18.04.1933
Efri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 204 í C-deild Alþingistíðinda. (3474)

124. mál, geldingu hesta og nauta

Halldór Steinsson:

Ég get ekki verið samþykkur hv. flm. þessarar brtt., því mér finnst, að ef farið er að gera undantekningar frá þessum reglum, sem gilda í frv., þá sé farið út fyrir þann grundvöll, sem frv. byggist á. Frv. hefir áreiðanlega verið flutt í mannúðarskyni, og með því að binda deyfinguna við vissan aldur er kippt fótunum undan ástæðum fyrir frv. Það má auðvitað segja, að ungviði finni nokkuð minna til en fullorðnar skepnur við allskonar skurði, en það fylgir því á ungum sem gömlum alltaf talsverður sársauki. Það mundi t. d. engum lækni detta í hug að gera slíkar aðgerðir á piltbörnum án þess að deyfa eða svæfa. Það, sem gildir um menn, má í flestum tilfellum yfirfæra á dýrin. Mér finnst því vera kippt fótum undan ástæðum fyrir frv. með því að samþ. þessa brtt., og get ég því ekki greitt henni atkv. mitt.