25.03.1933
Efri deild: 34. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í C-deild Alþingistíðinda. (4202)

8. mál, laun embættismanna

Halldór Steinsson:

Ég vil gera eina fyrirspurn til hv. n. Ég vil spyrja hv. n. að því, hvort hún hafi gert sér ljóst, hve mikinn sparnað leiddi af því, að þessi till. yrði samþ. Ef þingið tekur þá ákvörðun, að laun með dýrtíðaruppbót fari ekki yfir 4200 kr., þá held ég að sparnaðurinn verði ekki stórkostlegur, því að það eru tiltölulega fáir af embættismönnum ríkisins, sem hafa hærri laun. En aftur á móti eru fjöldamargir af öðrum starfsmönnum ríkisins, sem hafa langtum hærri laun, t. d. við útvarpið, ríkisútgerðina, ríkisprentsmiðjuna, áfengisverzlunina o. fl. ríkisfyrirtæki. En ef það er meiningin að hreyfa ekkert við launum þeirra starfsmanna ríkisins, sem hæst eru launaðir, en aðeins klípa af launum hinna lægst launuðu, þá fer réttlætið að verða létt á metunum og sparnaðurinn vafasamur. Það væri því gott að fá upplýsingar um það frá hv. n., hvort hún hefði gert sér það ljóst, hve mikið sparaðist, ef þessi till. yrði samþ. En ef það er, sem mig grunar, að það mundi verða lítið, þá veit ég ekki, hvort tekur því að samþ. það nú á þessu þingi.