28.04.1933
Neðri deild: 60. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (3198)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Mér þótti vænt um að heyra það frá hæstv. fjmrh., að ekki gæti komið til mála að leggja þetta breytta form á löggjöfinni um tekju- og eignarskatt til grundvallar fyrir þessum málum í framtíðinni. Það er því óþarfi fyrir hv. þm. að standa hér upp til þess að tala um frv. þetta sem grundvallarstefnu í þessum málum. En hæstv. ráðh. taldi þörfina svo brýna nú um auknar tekjur fyrir ríkissjóðinn, að taka yrði þennan skattstiga upp um eitt ár eða svo. Aftur hélt hv. frsm. meiri hl. fjhn. því fram, og það réttilega, að hér væri um þá þörf að ræða, sem ekki yrði bætt úr á einu ári; myndi því verða þörf fyrir þennan tekjuauka á næstu árum, a. m. k. árin 1935, 1936 og 1937.

Í grg. frv. segir hæstv. ráðh., að meginástæðan fyrir því, að hann treystist að flytja þetta frv. í þinginu nú, væri sú, að lítil hætta væri á, að verulegur skattauki lenti á atvinnuvegunum eins og nú stæðu sakir, a. m. k. ekki neitt það, sem staðið gæti þeim fyrir þrifum. Ég skal játa, að þetta er aðalatriðið fyrir mér. Gæti ég því í raun og veru látið mér lynda að vera með skattauka þessum til eins árs, en mér finnst, að með honum sé komið allmjög aftan að skattborgurunum. Þeir eru búnir að telja fram tekjur sínar til skattálagningar 1933. Ég fyrir mitt leyti er svo lítið tortrygginn, að ég geri ekki ráð fyrir, að Alþingi muni samþ. slíka skatthækkun næsta ár, en ég er ekki viss um, að allir aðrir skattþegnar landsins séu svo ótortryggnir eins og ég.

Nú stendur svo á í þetta sinn, að ekki er mikil hætta á, að mikill þungi lendi á atvinnuvegum landsmanna af skatthækkun þessari, þar sem þeir hafa verið reknir með tapi síðastliðið ár, en það er ekki víst, að svo verði framvegis. Ég vildi því spyrjast fyrir um það hjá hæstv. fjmrh. og meiri hl. fjhn., hvort ekki myndi hægt að gera skattauka þennan þannig úr garði nú, að hann gæti orðið til frambúðar, a. m. k. þann tíma, þau 2-3 ár, sem gert er ráð fyrir, að halda þurfi á þessum tekjuauka. Ég held, að það væri betra bæði fyrir skattþegnana og ríkissjóð. Ég trúi ekki, að það væri svo vandasamt mál, að ekki mætti komast þar á fastan grundvöll áður en þingi lýkur. Það myndi óneitanlega verða hagkvæmast að koma þessum skattauka nú þegar þar fyrir, sem hann á að hvíla næstu árin. Hvað fjmrh. snertir, þá væri það miklu öruggara fyrir hann. Honum ber nauðsyn til að fá vissu fyrir því, að þessi tekjuauki dugi til þeirra hluta, sem hann er ætlaður. Það er stórt atriði í málinu. Ég vil því beina þeirri fyrirspurn til hv. fjhn. sérstaklega, hvort hún telji ekki fært að hverfa að þessu ráði nú, því að frv. það, er hér liggur fyrir, á aðeins að gilda um eitt ár, og verður því þegar á næsta þingi að breyta þessum lögum, en það er miklu óheppilegra heldur en koma málinu nú þegar í það horf, sem það á að vera í næstu árin.