30.05.1933
Efri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2823 í B-deild Alþingistíðinda. (4560)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. 1. minni hl. (Magnús Torfason):

Ég hefi ekki farið lágt með skoðun mína í þessu máli; hún mun bæði hv. þm. og kjósendum kunn. Ég get því sparað mér allan inngang um þetta mál og strax snúið mér að frv. eins og það er.

Það er auðséð, að það er samkomulag um aðalkjarna þessa frv. hér á þinginu. Það er samkomulag um að bæta nokkrum viðbótarsætum við til þess að jafna atkv. á milli kjördæmanna. Ég býst við, að í sjálfu sér séu allir þm. með þessu. En það er eins og oft vill verða, að þó að eitthvað sé rétt í sjálfu sér og æskilegt, þá rekur það sig á aðra hluti í lífinu, svo það er ekki hægt að fylgja því út í æsar. Eins og við vitum, þá er ekki nær alltaf, jafnvel sjaldnast, sérstaklega í stjórnmálum, fylgt stefnum út í æsar, heldur er stefnan takmörkuð sökum þess, að það rekur sig á lífið sjálft. Og alveg eins er hér á komið með þessa stefnu, að jafna sem mest þingsætunum; hún rekur sig á lífið sjálft; hún rekur sig á það, að eitt kjördæmi landsins er svo afarstórt samanborið við fólkstölu, að það er ekki unnt að fullnægja kröfu þess kjördæmis að fá full jöfnunarsæti, nema með því að reka sig á annað „princip“, á aðra lífsreglu, og hún er sú, að öllum sé vært í sömu stíunni. Að þetta sé ekki sagt út í bláinn, sannast á því, að frá því að stjórnskipunarl. fyrst voru lögleidd sem heild, þá er þessa atriðis sérstaklega gætt. Ég þarf ekki annað en að benda á, að þegar Bandaríkin fyrst voru stofnuð, þá varð ofan á, þó þar sé afarmikill munur á mannfjölda í hinum ýmsu ríkjum, að hafa aðra d. þingsins þannig skipaða, að jafnrétti væri í smáum og stórum ríkjum. Og þessu skipulagi hafa Bandaríkin haldið enn, þó munurinn á ríkjunum hafi orðið meiri og meiri. Hér í álfu hafa líka önnur ríki sett undir þennan leka. Frakkar gerðu það eftir ófarirnar 1870—71. Þá skipuðu þeir þingið þannig, að stóru borgirnar gætu ekki haft yfirhöndina með atkvæðamagni sínu.

Þegar þýzka keisaradæmið var stofnað, þá var þessa líka gætt. Samkv. atkvæðamagni átti Prússland að hafa 35 af 54 mönnum, sem voru á furstaþinginu, því íbúarnir þar voru 39 millj., en um 60 millj. íbúar alls í ríkinu. En það varð svo að lokum, að Prússar létu sér nægja 17 af 54, m. ö. o., þeir minnkuðu sinn hluta um meira en helming. Og það var blátt áfram af því, að hin ríkin hefðu ekki fengizt til þess að ganga í samband við Prússa, ef þeir hefðu ráðið svo miklu. Nú þegar síðustu kosningalög í þýzka ríkinu voru samþ., en þau eru mjög frjálsmannleg í alla staði, þá er þessa sama gætt, þannig að í sumum ríkjunum er kosningarrétturinn fimmfaldur á við kosningarrétt í Prússlandi. Það þykir nauðsynlegt að sjá um, að smælingjarnir verði ekki undirtroðnir. Mér finnst satt að segja, að þetta, sem ég hefi talið, ætti að vera nóg til þess að sýna og sanna, að okkur hér mundi ekki vera síður þörf á því að gæta sömu reglu um þetta.

