26.05.1933
Efri deild: 81. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2815 í B-deild Alþingistíðinda. (4550)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Hv. 3. landsk. hélt fram, að ákvæðið um skipun sæta á landslista væri þannig í frv., að það yrði ofur auðvelt að fara í kringum lögin í reyndinni. Og hann rökstuddi það með því, að þeir af frambjóðendum, sem eru í kjöri í kjördæmum utan Reykjavíkur, gætu náð þar kosningu, og kæmu þá auðvitað ekki til greina við úthlutun sæta til frambjóðenda á landslista. En ég lít svo á, sem í þessu felist nokkur misskilningur. Ég lít svo á, sem tilgangurinn með þessu ákvæði um að heimta, að annarhver maður á landslista væri í kjöri í kjördæmi utan Reykjavíkur, sé sá, í sambandi við önnur ákvæði frv., að girða fyrir það, að nokkur flokkur geti tekið upp landslistakosningu einsamla eða einhliða. Ef aðeins hefði verið heimilað að hafa landslista, án þess að setja nokkur frekari ákvæði þar um, þá hefði náttúrlega tilhögunin getað orðið svipuð því, sem hún er nú í Hollandi. Þar eru ákvæði stjskr. og kosningalaganna þannig, að hver flokkur, sem vill, geti gert kosninguna fyrir sitt leyti að landslistakosningu með sameiginlegum lista fyrir öll kjördæmin í landinu. Þetta er fyrirgirt með því ákvæði, sem hv. 3. landsk. bendir á, að hægt sé að fara í kringum. En þetta er einmitt ekki hægt að fara í kringum. Það getur enginn flokkur eftir þetta komið því við að láta fyrirfarast að hafa frambjóðendur í kjördæmunum og láta sér nægja að safna atkvæðum á landslista, sem annars væri auðvelt að gera, svo að segja að öllu leyti, fyrir hvern þann flokk, sem hefir fylgi sitt svo dreift um allt land, að hann á ekki von á því að vinna þingsæti við kjördæmakosningu.

Hv. þm. vildi dálítið vefengja það, sem ég sagði, að fyrsta uppástungan um að taka jöfnunarsæti á landslista væri borin fram af Framsfl. En það er rétt, og hitt ekki, sem hann hélt fram, að þessari till. hefði fylgt það, að landslistaframbjóðendur ættu að vera í framboði í kjördæmum, því að á það er ekki minnzt einu orði í till., sem ég nefndi, eins og hún upphaflega var borin fram. Það er þannig, að „ákveða má með lögum, að bætt verði við allt að 5 landskjörnum þingmönnum, ásamt varamönnum þeirra. Skal þeim þingsætum varið til jöfnunar milli stjórnmálaflokkanna í þeim kjördæmum, þar sem kosið er óhlutbundnum kosningum“. En hitt er ekki áskilið, að neinn af þeim mönnum, sem á landslista tækju sæti, hafi verið frambjóðandi í neinu kjördæmi í landinu. Það er þess vegna alveg rétt, sem ég sagði, að fyrsta uppástunga um þetta er frá Framsfl. hér í þinginu, og er ekkert við það að athuga, því að þetta er aðferð, sem tíðkast annarsstaðar og auk þess minnir nokkuð á hluta af núgildandi kosningaaðferð hér, sem ég verð að segja, að hefir ekki reynzt þann veg, sem hv. 3. landsk. nú vill halda fram, að hætta sé á, að þetta ákvæði reynist. Hann heldur því fram, að hætta sé á, að kjósendur fái ekki að ráða því sjálfir, hvaða menn eru settir á landslista, og telur hætt við, að þar verði menn, sem ekki njóti neins trausts. Ja, hvað hefir nú verið um tilsvarandi kosningar í landinu undanfarin ár? Hefir það verið reynslan, að flokkarnir settu á landslista menn, sem ekki njóta neins trausts hjá þjóðinni? Ég veit, að það situr ekki á okkur hv. 3. landsk., sem báðir höfum verið á slíkum lista og hlotið við það þingsæti, að vera sérstaklega að benda á, að landskjörnir þm. njóti lítils trausts hjá kjósendum. Benda má á það, að af þeim 6 landsk. þm., sem nú eru, eru tveir flokksformenn og einn fyrrv. flokksformaður. Og óhætt er að segja um hina alla, að þeir njóta ekki minna trausts þingmanna en kjördæmakosnir þm. upp og ofan. Þar vil ég sízt undanskilja hv. 3. landsk., sem vitað er um, að þótt hann væri lítilsigldur sem stjórnmálamaður, þegar hann var settur á lista, þá hefir hann með framkomu sinni síðan unnið sér mikið traust sinna flokksmanna.

Nei, það er engin raunveruleg hætta á því, að flokkarnir séu svo einfaldir að setja á landslista sína menn, sem ekki njóta trausts hjá kjósendum í landinu. Sú mótbára gegn þessari uppástungu er bara algerður hugarburður.