03.06.1933
Efri deild: 89. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2865 í B-deild Alþingistíðinda. (4600)

59. mál, stjórnarskipunarlög

Páll Hermannsson:

Ég er óánægður með þessa lausn á stjórnarskrármálinu, í hverju formi sem hún verður samþ., hvort sem frv. verður samþ. óbreytt, eða hvort till. þær, sem fyrir liggja, verða teknar til greina. Þessi óánægja mín stafar af því, að ég veit ekki betur en að því hafi verið lýst yfir, að þessi lausn sé aðeins bráðabirgðabreyting og að innan skamms megi búast við nýju erfiði við nýja lausn. Ég lít svo á, að þessi málamyndalausn stafi af því, að þing og þjóð hafa ekki gefið sér nægan tíma til þess að leysa málið til frambúðar. Það á ekki við nú að ræða einstök atriði, en ég get þess, að þó að samkomulag hafi náðst, þá eru flestir óánægðir með það. Þetta samkomulag hefir ekki fengizt af öðru en því, að allir sjá, að ekki er forsvaranlegt að hliðra sér lengur hjá að leysa málið. Margar ástæður liggja til þess. Mörg erfið viðfangsefni kalla að, sem ekki þola, að þing og þjóð eyði kröftum sínum í stöðugar deilur um stjórnarskrármálið. Það mega menn vita, að með hverju því máli, sem þingið getur ekki leyst, veikist trú þjóðarinnar á þingræðinu, og slíkt má ekki verða, að upp komi ótrú á rökum byggð. Að ég gekk að samkomulaginu, stafar af því, að ég sé hina brýnu þörf til þess að fá lausn á málinu. Ég hygg, að ekki komi til mála að hrófla nokkuð við aðalatriðunum tveim, sem mest hefir greint á um, en ég lít svo á, að breyta megi öðrum atriðum, og teldi ég það rétt, þrátt fyrir samkomulagið, nema einhverjir af þeim, sem að því standa, sýndu fram á, að slíkt megi ekki. Mér skilst, að Framsfl. hafi samið við Sjálfstfl., en það hefir komið í ljós, að einmitt úr þeim flokkum eru menn, sem ekki eru mótfallnir formsbreytingum og hafa jafnvel borið fram brtt. við frv. Ég álít ekki, að ég sé neinn svikari við þau loforð, sem ég hefi gefið, þó að ég greiði atkv. með brtt. Ég sé glögglega hina óumflýjanlegu þörf og get ekki ætlað hv. þm. að hætta að sjá hana, jafnvel þó að breyt. verði gerðar á forminu. Þeir, sem óánægðir eru með samkomulagið, hafa við þau rök að styðjast um sættina, að ekki varð lengur hjá því komizt, því að óþægilegt verður að segja kjósendum frá því, að menn hafi séð þörfina, en horfið frá að leysa þetta vandamál, af því að breytt hefði verið í smávægilegum formsatriðum. Ég get ekki neitað því, að mér finnst sumt af þeim brtt., er hér liggja fyrir, til bóta. Ég mun greiða atkv. skv. því og býst ekki við, að hægt sé að stimpla mig með neinum svikastimpli, þó ég geri það.