30.05.1933
Neðri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

1. mál, fjárlög 1934

Hannes Jónsson:

Það eru aðeins örfá orð til hæstv. fjmrh. út af útreikningum hans, þegar hann vildi sýna mér, hvernig hann hefði fengið út 83 þús. Ég ætla ekki að fara nánar út í þann reikning, en vildi ráðleggja hæstv. ráðh. að láta strika hann út úr Alþt. Ég er hræddur um, að þó karlarnir úti um landið séu ekki glöggir í reikningi, þá kunni þeir að leggja þannig saman þær tölur, sem hæstv. ráðh. taldi upp, að þeir fái þar ekki út 83 þús.; meira að segja mundu flestir barnaskólarnir, sem hæstv. ráðh. var áður yfirmaður yfir, hafa nemendum á að skipa, sem gætu fengið út aðra og réttari tölu.

Út af hinu atriðinu, þeim liðum, sem hæstv. ráðh. vildi ekki telja til sparnaðar, þó niður væru felldir, sem er heimild til að kaupa nokkrar fasteignir úti um land, er það að segja, að þá fer að verða létt að lifa, ef menn geta keypt fasteignir og ráðizt í framkvæmdir eins og t. d. húsabyggingar án tillits til, hvernig efnahagur manna er; bara ef menn geta einhversstaðar haft út peninga að láni, þá þarf ekki að hugsa um annað en að kaupa og kaupa, það eru aðeins eignahreyfingar! Ég er hissa, hvað hæstv. ráðh. er fastur á fé til atvinnubóta, úr því að hann er kominn á þessa skoðun. Ríkið tapar náttúrlega ekkert á því að ráðast í framkvæmdir, fremur en að kaupa allskonar fasteignir, því það á þá þau verðmæti, sem sköpuð eru! Svo tók hæstv. ráðh. líkingu af þessu og sagðist ætla að kenna mér að spara. Ég skyldi bara hugsa mér að kaupa jörð, hætta svo við það, þegar til kæmi, þá hefði ég sparað jarðarverðið. Já, ég miða vitanlega mína fjárhagsáætlun við þær tekjur, sem ég býst við að hafa, ef ég hefi ætlað mér að kaupa jörð. En þegar tekjur mínar minnka og mig vantar peninga, þá fer ég að spara á minni áætlun. Og ég geri það á þann hátt, að ég hætti við jarðarkaupin, því ég treysti mér ekki að auka skuldir mínar um það, sem kaupunum nemur.

Þá taldi hæstv. fjmrh., að hann hefði gert fyrir rýrnun þeirri, sem yrði á vaxtagreiðslum, með tekjuaukalöggjöfinni. En hann var, að því er mér skildist, búinn að nota tekjurnar af þeirri löggjöf í allt annað. Hann gerði þar með ráð fyrir 1½ millj. kr. tekjum, sem hann var í útreikningum sínum búinn að ráðstafa. Svo ætlar hann að nota þá peninga aftur. Það fara að verða ágætar tekjur, ef með sömu krónunum er hægt að borga aftur og aftur.

Þá skal ég víkja örfáum orðum til hv. 1. þm. Eyf. Hann taldi mér bera sérstaka skyldu til að líta á hag síldarverksmiðjunnar á Siglufirði, þar sem ég væri endurskoðandi hennar. Ég er líka endurskoðandi landsreikninganna, og ber mér þá ekki síður skylda til að líta á hag ríkisins í sambandi við frágang fjárl. Þar sem hv. þm. taldi mig hafa sérstaka aðstöðu til að líta á hag síldarverksmiðjunnar sem endurskoðandi hennar, vænti ég, að hann meti einhvers ábendingar endurskoðanda landsreikninganna í þessu máli og sýni það í verkinu.

Það er enganveginn svo, að ég haldi, að till. mínar gerðu allt gott um afkomu þjóðarinnar, þó samþ. væru. En þær eru a. m. k. spor í rétta átt, sem réttara er að stíga heldur en hafa það eins og mér virtist hv. þm. Dal. vilja, að lagfæra fjárl. með því að bæta inn nýjum útgjöldum. Það skyldi gleðja mig, ef útvarpið yrði ekki þyngra á ríkinu heldur en gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Og ég vil krefjast þess, að hæstv. stj. sjái til þess, að kostnaðurinn fari hvorki hjá þessari stofnun né öðrum fram úr áætlun; nóg mun verða til að borga fyrir því. Og þegar forstöðumennirnir játa eins mikið yfir því eins og hv. þm. Dal., að þeir ætli ekki að láta tekjuhallann verða meiri en gert er ráð fyrir í fjárl., ætti a. m. k. að vera hægt að sporna gegn því.

Hv. 1. þm. Eyf. taldi, að ef ég byggði svo mjög á því, að atkvgr. hér í d. um einstaka liði yrði óbreyttt frá því í vetur, mætti eins búast við, að Ed. breytti ekki afstöðu til þeirra. En nú hefir Nd. í nokkur ár tekið við fjárl. óbreyttum frá Ed., þó hún hafi verið óánægð með þau. Finnst mér því ekki ósanngjarnt eða óeðlilegt, að hv. Ed. gengi að frv. núna, þó hún væri að einhverju leyti ekki ánægð með það.

Þá talaði hv. 1. þm. Eyf. um, að tunnuverksmiðjan á Siglufirði væri rekin með einhverjum alveg sérstökum hætti. Hann lýsti ekki, hvernig það fyrirkomulag væri, en mér er sagt, að verksmiðjan sé rekin af einhverskonar samvinnufélagi, sem samanstendur af helztu kommúnistunum á Siglufirði. Þvílíkt framúrskarandi fyrirmyndarfyrirkomulag! Ég vildi nú helzt leggja til, að þessum kommúnistum væri stungið ofan í tunnurnar og þær sendar hingað suður, svo við fengjum að sjá, hvað þeir eru dásamlegir. Forstjóri þessa fyrirtækis bíður hér í dyrunum; hann hefir hangið yfir þinginu síðan þetta mál kom til. Finnst mér rétt, að hv. d. gengi svo frá málinu, að binda tunnubotn við botninn á honum og lofa honum svo að hlaupa.

Hv. þm. vildi halda fram, að það væri einhverjar aðrar ástæður til þess að ég vildi fella niður þennan lið heldur en sparnaðarvilji. Ég veit ekki, hvað hann á við með því. Heldur hann, að ég hafi haft svo mikið við þennan lið hans, að ég hafi borið allar þessar 14 brtt. fram hans vegna. Nei, ég er ekkert feiminn við að koma til dyranna eins og ég er klæddur og kann illa við slíkar aðdróttanir.