21.03.1933
Neðri deild: 32. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 633 í B-deild Alþingistíðinda. (455)

3. mál, landsreikninga 1931

Jónas Þorbergsson:

Ég skal fyrst víkja að ræðu hv. þm. V.-Húnv. Hann hefir ásamt hv. 3. þm. Reykv. fært fram ástæðu fyrir því, að skýrsla og athugasemdir hinnar umboðslegu endurskoðunar í fjmrn. voru ekki teknar til greina af yfirskoðunarmönnum, þegar þeir gerðu sínar aths. við LR. Og ástæðan er sú, að skýrslan lá ekki fyrir yfirskoðunarmönnum, eins og þó er lögákveðið. Þessi hv. þm. hafa báðir tekið það fram, að yfirskoðunarmenn hafi ekki álitið sér skylt að búa sjálfum sér í hendur skjöl og skilríki. En ég hygg, að þetta sé ekki rétt á litið hjá yfirskoðunarmönnum. Ég hugsa, að það sé tvímælalaus skylda þeirra að komast fyrir sannleikann í hverju máli og kynna sér það, er gæti haft áhrif á starf þeirra og úrskurði. Þess vegna var þeim skylt að ganga eftir því hjá stj., hvort aths. hinna umboðslegu endurskoðenda hefði verið fullnægt. Ég get tekið það til greina, sem hv. þm. V.-Húnv. bar fram, að honum hefði verið alveg ókunnugt um þessa skýrslu. En því er allt annan veg háttað um hv. 3. þm. Reykv. Honum var ekki ókunnugt um, að skýrslan var til, því að hún var áður birt í Morgunbl. Mbl. fylgdist mjög vel með þessu máli, og hefir ef til vill notið þar góðrar aðstöðu hv. 3. þm. Reykv., sem þm. og yfirskoðunarmanns LR. Skýrslurnar birtust jafnskjótt í Mbl. og þær urðu til í stjórnarráðinu. (MJ: Áttum við að fara til Mbl.?) Ég hygg, að Mbl. hafi notað sér kunnugleik og aðstöðu hv. 3. þm. Reykv. til þess að fá fréttir úr LR. Þær voru birtar eftir þeim leiðum. Sú afsökun hv. 3. þm. Reykv., að skýrsla hinna umboðslegu endurskoðenda hafi ekki verið fyrir hann lögð, hefir því ekkert gildi. Hv. þm. var vel kunnugt um, að hún lá fyrir í stjórnarráðinu. En hann gat skotið sér á bak við embættisform sitt og sagt sem svo, að hann hafi ekki verið skyldugur til að látast vita um hana. En hvort hv. þd. tekur þennan framburð og þessar afsakanir yfirskoðunarmannsins til greina, læt ég ósagt um. Það er hreinn og beinn misskilningur hjá hv. þm. V.-Húnv., að ég hafi ætlazt til, að skýrsla hinnar umboðsl. endurskoðunar lokaði munninum á yfirskoðunarmönnunum. Þau orð, sem ég hafði um þetta í minni fyrri ræðum, voru á þá leið, að yfirskoðunarmenn hefðu ef til vill ekki þurft að taka upp aths. í þessu formi í LR., ef þeir hefðu tekið til greina skýrslu hinnar umboðsl. endurskoðunar, sem þeir þó féllust á að lokum. Að öðrum kosti virtist þetta beinlínis hafa verið gert til áreitni við þessa stofnun og forstöðumann hennar. (HJ: Og líka til viðvörunar).

Ég er ekkert að kvarta undan þessum aths. yfirskoðunarm., eða úrskurðum stj., ég álít, að þeir séu meira og minna réttlátir, en sumir að vísu nokkuð harðir. Hér var ekkert í þessum efnum, sem ástæða væri til að draga fjöður yfir. Ekkert þess eðlis, að það þoli ekki fyllilega dagsljósið og opinberar umr. út í æsar; enda mun ég ekki telja eftir mér að taka minn þátt í þeim umr. eins lengi og andmælendur mínir óska.

