02.06.1933
Efri deild: 88. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2854 í B-deild Alþingistíðinda. (4585)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Jakob Möller [óyfirl.]:

Mér láðist að afhenda hæstv. forseta till. mína áðan, en ég las hana upp þá, og leyfi mér að afhenda hæstv. forseta hana nú, með beiðni um, að hún komi til atkv.

Ég þarf litlu að svara. Undir ræðu hv. 2. landsk. var ég að mælast til þess, að hann gerði grein fyrir, hvað það væri í till. mínum og hv. 3. landsk., sem væri til skaðsemdar fyrir hans flokk, að breytt yrði frá ákvæðum frv. Hann sagðist skyldi koma að því. Eftir það talaði hann lengi, en nefndi ekkert atriði í till., sem spillti aðstöðu hans flokks á nokkurn hátt, þótt önnurhvor brtt. væri samþ. Ég hygg þó, að ef mín till. yrði samþ., þá hlyti hv. þm. að játa, að hún yrði til bóta.

Hv. þm. var að tala um, hvað þingflokkur væri. Ég hygg, að búið sé að svara því. Mér skildist á hv. þm., að hann áliti, að engir þingflokkar væru til þegar búið er að rjúfa þing. En það liggur í hlutarins eðli, að ef stjskr. segir, að þeir séu til, þá eru þeir til. Og það er ekkert vandamál að ráða fram úr því, hvernig þá eigi að fara að. Þingflokka ber þá að skoða hina sömu, sem síðasta þing skipuðu, og þeir eiga sína tilveru byggða á sínum kjósendaflokki. Ég sé því ekki, að nein vandræði geti risið út af þessari brtt. Við getum báðir komið okkur saman um, að þessi breyt. á stjskr., sem hér ræðir um, verði til bóta, hvernig sem orðalagið er í þessu efni. En þótt lausn málsins sé eins ófullkomin og ennþá er útlit fyrir að verði, álít ég, að séð sé fyrir því, að hún komi að sem mestum notum sem kostur er á. Ég hefi leitt rök að því, að þessi breyt. í samræmi við brtt. hv. 3. landsk. er þýðingarmikil. En aðrar brtt. hans virðast mér ekki breyta frv. verulega. Hv. 2. landsk. er sammála mér um þetta síðarnefnda.

Þessi umtalaða breyt. er meira formsbreyt. en efnisbreyt., og þá skil ég ekki, hvað hann meinar með því að segja, að lausn kjördæmamálsins sé stefnt í hættu með því, þótt svona breyt. sé gerð og frv. þyrfti aftur til Nd. Slíkt tek ég ekki alvarlega. Allir hv. þm. vita það, að fengið er samkomulag allra flokka til að leysa þetta mál nú. Enginn flokkur myndi því vilja taka á sig þá ábyrgð að láta málið stranda á þessu þingi.

Út af því, sem hv. 3. landsk. vék til mín viðvíkjandi því, hvað fælist í þessu, að allir frambjóðendur flokks skyldu vera á lista, það þýddi, að hér í Rvík hefði hver flokkur ekki nema 6 frambjóðendur. Að vísu verða á hverjum lista 12 frambjóðendur, en aðgreindir í aðalframbjóðendur og varaframbjóðendur, þótt ekki verði kosnir nema 6 þm.

Ég hefi heyrt því hreyft, að samkv. brtt. hv. 3. landsk. mætti líta svo á, að kjósa mætti bæði frambjóðanda í kjördæmi og landslista, en í frv. eins og það er nú er kveðið svo að orði, að kjósendur greiði atkv. annaðhvort frambjóðanda í kjördæmi eða landslista. Hitt getur vitanlega ekki komið til mála, að menn kjósi tvöfalt. Vildi ég, að hv. 3. landsk. léti þá skoðun koma skýrt í ljós, að slíkt getur ekki komið til mála.