09.03.1933
Neðri deild: 20. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (3082)

71. mál, takmörkun eða bann innflutnings á óþörfum varningi

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég var nokkuð jafnnær eftir svar hæstv. ráðh. við fyrirspurn minni. Hann þurfti ekki að lýsa því yfir, að sú n., sem fengi málið til meðferðar, gæti eða mætti athuga, hvort ástæða væri til að gera þetta. Ég spurði um skoðun hans í þessu efni. Ég er jafnnær um hans skoðun og fyrirætlanir, þrátt fyrir svar hans til mín, ef svar skyldi kalla. Það orkar ekki tvímælis, að verðlag á mörgum vörum hefir hækkað vegna haftanna, sem ég tel óeðlileg. Getur hver maður gengið úr skugga um það, sem kaupir eitthvað af því dóti, sem hann er vanur að brúka. Það er enginn vafi á því, að innflutningshöftin hafa verið til stórgróða fyrir vefnaðarvöruverzlanirnar, og þá til jafnmikilla útgjalda fyrir þann almenning, sem er neyddur til að skipta við þær.

Út af ræðu hv. 4. þm. Reykv. langar mig til að beina fyrirspurn til hans, þó að það sé kannske ekki þinglegt. Hann talaði um afstöðu þess opinbera til þeirra, sem ynnu nytsamasta hlutverkið, að leggja gjaldeyrinn til. Mér fannst ekki koma ljóst fram í ræðu þessa hv. þm., hver þessi nauðsynlega skepna er, sem leggur gjaldeyrinn til. Ég hafði haldið, að það væru sjómennirnir, sem veiddu fiskinn, fólkið í landi, sem verkaði hann, bændurnir og yfirleitt þeir, sem vinna að framleiðslunni á þeim vörum, sem sendar eru til annara landa. Mér fannst af ræðu hans, að það væru einhverjir aðrir, sem öfluðu þessa gjaldeyris. Ég tel, að eins og innflutningshöftunum hefir verið beitt, þá sé mjög þrengt hlut þeirra manna, sem leggja gjaldeyrinn til, og lífsbaráttan gerð erfiðari fyrir þá, sem þurfa að kaupa lífsnauðsynjar sínar með þessu hækkaða verði, þá sömu menn, sem stuðla að okkar framleiðslu.