01.06.1933
Efri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í C-deild Alþingistíðinda. (4784)

41. mál, eignarnámsheimild á afnotarétti landsvæðis úr Garðalandi

Frsm. (Pétur Magnússon):

Þetta mál var svo þrautrætt við 1. umr. hér í d., að ég tel mig ekki þurfa að verða mjög langorður um það nú.

Eins og kunnugt er, var vorið 1932 gerður samningur við tvo menn, báða búsetta í Reykjavík, um að leigja þeim landspildu úr heimalandi jarðarinnar Garða á Álftanesi með erfðafestukjörum. Voru það þeir Hermann Jónasson lögreglustjóri og Tryggvi Guðmundsson ráðsmaður á Kleppi. Annar þeirra fékk 26,6 ha. lands, en hinn 16,6 ha. Land þetta er mýri upp frá Arnarnesvogi, sem hallar mót vestri og er vel fallin til ræktunar. Leigumálinn var þannig hjá báðum, að þeir áttu að rækta ekki minna en 1/12 af landinu árlega og spildurnar þannig að verða fullræktaðar eftir 12 ár. Um eftirgjaldið er það að segja, að annar leigutakinn, Tryggvi Guðmundsson, átti að greiða leigu samkv. mati Búnaðarfél. Ísl. til fimm ára í senn, en hinn átti að greiða 15 kr. eftir hvern ha. eftir að landið væri komið í rækt, en 5 kr. fyrir hvern ha. þangað til.

Þess verður að geta, að þessi mýri, sem hér er um að ræða, er allverulegur hluti af því ræktanlega landi, sem Garðatorfunni fylgir.

Skömmu eftir að þessir samningar voru gerðir var hafizt handa um að skipta landi Garða milli þeirra jarða, sem torfunni fylgja. Og við þau skipti varð niðurstaðan sú, að sum býlin voru flutt úr Garðatorfunni og upp með Arnarnesvogi. Eitt af þeim býlum er Bakki, sem er í ábúð Eyjólfs Jóhannssonar forstjóra Mjólkurfélags Reykjavíkur, og fékk það allstóra spildu fyrir austan Hafnarfjarðarveginn og auk þess hraunland til beitar fyrir sunnan Hraunsholt. Ef einhverjir af hv. þdm. vildu kynna sér þessa skiptingu nánar, þá er hér uppdráttur mjög ýtarlegur af skiptunum eins og þau hafa farið fram, þó þau séu ekki endanlega staðfest ennþá.

Út af þessum leigusamningum reis þegar í stað allrík óánægja frá tveim hliðum, fyrst og fremst frá bændunum í Garðahverfinu. Hjáleigurnar eru flestar mjög landlitlar, og sérstaklega skortir þær tilfinnanlega land til ræktunar og beitiland fyrir kýr. Afleiðingin af afhendingu mýrarinnar, sem er tvímælalaust bezti skikinn í öllu Garðalandi til ræktunar, varð sú, að sum býlin gátu ekkert viðunandi land fengið til ræktunar, og önnur af mjög skornum skammti, eins og uppdrátturinn ber með sér. Má t. d. nefna jörðina Hraunsholt; hún fékk ekki lófastóran blett af graslendi utan túns. Sú jörð hafði áður haft beit fyrir kýr í mýrinni, sem hér er um að ræða. Þegar hún er nú svipt beitilandinu, er ekki um annað að ræða en beita kúnum á túnið, og leiðir þá af sjálfu sér, að ekki er hægt að framfleyta sama skepnufjölda og áður. Ríkust mun þó óánægjan hafa verið meðal hreppsbúa út af því, að menn utan hreppsins skyldu hreppa þetta hnoss.

En það voru ekki ábúendurnir í Garðahreppi einir, sem voru óánægðir með þessa ráðstöfun; Hafnfirðingar voru það einnig. Hafnarfjarðarkaupstaður hafði, eins og kunnugt er, fengið vilyrði hjá þinginu fyrir a. m. k. einhverjum hluta þessa lands. Ástæðan, sem fram var færð af hálfu kaupstaðarins fyrir nauðsyn hans á að fá þarna land, var fyrst og fremst sú, hvað heppilegt væri að láta bæjarbúa fá landskika til afnota í atvinnuleysinu, og að af því gætu orðið nokkrar aukatekjur fyrir þá að koma upp smábúum með grasrækt.