Eftir þessar almennu aths. skal ég snúa mér að brtt., og þá er þess fyrst að gæta, að þar stendur, að þingsætin eigi að vera allt að 49. Það þýðir á réttu máli 48 mest. Jafnvel nú á þinginu höfum við orðið að breyta l., sem voru þannig orðuð. Það stóð í bifreiðaskattsl. „allt að 3“, en við nánari athugun sáu menn, að 3 voru útilokaðir, og því varð að breyta 1. Þetta kemur einnig fyrir í aukatekjul. og tekjuskattsviðbótinni. Ég þykist því mega ganga út frá því, að þm. samkv. þessu verði ekki nema 48. En svo er ennfremur þess að gæta, að samkv. þessu ákvæði er alls ekki sagt, að kosningal. þurfi að setja 48 þm. Stjórnarskráin gerir ekkert annað en að heimila þinginu með almennum kosningal. að setja töluna upp í 48, en þingið getur ráðið, hvort það vill fara svo langt. Þetta er sannkallaður meingalli á frv. frá sjónarmiði Sjálfstfl. og Jafnaðarmannafl., og skil ég satt að segja ekkert í því, að þeir skyldu vera svona slyppifengir að koma þessu inn, og það því fremur, sem tala þm. er ákveðin í gömlu stjórnarskrárl. Þess vegna verður maður að líta þannig á, að úr því að orðalaginu var breytt á þennan hátt, þá hljóti það að þýða og geti ekki þýtt annað en að talan sé óákveðin. Þess vegna er það, sem ég hefi viljað bæta upp á þetta frv. einmitt fyrir hönd sjálfstæðismanna og jafnaðarmanna, og þykist eiginlega vera að reka þeirra erindi hér í d. (JónÞ: En gerir það bara heldur illa!). Við skulum nú koma að því seinna. Í raun og veru er það fyrst af þeirri ástæðu, að frv. er betra fyrir jafnaðarmenn og sjálfstæðismenn, og það er líka betra fyrir það, að í næstu brtt. minni er sagt, að þm. Reykjavíkur skuli vera 7. Og þetta er gert af ásettu ráði, vegna þess, að ég fyrir mitt leyti vildi, að þessi breyt. á stjskr., sem nú á að samþ., gæti orðið varanleg, a. m. k. til næstu ára, helzt þangað til 1943, því eftir það ár er búizt fastlega við því, að það þurfi að breyta stjskr. hvort sem er. Í öðru lagi er ekki lítið til þess vinnandi að fá slíkt deilumál eins og þetta útkljáð þannig, að við það mætti una og að ekki væri líklegt, að það væri hægt að vekja óánægjuöldu út af þeim ákvæðum.

