leiða mundi af samþykkt þessarar till. Mér fellur illa, ef allir námsstyrkir eru felldir niður úr frv., án þess að jafnframt verði hækkuð sú upphæð, sem Alþingi veitir menntamálaráði til úthlutunar meðal námsmanna, en ég efast ekki um, að dómar menntamálaráðs um það, hverjir séu styrksins verðir, séu sannari en þeir dómar verða hér á Alþingi, þar sem tilviljunin ræður oft mestu um slíkt.

Að því er snertir þá till. hv. n. að gera menntamálaráð að einskonar censor yfir Leikfélagi Reykjavíkur, vil ég segja það, að ég álít, að tæplega sé á því þörf. Má vera, að leikfélagið hafi eitthvað sýnt, sem betur væri ósýnt, en félagið gerir þá slíkt peninganna vegna, og því er sannarlega vorkunn. Ríkisstyrkurinn, sem félagið nýtur, er ekki mikill, og auk þess verður félagið að borga skatt eftir sýningar sínar. Ennfremur er á það að líta, að hér yrði um allumfangsmikið starf að ræða fyrir menntamálaráðið.

Um till. hv. 2. landsk. um atvinnubótastyrkinn, 1 millj. kr., vil ég segja það, að ég teldi heppilegt, að hv. þm. tæki till. aftur til 3. umr., auk þess sem þessi till. er fram yfir alla möguleika og getu ríkissjóðs í þessu efni. Er vitanlegt, að bæði n. og ríkisstj. mun gera allt það, sem unnt er að gera til úrlausnar á atvinnumálunum og leggja fram till. um það við 3. umr.

Ég vil leggja með till. hv. 1. landsk. og fleiri þm. um það, að stj. verði heimilað að ganga í ábyrgð fyrir allt að 350 þús. kr. láni til þess að reisa síldarbræðslustöð á Seyðisfirði, ef felld verður niður heimildin í sömu gr. fjárl., 22. gr. XVII, um að stj. megi ábyrgjast allt að 100 þús. kr. fyrir samvinnufélag sjómanna og verkamanna á Seyðisfirði til kaupa á fiskiskipum. Ég hefi átt tal við hv. þm. Seyðf. um þetta og sagt honum, að ekki yrði unnt að gera nema annað tveggja af þessu tvennu, og þar sem líklegt þykir, að síldarverksmiðja muni starfa við góð skilyrði á Seyðisfirði og skapa þar mikla atvinnumöguleika, verð ég, vegna þess vandræðaástands, sem nú ríkir, heldur að leggja með hærri till.

Ég mun þá ekki drepa á fleiri till. í sambandi við fjárl. að þessu sinni. Ég vænti þess, að hv. d. gæti þess að afgreiða frv. svo varlega, að ekki þurfi að opna fjárl. í Nd. Fjvn. þar hefir sýnt ágætt fordæmi og gætt hinnar mestu kostgæfni í sínu starfi.