22.04.1933
Neðri deild: 54. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2335 í B-deild Alþingistíðinda. (3725)

93. mál, ábúðarlög

Sveinn Ólafsson:

Það er aðeins lítil aths. Ég get fúslega kannazt við það, að svör hæstv. atvmrh. voru hógværleg. Þó get ég ekki fallizt á það, að ákvæði gildandi laga um skipaskoðun séu hliðstæð kvöð á hendur skipaeigendum þeirri kvöð, sem ákvæði þessa frv. eru á hendur þeim mönnum, sem jarðir eiga og selja þær á leigu, þar sem ráðstöfunarréttur þeirra yfir jörðunum er tekinn úr höndum þeirra og fenginn úttektarmönnum. Ákvæðin um skoðun skipa takmarka að vísu nokkuð frjálsræði skipaeigenda, en það er vitanlega gert til öryggis fyrir þá menn, sem á skipunum sigla, og aðkallandi nauðsynjar á því, að nægilega sé vandaður útbúnaður skipanna, sem eigendur þeirra mundu ella e. t. v. ekki hirða um nægilega vel. Hitt er augljóst, að vegna lands, sem leigt er til afnota, getur ekki verið um slíka knýjandi ástæðu að ræða; þar er engin sambærileg hætta á ferðum. Annars verð ég að segja það, að mér finnst ekkert sérstakt öryggi fengið um meðferð þjóðjarða með því að fá hreppstjórum og úttektarmönnum þetta víðtæka vald yfir þeim. Það er vitað, að ríkið er voldugasti landsdrottinn hér á landi og hefir í því efni mestra hagsmuna að gæta.

Það vill svo til, að ég hefi haft nokkur afskipti af þessum ríkissjóðseignum síðastl. 25 ár, en á þeim tíma hefir sala þjóðjarða einkum farið fram. Reynsla mín af henni hefir bent mér á það, að hagsmunir ríkissjóðs geta gleymzt úttektar- eða matsmönnum, þegar líkt stendur á og um sölu. Ég hefi orðið var við það, að úttektarmenn hafa löngum ríka tilhneigingu til þess að hlynna að hagsmunum nágranna sinna í þeim efnum, og það svo, að ég hefi orðið að ganga gegn áliti þeirra og mati hvað eftir annað, og ég hygg, að eitthvað álíka muni koma upp, þegar um er að ræða kjör leiguliða á jörðum ríkisins.

Það var fyrst og fremst vegna reynslu minnar í þessu starfi mínu, að ég fann ástæðu til þess að benda á þetta. Ég óttast blátt áfram, ef frv. þetta verður að lögum og kvaðir þær lagðar á landeigendur, sem það ætlar þeim, að ríkið muni neyðast til að losa sig við jarðirnar fyrir lítið eða ekkert verð, til þess að losna við enn þyngri búsifjar af kvöðum svona laga, og líkt mun fara um aðra landeigendur, sem leigujarðir eiga.