30.03.1933
Neðri deild: 40. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í C-deild Alþingistíðinda. (4661)

115. mál, áfengislög

Steingrímur Steinþórsson:

Frv. þetta, sem hér liggur fyrir til umr., hefir verið borið hér fram bæði í fyrra og nú aftur, og umr., sem fara fram um málið á þessu þingi, virðast vera alger endurtekning á því, sem fram fór í fyrra. Lítur úr fyrir, að þessar bannlagaumr. eigi að verða föst venja á hverju þingi framvegis. Þær eigi að verða einskonar „bíó“ fyrir þm. og áheyrendur, að hlusta á, hvernig um þetta mál er bitizt. Það er einkennileg ofstækiskennd, sem grípur hv. þm., þegar þeir ræða þetta mál. Lýsir það sér í því, að ekki þykir viðeigandi að tala minna en eina klukkustund í einu í þessu máli, og sumir láta sér ekki nægja minna en tala hvíldarlaust 2-3 stundir.

Ég býst við því, að ég þyki lélegur og lítt hlutgengur í þessari orrahríð, því að ég ætla ekki að nota nema 10 mínútur til að ræða það. - Ofstækiskenndin í máli þessu lýsir sér á ýmsan hátt. Það er t. d. einkennilegt að heyra hv. þm. Borgf. halda því fram, að meðhaldsmenn frv. hugsuðu sér með því að færa ógnar áfengisflóð yfir landið og þeir séu gengnir í þjónustu Bacchusar til þess að troða áfengi inn á menn. Hv. þm. talar sem svo, að meðhaldsmenn frv. séu fortapaðir sauðir og að þeir muni hafna í því neðsta víti, sem til sé. Hliðstætt er það, þegar hv. þm. N.-Ísf., foringi þessarar 11 manna sveitar, sem flytur frv., hélt því fram, að andmælendur frv. hefðu sálufélag við smyglara og bruggara og óskaði þeim til hamingju með hjálpina, sem þeir veittu bruggurunum í landinu til þess að halda áfram sinni iðju. Þetta er lítið sýnishorn af því, hvílíkt ofstæki grípur hv. þm. þegar áfengismálin eru rædd. Nokkuð svipað má segja, þegar hv. þm. Ísaf. og hv. flm. sitt á hvað ausa yfir menn óskaplegu talnaflóði, ekki einungis hérlendis, heldur fara þeir allan hnöttinn í kring og ausa tölum, sem enginn botnar í og ekki einu sinni þeir sjálfir, því að með allri virðingu fyrir þessum hv. þm., þá efast ég um, að þeir hafi nokkra hugmynd um þessar tölur, sem eiga að sýna notkun áfengis einhversstaðar úti í heimi, því að tölur og tölur geta verið sitt hvað og verða að notast með varkárni. Þetta er aðeins lítið sýnishorn af þeim málflutningi, sem hér er notaður. Minnir það mjög á ýmsa ofstækisfulla trúarflokka, þar sem á trúarsamkomum menn rísa upp hver á fætur öðrum og vitna um, að þeirra trú sé hin eina rétta, en hinir, sem ekki trúa, séu glataðir og muni lenda í neðsta helvíti.