Það má segja, að þessi óánægja Hafnfirðinga hafi orðið til þess, að þetta frv. er fram komið, því hv. þm. Hafnf. flutti það hér í d. eftir eindreginni ósk bæjarstj. í Hafnarfirði. Landbn., sem haft hefir þetta mál til meðferðar, lítur svo á, að sú óánægja, sem fram hefir komið út af afhendingu þessa umrædda lands, sé ekki ástæðulaus. A. m. k. telur n. eðlilegt, að bændurnir í Garðahverfinu uni því illa að sjá þetta bezta ræktunarland Garðatorfunnar hverfa til utansveitarmanna, svo mikil sem þörf þeirra er á auknu landrými, bæði til ræktunar og beitar. Ég ætla ekki að fara að fjölyrða um þá hlið málsins, en læt nægja að lesa upp með leyfi hæstv. forseta bréf, sem borizt hefir frá nefnd, er kosin var á almennum hreppsfundi í Garðahreppi til þess að beita sér fyrir lagfæringu á þessum málum. Bréfið er nokkuð langt, en ég sé mér ekki annað fært en að lesa það upp í heild, því það gefur góða skýringu á því, sem ég tel aðalatriðið í þessu máli, sem sé þörf hjáleigubændanna í Garðahverfi á auknu landi. Bréfið er undirskrifað af Jóhannesi Reykdal, Guðjóni Sigurðssyni og Gísla Sigurgeirssyni og er svo hljóðandi :

„Við undirritaðir, sem kosnir vorum á almennum hreppsfundi í þinghúsi Garðahrepps 4. marz 1933, sbr. meðfylgjandi fundargerð, viljum hér með taka fram eftirfarandi mótmæli gegn skiptum á Garðakirkjulandi viðvíkjandi hinum 15 býlum, sem í ábúð eru og fráskipt verða Görðunum, og skulu hér á eftir talin hin ýmsu atriði, er mótmælin byggjast á.

Kirkjujörðunum hefir að mestu leyti verið úthlutað land samkv. jarðamati frá 1918, en jarðamatið var þá hlutfallslega hækkað jafnt á öllum býlunum og eins á Görðunum, en Garðarnir hefðu þá sjálfir átt að hækka um helming vegna sölu sameiginlegs lands Garðakirkju fyrir hátt verð án íhlutunarrétts hinna einstöku kirkjujarða eða lækkunar á jarðarafgjaldi þeirra. Þess vegna er það krafa okkar, að kotunum verði úthlutað allt það land, sem Garðarnir geta án verið sem sjálfstætt býli við þessi skipti, því enginn getur með réttu, sem þekkir eða hefir séð og gengið um þetta land, talið það vera aflögufært til úthlutunar í nýbýli, því landið er ekki stærra en ein meðaljörð í sveitum landsins hefir. En á þessum litla skika eiga 16 búendur að framfleyta sínum heimilum án nokkurs verulegs beitilands fyrir fénað sinn á sumrum eða vetrum. Nú á að taka allra beztu skákina úr þessu sameiginlega landi, sem einnig er aðalmótak jarðanna, handa óviðkomandi manni þessa byggðarlags og skilja bændur á þessum býlum eftir í hreinum voða með fénað sinn, sem verður að fækka ábyggilega um einn þriðja eða kaupa útlendan fóðurbæti handa fénaðinum sumar og vetur, sem við álítum, að öllum sé ljóst, að eigi getur komið til mála eins og allar búsafurðir eru í lágu verði. Oss finnst því, að þessi ráðstöfun hins háa stjórnarráðs sé slæm kreppuráðstöfun á þessu hreppsfélagi.

Hér fer á eftir upptalning á töðuafla hvers einstaks býlis og áhöfn, og sést þar með, hversu erfið er afkoma og lífsskilyrði hvers búanda, og þar þó ótalinn allur aðkeyptur fóðurbætir, sem notaður er bæði sumar og vetur, sem étur upp mikið af mjólkurafurðunum.

