11.04.1933
Efri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (3466)

124. mál, geldingu hesta og nauta

Frsm. (Páll Hermannsson):

Hv. d. kannast við þetta frv. Það gekk í gegnum allar mögulegar umr. í fyrra, og var síðast fellt í Sþ. Frv. er nú flutt í sama formi og það var þegar það fór úr þessari hv. d. í fyrra, að öðru leyti en því, að þá var ætlazt til, að það kæmi til framkvæmda einu ári seinna en nú er gert ráð fyrir. Þessi hv. d. hefir því samþ. þetta frv. í fyrra eins og það er, að öðru leyti en þessu eina atriði.

Landbn., sem þetta frv. hafði til meðferðar, leit svo á, að varla væri rétt að vera að togast á við hv. Nd. um þetta eina atriði, sem sé það, hvenær lögin skyldu koma til framkvæmda, hvort það yrði eftir eitt ár eða tvö. Það hefir unnizt frestur fyrir menn til umhugsunar frá því í fyrra, því menn hafa tæpast komizt hjá því að vita um það, að frv. var á ferðinni.

Ég hefi svo ekkert að segja fyrir n. hönd annað en það, að hún leggur til, að frv. verði samþ. En sjálfur er ég á þeirri skoðun, að það sé vafasamt, að hverju liði frv. verður, þó að það verði að lögum, en mér þykir það eftir öllum atvikum rétt að láta reynsluna skera úr, hvernig þetta gefst.