Ég verð út af síðari ræðu hv. 3. þm. Reykv., að koma nokkru nánar inn á einstök atriði í þessu máli. Ég skal fyrst leyfa mér að benda á eitt atriði sem almenna skýringu, að því er snertir reikningshald útvarpsins, skýringu, sem e. t. v. verður ekki metin til mikillar afsökunar að því leyti, sem telja má, að betur hefði mátt fara um sumt í reikningsfærslunni, en það verður þó til skýringar á því, að ekki var með öllu óeðlilegt, að sumstaðar væri e. t. v. ekki farið eftir þeim venjum, sem skapazt hafa smátt og smátt við ríkisstofnanirnar.

Þegar breyt. var gerð á ríkisbókhaldinu, sem hneig m. a. í þá átt að samræma endurskoðunina við ríkisstofnanirnar, þannig að endurskoðunin var fengin í hendur einni deildinni í fjmrn., þá mun sú breyt. hafa valdið allmiklum töfum á endurskoðuninni. Af þessu mun það hafa stafað, að endurskoðun á reikningum ríkisútvarpsins fór ekki fram fyrr en langt var liðið á árið 1932, eða um 2 árum eftir að starfsemi þess hófst, og þá fyrst er endurskoðaður og úrskurðaður reikningur ríkisútvarpsins fyrir árið 1930, sem hið háa Alþingi var þá þegar búið að samþ. og afgreiða.

Ég er ekki að taka þetta fram til ásökunar. Ég hygg, að það hafi getað átt sér eðlilegar orsakir. En ég tek það fram til skýringar á því, að reikningshaldari útvarpsins og forstöðumaður hafði ekki í gegnum þessa endurskoðun fengið þá leiðbeiningu um venjur, stjórn, rekstur og reikningsfærslu, sem skapazt hafa og sem þessi endurskoðun eðlilega á að veita hverri ríkisstofnun. Þetta var vitanlega útvarpinu sérstaklega bagalegt, vegna þess að það var nýstofnað og var að skapast og vaxa mjög hröðum skrefum. Það má e. t. v. segja, að reikningshaldarinn hefði átt að leita sér upplýsinga hjá öðrum ríkisstofnunum um það, hvaða venjur giltu í hinum og öðrum efnum, sem orkað hefir tvímælis um, en það er hvorttveggja, að þessar venjur munu ekki vera alstaðar svo fast skorðaðar, og e. t. v. ekki heldur þannig vaxnar, að þær séu til eftirbreytni, eins og berlega hefir komið fram um notkun bifreiða og sem síðar verður vikið að. Þess vegna er það eiginlega ekki fyrr en seint á árinu, sem leið, að þessi unga stofnun fær rækilega endurskoðun og þær leiðbeiningar um venjur og reikningsfærslu, sem hún hefði helzt þurft að fá a. m. k. einu ári fyrr. Hefði þessi ríkisstofnun fengið þær leiðbeiningar svo snemma á starfsskeiði sínu, sem með sanngirni hefði mátt vænta, þá hefði áreiðanlega orðið komizt hjá nær öllu því, sem hér hefir komið til ágreinings, umr. og úrskurðar.

Það hefir ekki komið fram í umr. neitt það, sem veitir verulega ástæðu til að fara mörgum orðum um þessar aths., nema fáar af þeim, og þá helzt ekki nema um eina þeirra, enda er það sá liðurinn, sem mestum umr. hefir valdið í blöðunum. Og úr því að hann hefir verið tekinn hér upp bæði í LR. og umr., þá ætla ég að leyfa mér að nota nokkrar mínútur til þess að fara um hann fáeinum orðum. Þessi liður er um bílanotkun við ríkisútvarpið.

