29.03.1933
Efri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í C-deild Alþingistíðinda. (3544)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Frsm. meiri hl. (Jónas Jónsson) [óyfirl]:

Ég álít, að ég þurfi ekki að svara hv. 4. landsk., þar sem hv. 1. landsk. hefir nú hrakið þær almennu ástæður, sem hann færði á móti frv. En ég veit, að hv. þd. hefir tekið eftir því í umr., að engin gagnrýni hefir komið fram á því, sem er aðalatriði frv., sem sé því, að það sé ekki sanngjarnt að taka skatt af nokkrum hluta einnar atvinnustéttar, þeim, er erfiðast gengur að selja sína framleiðslu, og nota svo það fé til þess að byggja grundvöll stéttarinnar í heild. Þetta mál er nefnilega fyrst og fremst réttlætismál og þar næst fjárhagsatriði. Þó hér sé ekki um að ræða nema 45 til 50 þús. kr., þá er það gjald, sem kemur mjög óréttlátlega niður, eins og ég hefi lýst, og því getur það munað ekki alllitlu.

Þá var það ekki alveg rétt, sem hv. 1. landsk. hélt fram, að þetta tvennt, útflutningsgjaldið og tillagið til ræktunarsjóðs, yrði undir öllum kringumstæðum að fylgjast að. Þegar þessi skattur var lagður á útflutta vöru í tíð 1. landsk. sem fjmrh., var svo fyrir mælt, að allt útflutningsgjaldið skyldi ganga til ræktunarsjóðs í 2 ár, en síðan ekki nema ¼ hluti þess, og þegar tillögin samtals væru búin að ná vissri hæð, þá átti útflutningsgjaldið allt að ganga til sjávarútvegsins, þá átti að hætta að styrkja landbúnaðinn; það verður kannske eftir svo sem 2 ár. Af þessu sést, að það þarf hreint ekki endilega að láta þessi tvö atriði fylgjast að. Ég álít því réttast að láta lögin hafa sinn gang um tillagið til ræktunarsjóðs, nema ef frestun gæti komið til mála. En það, sem mestu máli skiptir nú, er að létta skattinn á þeim, sem harðast verða úti.