Valdimar Pétursson, Hraunsholti 9 kýr, 2 hestar, 20 ær 280 hestar

Magnús Brynjólfsson, Dysjum 3 - 1 - 18 - 140 -

Guðjón Hallgrímsson, Dysjum 3 - 1 - 24 - 120 -

Guðjón Sigurðsson, Pálsh. með Bakka 4 - 2 - 50 - 180 -

Árni Magnússon, Nýjabæ 4 - 1 - 16 - 150 -

Magnús Erlendsson, Króki 2 - 0 - 0 - 40 -

Guðm. Björnsson, Görðum 7 - 2 - 30 - 300 -

Þorgeir Þórðarson, Háteig 3 - 1 - 12 - 90 -

Kristjón Eyjólfsson, Miðengi 3 - 1 - 16 - 75 -

Gísli Guðjónsson, Hlíð 3 - 1 - 50 - 130 -

Einar Sigurðsson, Móakoti 3 - 1 - 6 - 68 -

Tryggvi Gunnarsson, Grjótá 3 - 1 - 20 - 75 -

Magnús Bergsson, Katrínarkoti 6 - 1 - 12 - 150 -

Valgeir Eyjólfsson, Hausastöðum 4 - 1 - 24 - 140 -

Jón og Gísli, Selsgarði 6 - 2 - 10 - 200 -

Nú er að álit okkar og allflestra ábúenda Garðatorfunnar, að skiptin verði að taka upp að nýju og bæta við býlin þeim landspildum, sem ákveðin voru til nýbýla. Skiptingin getur að öðru leyti að mestu haldizt óbreytt, því þessar landspildur myndu verða fyrst um sinn sameiginlegt beitiland, meðan verið er að koma ræktanlegum blettum heima fyrir í rækt, sem mun taka nokkur ár, jafnerfið sem afkoma allra er nú.

Verði þess óskað, að mótmæli þessi komi frá sem flestum ábúendum, þá mun verða hægt að fá undirskriftir þeirra næstu daga.

Við væntum þess, að hið háa ráðuneyti taki þessa réttmætu kröfu okkar til greina vegna ábúenda Garðatorfunnar og láti ekkert af landi Garðakirkju til einstakra manna eða Hafnarfjarðarbæjar, sem þegar hefir fengið stóran hluta af Garðalandi og hefir enn lítið ræktað af því, sem þó er ekki lakara til ræktunar en grjótholtin kringum Garðahverfi.

Garðahreppi, 6. marz 1933.

(Undirskriftir þriggja nefndarmanna).

Til

atvinnu- og kirkjumálaráðuneytisins Reykjavík“. Ég býst við, að hv. dm. hafi veitt því eftirtekt, að skýrslan, sem nefndarmennirnir gefa um búfjáreign og töðufall hvers býlis, ber það með sér, að töðufallið er víðast allt of lítið til þess að framfleyta þeim fénaði, sem bændurnir hafa. Það getur því engum blandazt hugur um það, að þeir hafa fullkomna þörf á að fá að njóta þess lands, sem hér er um að ræða.

Fyrir landbn., sem haft hefir þetta mál til meðferðar, vakir fyrst og fremst það, að bæta úr vandræðum þessara manna, bændanna í Garðahverfinu, og við það eru hennar brtt. miðaðar. Ganga þær út á, að ríkisstj. skuli fá heimild til að taka eignarnámi afnotarétt þeirra tveggja landspildna, sem ég gat um áðan, og sömuleiðis afnotaréttinn á landi jarðarinnar Bakka. Sú jörð var að vísu í byggingu áður, en maðurinn, sem býr þar, hefir lífsuppeldi sitt af allt öðru, og sýnist það því ekki þurfa að koma mikið við hann, þó hann sé sviptur þessu landi. Það skal þó viðurkennt, að það stendur nokkuð öðruvísi á um land Bakka en erfðafestulöndin, þar sem Bakki er gamalt býli. En það, sem réð mestu í því efni hjá n., var það, að geta gert Hafnarfjarðarkaupstað einhverja úrlausn sinna mála líka, því hún bjóst við, að ekki mundi verða mikill afgangur af mýrinni, ef bændurnir í Garðahverfi ættu að verða sæmilega settir.

2. brtt. n. mælir svo fyrir, að þegar eignarnám hafi farið fram, skuli landaskiptin tekin upp af nýju, þau sem sýnd eru á uppdrættinum, og landinu, sem eignarnámsheimildin nær til, skipt á milli þeirra bænda í Garðahverfinu, sem harðast hafa orðið úti í skiptunum, að svo miklu leyti sem nauðsynlegt þykir.

