31.05.1933
Efri deild: 85. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í C-deild Alþingistíðinda. (3287)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Pétur Magnússon:

Hæstv. fjmrh. sagði síðustu ræðu sinni, að viðbótarskattur sá, sem hér er farið fram á, mundi ekki koma niður á aðalatvinnuvegum landsins, landbúnaði og sjávarútvegi, og ástæðan væri sú, að báðir þessir atvinnuvegir hefðu verið reknir með tapi á síðasta ári, en hæstv. ráðh. hefði eins vel getað sagt: á síðustu árum. Þetta er rétt, svo langt sem það nær. Og ég er sammála hæstv. fjmrh. um það, að framar öllu ber að forðast þær skattaálögur, sem koma þungt niður á þessum atvinnuvegum. Og það mun rétt, að viðbótar-tekjuskatturinn á síðastl. ári mun lítið hafa komið við þessa atvinnuvegi.

En með þessu er ekki öll sagan sögð. Það er vitanlegt, að almenningur lítur svo á, að skattgjald, sem búið er að lögfesta, verði áfram í gildi. Reynslan sýnir, að svo hefir jafnaðarlega farið. Í fyrra var lögfest talsverð aukning á tekjuskatti. Og í ár er þessu ekki einungis haldið, heldur farið fram á meiri aukningu. Það er því ekki óeðlilegt, að menn geri ráð fyrir, að haldið verði áfram á sömu braut. - En hver verður afleiðingin af þessum viðbótarskatti fyrir tvo aðalatvinnuvegi vora? Það má segja, að tekjuskatturinn snerti ekki mikið annan þeirra. Reynslan hefir sýnt það, að tekjur af landbúnaði verða hér sjaldan svo miklar, að tekjuskattur komi þar hart niður. Hinsvegar getur hin gífurlega eignarskattsaukning komið hart niður á bændum eigi síður en öðrum, og að vissu leyti máske harðar, vegna þess hve mikill hluti af eignum margra þeirra er óarðberandi. En öðru máli er að gegna um sjávarútveginn að því er til tekjuskattsins kemur. Það er öllum kunnugt, hve tíðar breytingar verða á afkomu sjávarútvegsins. Mörg árin verður stórmikið tap á útgerðinni, en eina hjálpin er sú, að við og við koma þannig ár, að atvinnureksturinn gefur góðan arð. En eigi nú að lögfesta skatt sem þennan þar sem meginhlutinn af tekjum góðæranna er tekinn til þarfa ríkis og bæja, þá liggur í augum uppi, að hvöt útgerðarmanna til þess að auka tekjur sínar og atvinnurekstur er stórkostlega lömuð. Það má segja, að atvinnuvegur, sem rekinn er með lítilli áhættu ár frá ári, geti þolað það, að skattstiginn sé hækkaður, án þess að draga saman seglin.

En atvinnurekstur, sem fyrirfram er vitað um, að hlýtur annað veifið að gefa stór töp, hefir enga möguleika til þess að halda áfram, ef svo að segja allar tekjur góðu áranna eru teknar í skatta. Ég skal taka það fram, að hér í Reykjavík er þegar fengin reynsla fyrir þessu á síðustu árum. Stórútgerðin er stöðugt að draga saman seglin, togurunum fækkar o. s. frv. Ég veit það, að ýmsar fleiri ástæður liggja til þessa, svo sem óeðlilega hátt kaupgjald o. fl. En vafalaust á óttinn við skattana mikinn þátt í þessu, og bætist nú nýr skattur ofan á alla þá, sem fyrir eru, sé ég ekki annað en að stefnt sé í óefni. Og verði haldið enn áfram á þessari braut, hlýtur afleiðingin að verða sú, að útgerðin heldur áfram að þverra, en óhjákvæmileg afleiðing þess er aukið atvinnuleysi. En um það munu flestir sammála, að af öllum þeim erfiðleikum, sem við eigum nú við að stríða, sé atvinnuleysið örðugast viðureignar. Það væri vissulega illa farið, ef löggjafarvaldið aðhefðist nokkuð það, er yrði til að auka það þjóðarböl. - Ég vil því vænta þess, að hæstv. ráðh. hugsi vel um allar afleiðingar þessa viðbótarskatts, áður en frv. þetta verður afgr. Hann verður að gæta þess, að það eru ekki bara efnaðir menn, sem verða fyrir barðinu á honum, heldur líka allur almenningur, og það jafnvel þeir, sem sízt mættu við slíku.