Hv. 3. þm. Reykv. taldi, að þessi bifreiðakostnaður, sem er 2400 kr. fyrir stofnunina yfir árið, væri nokkuð mikill. Það fer um þetta eins og fleira, sem þessi hv. þm. segir um ríkisútvarpið, að þó að talan 2400 sé nokkuð há út af fyrir sig móts við aðrar lægri tölur, þá hefir hann hvorki reynslu eða þekkingu til að bera til þess að geta dæmt um það, hvort þessi kostnaðarliður er hár í raun og veru. Hv. þm. lét í veðri vaka, að þessi bifreiðakostnaður hafi allur verið vegna útvarpsstjóra persónulega, en að honum hafi ekki verið gert að greiða nema 493 kr. Nú virðist aths. þessa yfirskoðunarmanns bera það með sér, að hann hafi eitthvað kynnt sér reikningana. Mig furðar því á, að hann skuli bera fram svona mikla fjarstæðu. Og þó ljótt sé til að vita, verður að ætla, að hann geri það á móti betri vitund.

Þegar útvarpið tók til starfa, var við hliðina á því stofnuð ríkiseinkasala á útvarpsviðtækjum, og í öðru lagi var stofnuð viðgerðastofa. Báðar þessar stofnanir þurfa mjög mikið á bifreiðum að halda, eins og hæstv. atvmrh. réttilega tók fram. Auk þess þarf fréttastofan meira eða minna á bifreiðum að halda, og við framkvæmd dagskrárinnar þarf einnig bifreiðir. Koma því þarna til greina margar starfsdeildir við sjálft ríkisútvarpið, sem allar þurfa að nota bifreiðir. Það kom upphaflega til mála, hvort ekki væri skynsamlegt að kaupa bifreið til nota fyrir útvarpið og viðtækjaverzlunina sameiginlega. Hefir það verið álitamál, og er að mínu viti álitamál enn þann dag í dag. Auk þessa, sem nú var talið, þarf mjög mikið á bifreiðum að halda til ferða á milli Rvíkur og útvarpsstöðvarinnar á Vatnsendahæð. Þangað hefir til skamms tíma ekki verið neinn vegur, og það var eins og ég hygg, að sumir hv. þm. viti, algerlega ófær leið, svo ófær, að bifreiðastöðvarnar þverneituðu alveg að flytja menn þessa leið, þegar svo háttaði til, að melarnir, sem þurfti að fara yfir, voru blautir í leysingum, enda var bifreiðum þar hin mesta hætta búin. Því var það, að útvarpið neyddist til að kaupa flutningabifreið, og sú bifreið var gersamlega eyðilögð á einu ári á þessum vegi; það var ekki hægt að komast hjá slíku.

Í stað þess að ráðast í það að kaupa bifreið til skyndiferða, var tekin upp sú skipun, að útvarpsstjóri samdi við bifreiðastöð um sérstök vildarkjör innan takmarka bæjarins.

Nú kom það í ljós við endurskoðun reikninganna frá 1931, að nokkur ágreiningur varð á milli reikningshaldara útvarpsins og endurskoðunarinnar um færslu á nokkrum upphæðum fyrir bifreiðaakstur innan bæjar, sem að sumu leyti virtust hafa getað verið og að sumu leyti voru beinlínis í einkaþágu útvarpsstjóra. Aths. hinna umboðslegu endurskoðenda að því er þetta snertir er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: „Bílareikningar að upphæð kr. 492,74, stílaðir til útvarpsstjóra, hafa verið greiddir af útvarpinu. Reikningarnir bera ekki með sér, hve mikið af þessum akstri hefir verið í þarfir útvarpsins. óskast gerð grein fyrir því og geymist réttur til ábyrgðar“.

Þessu svarar reikingshaldari á þessa leið: „Þar sem mikil einkanot forstöðumanna ríkistofnana af bifreiðum landsins hafa verið látin óátalin, teldi ég, með skírskotun til bréfs míns til ráðuneytisins 15. þ. m., bresta á jafnrétti mitt, ef hið háa ráðuneyti lítur svo á, að mér beri að endurgreiða þau lítilfjörlegu not, sem hér um ræðir. Hinsvegar treysti ég mér ekki til, að liðnum svo löngum tíma, að greina í sundur hinar einstöku upphæðir“ Úrskurðurinn var á þá leið, að reikningshaldari skyldi greiða alla upphæðina.

