03.03.1933
Neðri deild: 15. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (3326)

53. mál, lífeyrissjóður ljósmæðra

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Það er réttur skilningur hjá hæstv. ráðh., að það er tilætlunin, að 10 þús. kr. verði árlega veittar úr ríkissjóði til sjóðsins. Útreikningarnir, sem frv. fylgja, eru byggðir á því og við það er miðað, þegar áætlaðir eru greiðslumöguleikar sjóðsins. Ef svo sýndist, að sú upphæð yrði of há, þá hefir þingið í sinni hendi að breyta því, og er hér þess vegna engin hætta á ferðum. Má að vísu gera ráð fyrir, að ríkissjóður þurfi að styrkja þennan sjóð tiltölulega meira en sjóð embættismanna, vegna þess að laun yfirsetukvenna eru svo lág, að þeim er ókleift að gjalda hlutfallslega jafnmikið til lífeyrissjóðs og embættismönnum er gert að greiða, enda munu embættismenn greiða 7% af launum sínum, en ljósmæður eiga aðeins að greiða 4% samkv. frv., sem er það hæsta, er þær treysta sér til.

Viðvíkjandi hinu, að skilja eigi ákvæði 9. gr. frv. svo, að þær ljósmæður, sem nú eru styrktar í 18. gr. fjárl., eigi aukreitis að fá styrk úr þessum sjóði, þá sér hæstv. ráðh., ef hann les greinina með athygli, að svo er ekki. Lífeyrissjóðnum er að vísu ætlað að taka að sér þær skuldbindingar að veita hinum svo nefndu „jubilljósmæðrum“ sömu eftirlaun áfram sem þeim eru ætluð í síðustu fjárl., en þá heldur engin önnur eftirlaun. Er þetta skýrt tekið fram í 9. gr. frv., þar sem ákveðið er, að rétturinn til lífeyris nái yfirleitt ekki til annara ljósmæðra en þeirra, sem láta af störfum eftir að sjóðurinn er tekinn til starfa. Um þetta mun hæstv. ráðh. geta fullvissað sig, en ef hann telur það óljóst í frv., þá er e. t. v. hægt að breyta því og gera það enn skýrara.