Nú mun sjálfsagt ekki orka tvímælis, að enginn er ánægður með það ástand, sem er í áfengismálum okkar. Kemur það fram bæði hjá meðhaldsmönnum og andmælendum frv. En þótt þetta sé viðurkennt, og hv. þm. Ísaf. þar á meðal viðurkenni, að ástandið sé vont, þótt hann hinsvegar telji, að það gæti versnað, þá vill hann ekki einu sinni láta athuga málið í n. Það má ekki athuga, hvort ástæða sé til að fara inn á aðrar leiðir. Það er sjálfsagt að hans dómi, að halda í þessa gömlu biblíu bannmannanna íslenzku -bannlögin, eða öllu heldur bannlagaslitrin. Nú er eins og hv. þm. Ísaf. benti á, að hér er ekki um bannlög að ræða, hér er ekki um að ræða afnám bannlaga - hér er í raun og veru ekki um annað að ræða en hvort breyta eigi núverandi áfengislöggjöf eða ekki. Það frv. til áfengislöggjafar, sem flutt er af hv. þm. N.-Ísf. og 10 öðrum þm., er önnur leið í málinu. Ég get ekki sagt, að ég aðhyllist þetta frv. eða að það stefni rétt, en sú löggjöf, sem við búum við, er svo gölluð, að sjálfsagt er að athuga með stillingu, þegar bent er á nýjar leiðir. Ég vil benda á þetta viðvíkjandi því, að hv. þm. Ísaf. og hv. þm. Borgf., sem báðir eru kröftugir andófsmenn frv., tala þó ekki um bann eins og nú sé, heldur takmörkun áfengis. Nú er víst, að allir eru óánægðir, og ég held, að ég þori að ábyrgjast, að enginn af hv. þm. hér í d. geti hrósað sér af því að vera ekki sekur við áfengislöggjöf þá, sem nú gildir. Ég hygg, að þeir hafi allir brotið þessa löggjöf. Þar með segi ég ekki, að þeir hafi allir neytt áfengis ólöglega. Það er hægt að brjóta áfengislögin með því að drekka vín, en það má líka brjóta þau með því að hylma yfir með lögbrjótum, og það er ég viss um, að hver einasti þm. í d. hefir gert. Þegar löggjöf nýtur svo almenns virðingarleysis og nú er orðið um bannlögin, er alvarleg hætta á ferðum og full ástæða til þess að líta eftir nýjum leiðum. Það geta ekki nema ofstækismenn litið þannig á, að ekki megi einu sinni athuga mál í n. eins og það, sem hér er fram borið, hvað þá meira. Ég skal geta þess, að ég álít, að þeir menn, sem vilja breyta til um áfengislöggjöfina og afnema hin svo nefndu bannlög, hafi farið ranga leið og alls ekki hafið sókn á réttum vettvangi. Hið eina rétta er að þjóðin sjálf sé látin úr því skera með þjóðaratkvæði, hvort hún vill halda núverandi áfengislöggjöf eða taka upp nýja skipan þeirra mála að meira eða minna leyti. Sú leið, sem ég vil, að farin sé í þessu máli, er, að víkja þessu til þjóðarinnar sjálfrar.

Ég tel, að menn hafi vakið málið upp á röngum grundvelli. En það, sem þó kom mér aðallega til að standa upp, var dagskrá sú, sem hv. þm. Ísaf. bar fram í lok sinnar ræðu hér í gær. Ég fyrir mitt leyti vil gera grein fyrir atkv. mínu um hina rökstuddu dagskrá, og mun ég greiða atkv. á móti henni, ekki af því, að ég sé ekki samþykkur mörgum hinum einstöku liðum í henni, sérstaklega seinasta liðnum um þjóðaratkvæði, að ekki sé rétt að afnema bannlögin nema samkv. þjóðaratkvæði. En þrátt fyrir það get ég ekki fallizt á að vísa málinu frá samkv. þeim rökstuðningi, sem í dagskránni felst. Ég óska eftir, að málið gangi til n., og að því verði beint þar inn á þá braut, að þjóðin verði sjálf látin skera úr um, hvað hún vill í þessu máli. - Ég ætla ekki að rökræða við hv. þm. um, hvaða afleiðingar samþykkt þessa frv., sem hér liggur fyrir, mundi hafa á áfengisnotkun í landinu. Ég er persónulega hræddur um, að það mundi auka drykkjuskapinn í fyrstu, þótt það séu getgátur einar og annað ekki. Hinsvegar er það ástand, sem nú er, svo rotið og fúið, að nauðsynlegt er að athuga það, og ósæmilegt fyrir löggjöfina að gera ekki eitthvað í málinu, og það er aðeins ein leið - að skjóta því til þjóðarinnar sjálfrar, og það mun vera almenn skoðun, að hún eigi að ráða því til lykta, þar sem bannið var sett á með þjóðaratkvæði. Vildi ég því með þessum fáu orðum gera grein fyrir afstöðu minni til málsins og þó einkum í sambandi við dagskrána, sem ég tel, að eigi að fella eins og nú stendur.