Þau rök liggja til þessa svars, sem reikningshaldari hefir gefið við þessari aths., að hér hefir á undanförnum árum skapazt hefð um það, að forstöðumenn ríkisstofnana hafa leyft sér að nota bifreiðir landsins í einkaþágu, án þess að sá kostnaður væri endurgreiddur til ríkisins.

Ég skal leyfa mér að gefa örstutt yfirlit um þessi einkanot forstöðumanna ríkisstofnana á bifreiðum á landsins kostnað. Er þá fyrst að telja vegamálastjóra landsins. Það má e. t. v. segja, að hann hafi nokkra sérstöðu í þessum efnum, sökum þess, að hann þarf mikið á bifreiðum að halda til þess að hafa eftirlit með framkvæmdum, sem hann hefir með höndum úti um land. Það er hinsvegar jafnvíst, og verður ekki móti mælt og hefir ekki verið móti mælt af honum sjálfum, að hann notar bifreiðir líka í einkaþágu í innanbæjarakstri. Hann hefir talið sér þetta heimilt. Og þar sem það hefir verið látið óátalið, verður að álíta, að honum sé slíkt heimilt. Er því ekki ástæða til að átelja hann um þetta.

Árið 1929 keypti Gísli heitinn Ólafsson landssímastjóri bifreið, sem hann, eftir því sem allir vissu, notaði mestmegnis í einkaþágu, og að vísu til nokkurra ferða út um land. Hann seldi síðan þá bifreið og keypti aðra, miklu stærri fjölskyldubifreið. Þetta var játið óátalið af þáv. ríkisstj. og þessi embættismaður taldi sér þetta fullkomlega heimilt, og ég álít, að honum hafi verið það fullkomlega heimilt, úr því að það var játið óátalið.

Í þriðja lagi skal ég nefna jafngrandvaran og ágætan embættismann eins og Sigurð Briem póstmálastjóra. Efast enginn um það, að þessi embættismaður gerir það eitt, sem hann álítur rétt vera. Hann keypti bifreið árið 1930 án þess að leita heimildar ríkisstj. og notaði þá bifreið til aksturs innan og utan bæjar, og að vísu mjög í einkaþágu um tveggja ára skeið.

Svo sterk var þessi hefð orðin um að forstöðumenn ríkisstofnana notuðu bifreiðir landsins í einkaþágu, að jafnsparsamur og grandvar maður eins og S. Br. póstmálastjóri taldi sér fullkomlega heimilt að gera þessa ráðstöfun og nota bifreið embættisins á þennan hátt án þess að leita heimildar. Og þegar fyrir lá slíkt fordæmi um jafnágætan mann og grandvaran, þá verð ég að telja, að útvarpsstjóranum, sem kom síðar til sögunnar, hafi verið nokkur vorkunn, þó hann ekki teldi þessi lítilfjörlegu bifreiðanot neinn stórglæp.

Það má nefna fleiri dæmi, eins og t. d. bankana. Það hefir nýlega verið vikið að bifreiðanotkun Útvegsbankans, sem ekki er talinn allt of fjáður. Því hefir verið haldið fram, að einkanot bankastjóranna á bifreiðum bankans, innan og utan bæjar, hafi kostað bankann um 20 þús. kr.

Ég hygg, að núv. landssímastjóri muni ekki hafa breytt eftir því fordæmi, sem fyrir lá í þessum efnum, enda er stutt síðan hann tók við embættinu.

