18.04.1933
Efri deild: 50. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (3481)

124. mál, geldingu hesta og nauta

Bjarni Snæbjörnsson:

Ég veit ekki almennilega, hvað á að verða úr þessu frv. núna, eftir því sem ég hefi heyrt utan að mér. Það hljóta sennilega allir að vera á sama máli um það, að bezta fyrirkomulagið væri, að þetta næði til allra húsdýra, ungra sem gamalla. En svo er spurningin þessi, þegar til bændanna kemur, hvort þessi l. verða framkvæmd, ef felld er brtt. hv. 3. landsk., hvort l. verða ekki að vettugi virt, ef bændur eru á sama máli og hv. þm., sem ég álít satt að segja vera málsvara bændanna. Þess vegna hefði ég viljað fá að vita, hver væri afstaða n. í þessu máli. Því ef l. verða að vettugi virt af bændum, svo framarlega sem brtt. hv. 3. landsk. verður felld, þá er tilgangi frv. alls ekki náð, og ef frv. verður fellt og brtt. líka, þá eru þeir, sem bera þetta mál fyrir brjósti - og ég tel mig vera einn af þeim - engu nær. Ég vildi því fá að vita, hvernig landbn. lítur á þessa brtt. og hvort hún álítur, að l., ef þau yrðu samþ., mundu þá ná tilgangi sínum, ef brtt. yrði felld. Mér finnst þessi kostnaður ekki vera svo gífurlegur. Ég hefi spurzt fyrir um, hvað lyfið mundi kosta á hvert lamb, og það fer ekki í smásölu fram úr 30 aurum, og ég er ekki í vafa um það, að ef lyfið væri keypt hjá áfengisverzlun ríkisins, væri hægt að fá það með sama verði og apótekarar fá, og væri þá alltaf slegið af 1/3 verðsins, svo lyfið mundi ekki verða nema 20 aur. á hvert lamb. Ég veit, að bændur tekur svo sárt til þeirra dýra, sem þeir umgangast, og vilja láta þeim líða sem bezt, að þeir munu varla láta sig muna um þetta litla gjald. En ef það ætti að verða frv. að falli, þá er ég í vafa um, hvort ég á að greiða atkv. með eða móti þessari brtt. hv. 3. landsk. Ég vænti þess vegna að fá upplýsingar frá n. um það, hvað hún álítur í þessu efni.