11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2171 í B-deild Alþingistíðinda. (3397)

167. mál, kreppulánasjóð

Bernharð Stefánsson:

Ég flutti brtt. við frv. við 2. umr. á þskj. 509, þess efnis, að heimilt væri að lána ábúendum smábýla við kaupstaði og kauptún fé úr kreppulánasjóði, ef þeir fullnægðu að öðru leyti settum ákvæðum þar um. Tók ég þó till. aftur í þeirri von, að kreppun. tæki hana til athugunar og annaðhvort tæki till. upp við þessa umr. eða bæri fram aðra till. í hennar stað. Þetta hefir ekki orðið, og verð ég því að taka till. upp og láta hana koma til atkv., hver svo sem forlög hennar kunna að verða.

Ég gerði grein fyrir ástæðunum fyrir þessari brtt. við 2. umr. og sé ekki ástæðu til að taka það upp aftur nú. Ég vil þó á ný minna á það, að þeir menn, sem hér er farið fram á, að verði sömu réttinda aðnjótandi og bændur, hafa orðið fyrir prettum af löggjafarvaldsins hálfu með 1. um búnaðarbankann, þar sem lofað var, að sett yrði upp sérstök nýbýladeild við bankann, sem þessir menn einmitt gætu fengið lán úr, en þetta hefir hinsvegar ekki orðið. Veit ég þó mörg dæmi þess, að þessir menn hafa stofnað sér í óþægilegar lausaskuldir í trausti þess, að þeir gætu fengið lán úr smábýladeildinni, þegar hún kæmi upp, til þess að greiða skuldirnar aftur. Hvað sem líður hinum almennu rökum um það, að útvegurinn heyri ekki undir starfsvið kreppulánasjóðs, þá hefir þessi till. rétt á sér fyrir því. Annað mál er það, ef smábýladeildin yrði stofnuð mjög bráðlega, en þar sem engin vissa er fyrir því, að svo verði, verð ég að halda þessari till. fram.

Ég vil ennfremur benda á það, eins og ég gerði við 2. umr., að nú á þessum atvinnuleysistímum yrði afleiðingin sú sama, ef gengið yrði að þessum mönnum vegna skulda, eins og ef gengið yrði að bændum og jarðirnar teknar af þeim. Þessum mönnum yrði þá ekki annað fyrir en að flytja til bæjanna og bætast í atvinnuleysingjahópinn, sem þar er fyrir.

Hv. frsm. drap ekki á þessa till. mína áðan, svo að ég veit ekki, hvernig hv. n. lítur á hana, en ég vona a. m. k., að n. verði ekki á móti till. Þetta er áreiðanlega sanngirnismál í alla staði.

Ég hefði tilhneigingu til að drepa á fleiri atriði í sambandi við þetta mál, einkum þó í sambandi við þær brtt., sem fram hafa komið, en ég mun þó sleppa því að sinni.