28.02.1933
Efri deild: 12. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í C-deild Alþingistíðinda. (4806)

46. mál, kaup á skuldum

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég þarf ekki að vera fjölorður um þetta frv., af því að það segir sjálft til um tilgang sinn. Á tímum eins og þeim, sem nú standa yfir, má búast við því, að skuldheimta af því tægi, sem hér er gert ráð fyrir, geti orðið hættuleg fyrir vissa landshluta, þar sem kreppan sverfur mest að. Þetta frv. er borið fram til að bæta úr þessari hættu. Ég þykist vita, að í raun og veru þyrfti að taka þetta mál ýtarlegar en hér er gert, a. m. k. þegar til lengdar léti, en að svo stöddu þótti mér nægja að benda á aðalatriðið, sem sé þá hættu, sem af því stafar, þegar einstakir menn kaupa verzlunarskuldir og ganga mjög hart að mönnum, sem eru illa staddir fyrir, og skapa sér þannig gróða á óeðlilegan hátt. Ég get tekið það fram, að það eru ekki nema fá ár síðan einn einasti málafærslumaður hér í Reykjavík græddi 20 þús. kr. á skuldakaupum á hendur fátækri sveit hér nærri, þar sem miklu heppilegra hefði verið að koma þessu fyrir á annan hátt, t. d. að hlutaðeigandi sveitar- eða sýslufélag hefði haft yfirumsjón með þessu.

Hinsvegar vil ég taka það strax fram, til þess að fyrirbyggja misskilning, að eins og ég álít, að þurfi að vernda þá menn, sem svona stendur á fyrir, frá því, að of hart sé að þeim gengið, þá álít ég, að ekki megi rýra rétt lánsstofnananna, sem hafa lánað mönnum fé í góðri trú, og hindra það, að þær geti náð rétti sínum. En það er talsvert annað, þegar menn fara að kaupa og selja skuldir og innheimta þær sér til gróða.

Ég legg svo til, að frv. verði að umr. lokinni vísað til allshn.