08.05.1933
Neðri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2539 í B-deild Alþingistíðinda. (4121)

186. mál, sala mjólkur og rjóma

Sveinbjörn Högnason [óyfirl.]:

Ég vildi lýsa ánægju minni yfir því, að þetta frv. er fram komið, sem leggur grundvöllinn að því að skapa jafnari aðstöðu og betri verðlagsjöfnuð en verið hefir meðal mjólkurframleiðenda.

Ég skal ekki fara mörgum orðum um frv. sjálft. En ég vildi aðeins beina því til n., sem fær frv. til meðferðar, sem væntanlega verður landbn., að hún taki til athugunar það ákvæði 2. gr., sem tiltekur þau svæði, sem samtökin eiga að ná yfir á hverjum stað, sem er sérstaklega þetta ákvæði, sem ég skal lesa upp með leyfi hæstv. forseta: Mjólkurbú innan sömu sölusamtaka má þó ekki vera fjær sölustað en 70 km. og félagar þess ekki fjær en 130 km. frá sölustaðnum. Ég vildi aðeins benda á, að með þessum ákvæðum er útilokaður allverulegur hluti af bændum á Suðurlandi frá því að geta starfað í mjólkurbúum þeim, sem þeir nú eru i. Og þeim væri gerður meiri óleikur en það. Þeir væru einnig útilokaðir frá því að geta komið sér upp mjólkurbúum. Ég á hér við bændur í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu. Ég get einnig upplýst það, að nokkur hluti þeirra, sem búa innst í Fljótshlíðinni, yrði þá að hætta að vera í Mjólkurbúi Ölfusinga, og það yrði til þess, að hinir yrðu einnig að hætta, því þeir væru þá of fámennir til þess að geta haldið uppi sölu.

Ég vænti því, að n. taki þetta til athugunar og leiðrétti það fyrir 2. umr.