09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2216 í B-deild Alþingistíðinda. (3444)

172. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Afstaða mín til þessa frv. er enn ekki ákveðin að fullu. Hún fer eftir því, hver afstaða verður tekin til brtt. okkar á þskj. 600. Ég vil í sambandi við frv. og ræðu hv. frsm. benda á það, að sú hjálp, sem frv. gerir ráð fyrir, að veitt verði, er minni en margir hafa ætlað. Í 1. gr. segir, að stj. Búnaðarbanka Íslands sé heimilað að veita greiðslufrest á afborgunum lána úr ræktunarsjóði, byggingar- og landnámssjóði og veðdeild bankans um allt að 5 ára tímabil, og í 2. gr. er stj. Landsbanka Íslands heimilað að veita greiðslufrest í 5 ár af þeim lánum úr veðdeild bankans, er bændur eða aðrir, sem hafa landbúnað að aðalatvinnu, eiga að standa skil á. Mestur hluti kostnaðar af þessum veðskuldum er vextir, en ekki afborganir, og eru það nú vaxtagreiðslurnar, sem mestum erfiðleikum valda. Bóndi, sem nýlega hefir tekið 20—30 ára lán til nýbyggingar og ræktunar, greiðir ekki svo ýkjamikið í afborgunum, heldur eru það vextirnir, sem harðast koma niður á honum.

Ég hefi vakið máls á því í hv. n., hvort ekki væri hægt að veita greiðslufrest einnig á öðrum skuldum, en n. taldi það ekki gerlegt. Er því rétt, að hér sé á það bent, hvað þessi hjálp er í rauninni lítilfjörleg.

Brtt. meiri hl. n. á þskj. 585 gat ég ekki fylgt. Ég tel það ekki rétt hjá hv. frsm., að brtt. láti það opið, hvaða leið sé farin. Till. ákveður, að veita megi lánsstofnunum lán úr kreppulánasjóði, til þess að gera þeim fært að veita afborgunarfresti. Sé ég ekki betur en að þar með sé ákveðið, hvaða leið sé farin. Þetta skiptir að vísu ekki miklu máli, en hér er þó um vansmíði að ræða.

Þá er brtt. okkar á þskj. 600. Það er höfuðgalli á frv., að hjálpin er einhliða bundin við bændastéttina, enda þótt fjöldi verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna séu alveg eins illa settir.

Brtt. mín gengur út á það, að stj. veðdeildar Landsbankans geti veitt þessum mönnum greiðslufrest líka, en ekki aðeins bændum, ef þeir hafa sett að tryggingu eignir, sem þeim eru nauðsynlegar til atvinnurekstrar þeirra eða til eigin íbúðar. Ég sé ekki, að nokkur munur sé á því, er bóndi verður, vegna vanskila á greiðslum, að hrökklast frá búi sínu, og hinu, er smáútvegsmaður verður að hrökklast frá bát og atvinnu. Líkt má segja um handiðnaðarmenn, sem eiga í hættu verkstæði og áhöld, og að miklu leyti hafa þeir verkamenn og sjómenn hliðstæða aðstöðu, er eignazt hafa bústofn, sem þeir geta búizt við, að lánardrottinn taki af þeim, ef þeir lenda í vanskilum.

Hv. frsm. féllst á, að mikil sanngirni væri í till., þó að n. gæti ekki fallizt á hana, þar sem nauðsynlegar upplýsingar vantaði. En það er sök hæstv. stj., að þessar upplýsingar eru ekki til. Hún hefði átt að hafa starfsvið milliþingan. nokkru víðara, svo að hún hefði einnig getað leyst af hendi þessa rannsókn. En þó er það ekki sérstaklega mikið atriði, að þessa rannsókn vantar, því að hér er ekki um svo mikið fé að ræða. Það eru ekki margir verkamenn, sem eiga hús, en till. okkar er bundin við þá. Um smáútvegsmenn myndi þetta fara eftir því, hvar hæstv. stj. setti markið milli smáútvegsmanna og stórútvegsmanna. Er hætt við, að miðað myndi verða við 10—12 tonna mótorbáta.

Loks kann að vera um að ræða ýmsa smærri handiðnaðarmenn, sérstaklega sem hafa ráð á húsi, en það er ekki svo fjölmenn stétt, að þar geti verið um mikla upphæð að ræða. Ég held því, að hættulaust sé að samþ. þessa till., og fullkomin sanngirni mælir með því, að þessir menn séu látnir njóta sömu kjara eins og aðrir, sem búa við svipaðan hag og til greina eru teknir í till. n. sjálfrar.