13.05.1933
Neðri deild: 73. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (3504)

124. mál, geldingu hesta og nauta

Steingrímur Steinþórsson:

Ég vil skýra frá því, að ég var ekki á fundi, þegar landbn. afgr. þetta mál, og hefi því óbundið atkv. um frv., og skal ég þá lýsa því yfir, að ég er mótfallinn þessari afgreiðslu málsins. Þetta frv. mun hafa gengið í gegnum nær 20 umr. á þinginu í fyrra og nú. Ég sé enga ástæðu til að hrekja málið þannig lengur milli deilda, af því að hér er deilt um hluti, sem menn virðast enga hugmynd hafa um. Skal ég ekki deila um það út af fyrir sig, sem um er deilt, hvort staðdeyfing eða svæfing sé hentugri þegar gelda þarf húsdýr. En ég vil ekki, að lengur sé verið að hrekja þetta frv. aftur og fram milli deilda, og geri ég það því að till. minni, að frv. sé vísað til stj.