22.04.1933
Neðri deild: 54. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2333 í B-deild Alþingistíðinda. (3723)

93. mál, ábúðarlög

Sveinn Ólafsson:

Það er ekki tækifæri til að ræða einstakar gr. frv. að þessu sinni. Það er aðeins heildarsvipur þess, sem minnast má á við 1. umr. Skal ég geta þess strax, að þar sem frv. er í talsvert líkri mynd og það hefir haft á undanförnum þingum, þá get ég ekki fyrirfram lofað því fylgi mínu. Yfirleitt virðist frv. fyrst og fremst stefna að því að fjölga sjálfseignarbændum í landinu, ef hægt væri, og draga úr tilhneigingu einstakra manna og stofnana til þess að eiga jarðir og leigja öðrum. Og það er svo langt gengið í þessa áttina, að heita má, að með frv., ef að l. verður, sé umráðarétturinn tekinn af landeigendum og lagður í hendur óviðkomandi manna. Úttektarmennirnir verða samkv. frv. hinir eiginlegu umráðamenn leigujarðanna. Eða, svo ég kveði skýrar að orði, þá er 63. gr. stjskr. úr gildi numin með ákvæðum frv. að því er jarðeignir snertir, þó að hún sé látin gildi halda um aðrar eignir.

Á þessu stigi málsins er ekki tækifæri til að fjölyrða mikið um þetta efni. Þó vil ég benda á eitt einkenni frv., sem ég hygg, að ýmsir hafi veitt eftirtekt, og bendir í þá átt, að með frv. eigi að afnema eignarrétt á landi, þátt friðhelgi eignarréttarins eigi að gilda á öðrum sviðum. Í frv. eru tiltölulega ströng viðurlög við því sett, ef landeigandi leigir tveimur mönnum í senn sömu jörðina, eins og líka er í ábúðarl. frá 1884. En þau hliðstæðu ákvæði, sem í þeim l. eru um það, ef leiguliði prettar landeiganda á svipaðan hátt og brigðar ábúðarsamning, þau eru felld niður í þessu frv. Rétturinn er samkv. þessu aðeins á aðra hliðina, annar aðilinn er gerður réttlaus. Þetta atriði einkennir vel þá hugsun frv. að nema burt umráðarétt landeigenda á jörðunum.

Ég þarf ekki að fara lengra út í þetta efni, af því að hér er 1. umr. Ég býst við, að það geti farið svo, að ég þurfi einnig að kveðja mér hljóðs við 2. umr. til þess að benda nánar á ýms svipuð fyrirbæri í frv. eins og þau, sem ég hefi nú drepið á.