02.06.1933
Efri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2845 í B-deild Alþingistíðinda. (4575)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Jónas Jónsson:

Við erum nú rétt nýbúnir að vera á stjskrn.-fundi og heyra um þá till., sem hv. 1. þm. Reykv. sagði frá. Við framsóknarmenn höfum ekki tekið neina afstöðu til hennar, því að við vorum ekki nema tvær mínútur á fundi. En mér finnst rétt að taka það fram, sem líka kom fram í ræðu hv. 1. landsk., að ekki sé trútt um, að margir séu ekki ánægðir með þetta frv., og ef nú á að fara að breyta því, þá sýnist mér frá þeirra sjónarmiði, sem eru óánægðir með það, það ekki vera svo fjarstætt.

Ég vil spyrja hv. 1. þm. Reykv. að því, hvort hann álíti ekki, að það komi í bága við það samkomulag, sem talið er að hafi verið gert um þetta mál, að fara nú að samþ. nýjar breyt., og hvort ekki sé þá mögulegt, ef einhverju á að breyta, að taka fleira til athugunar. Hvar liggja takmörkin fyrir því, að þessar till. hv. 3. landsk. og hv. 1. þm. Reykv. megi einar koma til mála? Því að margir mundu hafa talsverða löngun til að athuga fleira, ef þess væri kostur.

Ég veit um suma hér á þingi, og kannske hér í deildinni, sem líta svo á, að þeir séu bundnir við þetta samkomulag og munu því greiða atkv. á móti öllum brtt., þó að þeir séu sáróánægðir með alla meðferð málsins.