En þá skal ég koma að því, að 46 þingsæti, þó maður taki ekki tillit til uppbótanna, eru jafngóð og 48 þingsæti. Við vitum það, að frv. þetta og krafan, sem þar er farið fram á um aukningu þingsæta, er beinlínis gerð til þess að narta það mörgum þm. af Framsfl., að hann geti ekki orðið í meiri hl. En þeim tilgangi er jafnt náð, hvort sem þm. eru 48 eða 46. Ef þm. eru 48, þá verða d. að skiptast þannig, að 16 verði í Ed., en 32 í Nd. Til þess að flokkur geti haft meiri hl. í báðum d., þarf hann þess vegna að hafa 26 atkv., og Framsfl. má fyrir engan mun fá meira en 22 atkv. En til þess að hafa meiri hl. í hvorri d. fyrir sig, verður flokkurinn að hafa 17 atkv. í annari d. og 9 í hinni, en 9+17 = 26 og 48÷26 = 22. Þó að talan sé færð niður í 46, þá kemur það sama út. Þá þarf meiri hl. ekki að hafa nema 24 atkv. (16 + 8) og Framsfl. má ekki fá nema þau sömu 22 atkv. M. ö. o., ef Framsfl. í hvoru tilfellinu sem er nær 23 sætum, þá hlýtur hann að hafa stöðvunarvald í annarihvorri d. Þess vegna er það sem ég segi, að það sé jafnvel betra fyrir Sjálfstfl. og Jafnaðarmannafl. að samþ. þessa 46. Ég veit vel, að það hefir verið rifizt mikið um þingmannatöluna í öllum þeim orrahríðum, sem orðið hafa út af þessari kröfu um aukin þingsæti. En ég er ekki í vafa um það, að þegar kosið yrði eftir þessu fyrirkomulagi í fyrsta sinn, þá mundu menn sjá, að hér er rétt að farið. Ég tel líka, að það bæti bæði Sjálfstfl. og Jafnaðarm.fl. engu síður en Framsfl. að hníga að þessu ráði, að taka heldur lægri töluna, því það er víst, að stórmikill meiri hl. þjóðarinnar er á móti því, að þm. verði fjölgað svo mikið. Ég hygg, að það sé óhætt að fullyrða, að meiri hl. þjóðarinnar sé í sjálfu sér með því, að þm. verði alls ekki fjölgað og hefði kosið, að það hefði verið farin allt önnur leið til þess að ná þessari jöfnun. Ég er ekki í vafa um það, að þegar til kosninga kemur, þá muni það hafa talsverð áhrif þetta, að menn eru að spenna þm.töluna fram yfir það, sem þörf er á. Ég fyrir mitt leyti álít það hreina og beina skyldu þingsins að gera ekki meira að því að fjölga þm. en full þörf er á, m. a. út af því, að það mundi spara bæði tíma og fé. Tími þingsins er dýrmætur, en það vitum við, að því fleiri menn sem sitja á þingi, því meira verður málskrafið. Það mundu mest verða þm. Reykv., sem fengju þessi viðbótarsæti, sem farið er fram á, en eins og við vitum, þá er mærðin í þm. Reykv. margfalt meiri en mærðin í þm. utan af landi. Ég er ekki að segja þeim þetta neitt til lasts. Þetta er ekki nema eðlilegt í sjálfu sér, því að þingið er háð á þessum stað, og ég held, að það sé ekki hægt að segja, að ég fari með neinar ýkjur, þó að ég haldi því fram, að það sé ekki svo sjaldan verið að tala hér til pallanna, en ekki til þingmannanna. En heyrnartólin hafa hingað til ekki verið svo næm út um byggðir landsins, að heyrzt hafi til þingmanna hér úr þingsalnum, jafnvel þó að við höfum brýnt röddina. Það leggur sig líka sjálft, að það er fyllsta ástæða til þess og skylda að hafa þingsætin ekki fleiri heldur en minnst verður komizt af með, þar sem þingmannafjöldinn í samanburði við íbúa landsins er hér miklu meiri heldur en í nokkru öðru menningarlandi. Svo miklu meiri, að við höfum 10 til 20 sinnum færri kjósendur á hvern þm. heldur en í nokkru öðru landi, og þá sérstaklega þar sem taka verður tillit til þess, að þetta er fátækasta landið í álfunni og þyrfti þess vegna að spara allan kostnað af stjórn landsins hvort sem er fram yfir það, sem er hjá öðrum þjóðum. En þessi langa halarófa af uppbótarþingsætum, getur líka orðið hinum flokkunum, sem að þessu standa hér á þingi, hættuleg. Það eru að renna hér upp flokkar til beggja handa við þingflokkana, sem ég veit ekki, hvort þingflokkarnir óska sérstaklega eftir að fái aðstöðu til þess að komast hér inn á þing. En með því að hafa þingsætin svona mörg er gerð gylling til þess að fjölga flokkum í landinu, en þar, sem kosningum hefir verið hagað þannig, að menn gætu auðveldlega komið upp mörgum flokkum, hefir þetta í flestum löndum farið út úr þúfur. Í 2 löndum, þar sem svo hefir hagað til, að smáfl. hafa komizt í algleyming, hafa þjóðirnar sjálfra sín vegna orðið að taka til hnefans til þess að losna við ófögnuð þennan. En það er þetta, sem þingflokkarnir eru að styðja að með því að hafa þingsætin sem flest. Það er alveg víst, að slíkir smáflokkar verða aldrei annað en lands og lýða tjón, og það má taka það mjög til greina, að þing Íslendinga hefir verið hingað til laust við slíka flokka, sem ekki vilja hlýða lögum og landsrétti, og ég lít svo á, að það sé mikið í það varið og mikið fyrir það gerandi, að þessum stjórnskipunarlögum verði þannig hagað, að slíkt geti ekki komið fyrir. Við verðum í því sambandi að muna eftir því, að þingið er háð hér á þessum stað, og muna eftir því, að það er nú einu sinni komið á rekspöl að reyna að hafa áhrif á þingið með því að kúga það. Þetta er illt út af fyrir sig, en verra verður það þegar fulltrúar slíkra flokka eru komnir á þing.

Ég vænti þess vegna svo góðs af þessari hv. d., sem hefir átt það hrós skilið, að vilja halda uppi núv. þjóðskipulagi og yfirleitt verið varfærnari á öllum sviðum heldur en hin deildin, að hún gæti þess vandlega, að ekkert spor verði stigið, sem gæti leitt til ógagns.

Ég vona, að þessari hv. d. auðnist að bæta nú þetta frv., og á þann hátt, sem ég hefi bent á. Ég hefi ekki trú á því, að mínar till. verði drepnar, fyrr en ég tek á því. (JakM: Lítil er trú þín!).