27.02.1933
Efri deild: 11. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í C-deild Alþingistíðinda. (4774)

41. mál, eignarnámsheimild á afnotarétti landsvæðis úr Garðalandi

Pétur Magnússon:

Ég kveð mér ekki hljóðs til þess að blanda mér inn í deilu hv. flm. og hv. 5. landsk. um þetta mál, heldur vildi ég, áður en lokið er umr. um það, beina þeirri spurningu til hæstv. kirkjumálaráðh., hvort hann telur þörf á löggjöf um þetta atriði, þó rifta ætti þeim samningum, sem þarna hafa gerðir verið. Ég þykist vita, að hann hafi kynnt sér þetta atriði málsins. Mér skilst, eftir því sem fram hefir komið í umr., að ráðh. hafi í leigusamningi um margnefndar landspildur Garðakirkju gengið lengra en heimilt er eftir ákvæðum 5. og 6. kafla jarðræktarlaganna, en það hygg ég, að séu einu lagaboð um þetta efni. En ef svo er, að ráðh. hafi gengið lengra en heimildir stóðu til, þá þarf hér enga löggjöf; með málsókn ætti þá að vera unnt að rifta samningunum, ef leigutakar vilja ekki góðfúslega falla frá þeim. Þetta óska ég að fá upplýsingar um hjá hæstv. ráðh.