Ég skal taka það fram, að um þessi skipti hefir staðið nokkur styr. Fyrir nokkrum árum var Hafnarfjarðarkaupstað seldur hluti af Garðalandi fyrir 60 þús. kr., án þess að söluv. þeirrar spildu kæmi hjáleigubændunum að nokkru gagni. Nú halda þeir fram, að skiptin séu miðuð við það, að allt hið forna land Garða væri með í skiptunum. En það sýnist í raun og veru ekki geta komið til mála, að það sé meiningin, þar sem búið var að láta e. t. v. verðmætasta hluta landsins af hendi, án þess að hjáleigubændurnir fengju af því nokkur hlunnindi.

Þá mælir 3. brtt. n. svo fyrir, að þegar landskiptin hafi farið fram af nýju, og búið sé að leysa allra vandræði hvað landskort snertir í Garðahverfinu, þá skuli ríkisstj. vera heimilt að leigja eða selja Hafnarfirði það, sem eftir kann að verða af landi, hvort sem það verður mikið eða lítið. N. hefir ekki séð sér fært að skipa fyrir um, hvað mikið land skuli skilið eftir handa Hafnfirðingum; það verður að fara eftir áliti þeirra, sem með skiptin fara, og þá í samráði við ríkisstjórnina.

Í 4. brtt. n. er gert ráð fyrir, að þeir, sem landið fá, hvort sem það eru bændur úr Garðahverfi eða Hafnfirðingar, skuli endurgreiða ríkissjóði kostnaðinn við þær framkvæmdir, sem þegar hafa verið gerðar á þessum löndum. Ennþá mun ekki búið að gera þar annað en ræsa landið fram að einhverju leyti. Þetta virðist sanngjörn krafa, því hjá hverjum, sem þessar landspildur lenda, má gera ráð fyrir, að ekki liði á löngu þar til hafizt verður handa um ræktun þeirra.

Þá er loks í 5. brtt. n. lagt til, að sú breyt. sé gerð á frv., að ef bætur þarf að greiða hlutaðeigendum fyrir missi afnotaréttarins, þá skuli ríkissjóður greiða þær, en ekki kirkjujarðasjóður. Verði á annað borð metnar einhverjar bætur, virðist réttara, að ríkissjóður greiði þær, því hann virðist eiga að bera ábyrgð á slíkum ráðstöfunum ríkisstj., sem hér er um að ræða, að svo miklu leyti sem hún á ekki að gera það sjálf. Ég vil ekki leiða neinum getum að því, hvað miklar bætur kynnu að verða metnar. Um Tryggva Guðmundsson er það að segja, að hann átti að gjalda eftir sína spildu þegar hún væri fullræktuð eftir mati Búnaðarfélags Íslands til fimm ára í senn. Má því gera ráð fyrir, að hann hefði orðið að borga sannvirði á hverjum tíma, og virðist þá ekki ástæða til, að hann fái miklar bætur. Aftur verður að játa, að það stendur nokkuð öðruvísi á um Hermann Jónasson. Eftir samningnum, sem við hann er gerður, á hann ekki að greiða nema 15 kr. í leigu eftir hvern ha. á ári, þegar landið er komið í rækt, og þegar litið er á það, að venjulegt gjald eftir erfðafestulönd kringum Reykjavík mun vera sem næst 35 kr. á ha., þá er ekki ósennilegt, að honum kunni að verða metnar einhverjar bætur. En þó þetta baki ríkissjóði e. t. v. einhvern kostnað, hikar n. ekki við að ráða til, að þessi heimild verði veitt, því hún telur, að hagsmunir margra manna á þessum slóðum, ábúenda í Garðahreppi, krefjist slíkra ráðstafana.

Að lokum vil ég láta það í ljós f. h. n., að hún telur rétt, að hæstv. stj. láti athuga vandlega áður en til eignarnáms kemur, hvort ekki er hægt að rifta leigusamningunum, án þess að eignarnám komi til, með lögsókn. Ég vil ekki fullyrða, hvort það muni vera kleift, en ég tel sjálfsagt að beita eignarnámsheimildinni því aðeins, að hin leiðin reynist ekki fær.