30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (396)

1. mál, fjárlög 1934

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég get að ýmsu leyti tekið undir það, sem sagt hefir verið um útlit fjárl. eins og það nú er. En nú er það svo, að brtt. til lækkunar eru einungis tæpar 84 þús. kr., en hækkunartill. um 250 þús. kr. Er því ekki sýnt, verði fjárl. opnuð hér, hvort þau líta betur eða verr út á eftir en þau nú gera. Hækkunin í Ed. varð að vísu um 300 þús. kr. En þess ber að gæta, að liðurinn til atvinnubóta kom þar inn, en hann er 300 þús. kr. Þar var og heimilað að verja 400 þús. kr. til verðuppbótar á keti, ef verðið á því reyndist óbærilega lágt. Það mundi vitanlega muna miklu, ef þessir liðir væru felldir burt. En ég sé ekki, að það sé fært, og ég hygg, að enginn háttv. dm. vilji leggja til, að það sé gert. Og ef svo er ekki, þá er lítil von um, að útlit fjárl.frv. verði nokkuð hætt, þótt farið væri að krukka í það á einstaka stöðum og draga út fáeina menn.

Háttv. þm. V.-Húnv. er að vísu glöggur maður og kunnur ýmsum greinum fjármálastarfseminnar. En hér sem oftar skiptir þó máli, hvort menn eru bjartsýnir eða svartsýnir. Og ég hygg, að hv. þm. líti nokkuð dökkum augum á fjárhagshorfurnar. Ég er a. m. k. talsvert bjartsýnni. Mitt álit er það, að útkoman á 2. gr. frv., sem er um tekjuliði, verði nokkru betri en það gerir ráð fyrir. Ég geri ráð fyrir því, að þeir liðir fari fram úr áætlun sem hér segir:

Fasteignaskattur ... .. .... . 20 þús. kr.

Vitagjald ................. 50 — —

Útflutningsgjald .......... 100 — —

Tóbakstollur ............. 100 — —

Vörutollur ................ 150 — —

Verðtollur ................ 250 — —

Tóbaksverzlunin .......... 100 — —

Samtals 770 þús. kr.

Í fjárl.frv. er tóbakstollurinn áætlaður 1150 þús. kr. Virðist sýnt, að hann verður vart minni nú en meðaltal áranna 1931—1932, en það var 1½ millj. kr. Um vörutollinn og verðtollinn er að vísu erfitt að segja. Þeir tollar fara mikið eftir kaupgetu og framkvæmdum, sérstaklega verðtollurinn. Nú hefi ég haldið því fram, að lakasta árið fyrir okkur væri árið 1932. Árið 1931 var betra, og ég tel, að við séum nú að hækka aftur í brekkunni og stöndum nú á líkum stað og við stóðum 1931. Verðtollurinn varð lægstur 1932, en ýmislegt bendir til, að vænta megi líkrar upphæðar nú á þessu ári og var 1931. Ég vil vænta þess, að síðari hluti þessa árs gefi um þetta sæmilega raun. Hin mikla framleiðsla, sem væntanlega selst síðari hluta ársins, eykur erlendan gjaldeyri og um leið hvortveggja: innflutning tollvöru og kaupgetu almennings.

Ef svo færi, að þetta ár yrði ekki lakara en meðaltal áranna 1926—1928 og 1931—1932, en þá var meðaltal á vörutollinum 1½ millj. kr., þá er ekki óvarlegt að áætla, að hann verði 150 þús. kr. hærri en hér er áætlað. Og meðaltal verðtollsins sömu ár var 1¼ millj. kr. Miðað við það er sá tollur ekki óvarlega áætlaður eins og ég hefi gert. Nú er þetta allt að vísu miðað við það, að árið 1934 verði meðalgott ár. Og við það miðaði ég í fjárl.frv. En hv. fjvn. og deildir Alþ. hafa nú ekki verið eins bjartsýnar og hafa því lækkað þessa áætlun. Ef það er rétt hjá mér, að gera megi ráð fyrir 3/4 millj. kr. hærri tekjum en fjárl.frv. ber með sér, og ef þingið bætti við nýjum tekjum, sem það ætti að gera, þá mætti vænta þess, að útkoman verði 1½ millj. kr. betri en frv. sýnir. Yrðu þá ástæðurnar betri en búizt er við til að mæta hinum nýju útgjöldum, sem þetta þing leggur á. Ég játa það nú, að allar slíkar tölur eru í lausu lofti, og tölur þær, sem ég hefi nefnt, eru byggðar á því, að næsta ár verði sæmilega gott. Virðast mér öll sólarmerki benda í þá átt. Það væri að vísu engin vanþörf á því að lækka fjárl., en till. þær, sem fram eru komnar, benda meir til hækkunar. Og þótt engin þeirra væri samþ., þá mundu fjárl. vart lækka meira en um 50 þús. kr. En þá verður frv. að ganga til Ed., og er þá spurning, hvað þar verður gert. Geri ég vart ráð fyrir, að vert sé að hefja stríð milli deilda fyrir ekki stærri upphæð. Það má tala um að taka upp þá stefnu að strika 22. gr. út. Þar eru stærstu heimildirnar til útgjalda, og er þó ein þeirra langstærst. Það hefir verið sagt, að þær næmu 600 þús. kr. En ef allt er notað, þá eru það 550 þús. kr., en vafasamt má telja, hvort það verður allt notað. Og af þessari upphæð eru 400 þús. kr., sem eru nokkurskonar atvinnubætur til bændanna og eiga alveg sama rétt á sér og atvinnubætur við sjávarsíðuna. Það getur verið nokkur von um, að til þess þurfi ekki að taka. En þó er það engin vissa. Hinar upphæðir 22. gr. mega heita hverfandi litlar. Verði nú, sem ég vona, næsta ár sízt lakara en 1931 þá er von um, að ekki þurfi að leggja eins mikið fé fram til atvinnubóta og gert er ráð fyrir í frv. 1932, sem vonandi verður langversta árið. Þá lagði ríkið fram 316 þús. kr. til atvinnuhóta gegn 2/3 frá hlutaðeigandi bæjarfélögum. Og 22. gr. er einmitt svo há, að meðtöldu því lánstrausti, sem ríkissjóður veitir, að í henni eru fólgnar nokkurskonar kreppuráðstafanir til bæjarfélaganna, sem er sambærilegt við þær aðrar ráðstafanir, sem hafa verið gerðar. Á þetta ber ekki að líta svo sem gert er á venjulegum tímum. Í þessu er fólgið nokkurskonar afturkast hjá þm., sem á vissan rétt á sér. Fyrir tveimur árum var herópið: að spara. En þó enginn viti hvaðan kreppan kom, þá hefir hún þó kennt mönnum það, að hlynna sem mest að aukinni starfrækslu, sem veitt getur atvinnu og er um leið skattstofn fyrir ríkið. Af þessari ástæðu mun það fá daufar undirtektir, ef blakað er við þessari gr. Heimildir þær, sem hún veitir, verða ekki allar notaðar. En þær, sem einkum verða notaðar, munu verða til þess að styðja að framleiðslu í landinu. Ég verð því að halda við það, sem ég hefi áður sagt og háttv. fjvn. leggur til, að sæmilegust útkoma fáist með því að játa frv. ná staðfestingu óbreytt.