Útvarpsstjóranum hefir nú verið veitt sú leiðbeining, sem hann hefði þurft að fá í tæka tíð, og þá leiðbeiningu mun hann vitanlega taka til greina. Ég vil vona, að jafnákveðinn vandlætari og hv. 3. þm. Reykv. verði röggsamur, þegar farið verður að hreinsa til í Útvegsbankanum og annarsstaðar þar, sem þess kynni að vera þörf. Ég vonast til, að hann hafi gert sér far um að skyggnast inn í reikninga vegamálastjóra, fyrrv. landssímastjóra og póstmálastjóra, þó að það komi hvergi fram í aths., að þessum mönnum hafi verið gert að endurgreiða kostnað af bifreiðaakstri í einkaþágu. Það hefir hvergi heyrzt né sézt, að gagnvart þeim hafi verið beitt samskonar ráðstöfunum eins og beitt var gagnvart útvarpsstjóra. Enda hefir blað það, sem af siðferðishræsni og hlutdrægni hélt uppi árásunum á hann, vandlega þagað um samskonar ávirðingar í fari fyrrnefndra samherja þess í landsmálaskoðunum. Ég skil ekki annað en að hver maður með heilbrigðri réttlætistilfinningu sjái, að ef einum forstöðumanni ríkisstofnana á að vera óheimilt að nota bifreiðir til einkaþarfa, þá eiga heldur ekki aðrir að mega njóta slíkra fríðinda, og það er ekkert annað en argasta rangsleitni hjá þeim mönnum, sem um þetta eiga að fjalla, ef þeir láta aðfinnslur, ávítur og endurgreiðslur aðeins koma fram á hendur einum forstöðumanni ríkisstofnunar, en láta samskonar og þó langtum meiri not óátalin hjá öðrum. Ég vil því leyfa mér að beina því til hæstv. ríkisstj., að það er skylda hennar að láta eitt yfir alla ganga í þessu efni. Mér kemur vel að fá mínar leiðbeiningar og mun taka þeim á tilhlýðilegan hátt. En ég krefst þess, að hinar sömu ávítur og leiðbeiningar komi fram gagnvart þeim öðrum mönnum í sambærilegum stöðum, sem hafa unnið til samskonar ráðstafana af hendi ríkisstj.

Það má ennfremur henda á það, að ekki er einsdæmi, að ágreiningur hefir orðið milli reikningshaldara ríkistofnunar og ráðuneytisins um færslur á reikningum. Ég skal aðeins taka eitt dæmi, sem er í LR. 1929. Þá hafði verið gerð breyt. á embættunum hér í Reykjavík. Áður hafði gilt sú venja, að allmikið af tekjum embættismanna var í prósentum af tekjum ríkisins, en þegar tekjur ríkisins uxu, urðu launin óhæfilega há. Var þá tekin upp sú skipun að láta þessa embættismenn hafa föst laun. Svo kom það fyrir árið 1929, að yfirskoðunarmenn LR. gera aths. um það, í 7. aths. við LR., að lögmaðurinn í Rvík hafi reiknað sér 2% af innheimtum stimpilgjöldum. Var því skotið til úrskurðar ráðuneytisins, hvort þessum embættismanni væri heimilt að reikna sér þessi hlunnindi. Stj. úrskurðaði, að þetta væri óheimilt, og var lögmaðurinn endurkrafinn um 1500 kr. af þessum ástæðum.

Ég skal taka það skýrt fram, að ég er ekki að benda á þetta þessum embættismanni til hnjóðs. Þetta er eitt dæmi af mörgum um það, að forstöðumenn embætta og ríkisstj. greinir á um hlunnindi og færslur í reikningum.

Það bar ekki á því, að þessi maður væri lagður í einelti fyrir þetta og ofsóttur eins og glæpamaður utan þings og á sjálfu Alþingi. Það voru ekki haldnar eldhúsræður á þingi til að ófrægja hann, heldur var málið úrskurðað hljóðalaust, eins og venja hefir verið til. Þó var sá aðstöðumunur lögmannsins og útvarpsstjórans, að um embætti lögmannsins giltu nýsett lög. En um bifreiðanot útvarpsstjórans lágu annarsvegar fyrir ljós og ákveðin fordæmi, en á hinn bóginn skorti leiðbeiningar endurskoðunarinnar, eins og áður hefir verið tekið fram. Mætti það verða hv. 3. þm. Reykv. til skilnings á ummælum í bréfi útvarpsstjórans til ráðuneytisins, sem hann hefir mjög hártogað, þar sem sagt er, að útvarpsstjóranum „hefði ekki verið boðinn varnaður á um þetta“. Útvarpsstjóranum var nefnilega ekki boðinn varnaður á um það, að hann ætti að sæta refsingum og ámæli fyrir það, sem látið hefir verið óátalið í fari annara embættismanna.