04.03.1933
Efri deild: 16. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 637 í C-deild Alþingistíðinda. (4830)

57. mál, hámarkslaun

Flm. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Sú hugmynd, sem liggur til grundvallar fyrir því, að þetta frv. er borið fram, hefir talsvert verið rædd síðustu mánuðina og hefir hlotið meira fylgi en almennt gerist um nýjar tillögur í þessum efnum. Frv. þetta gerir ráð fyrir því, að á meðan þeir erfiðleikar haldast, sem nú þjaka nálega öllum landslýð, verði lagður á nýr skattur, sem renni í sérstakan sjóð, sem síðan verði notaður til hjálpar atvinnurekstri landsmanna og erfiðlega stöddum sveitarfélögum.

Það hefir oft verið um það rætt og ritað, að á stríðsgróðaárunum og upp úr þeim hafi mjög raskazt og færzt til misræmis launagrundvöllur ríkisins og ýmsra einstaklingsfyrirtækja. Undir lok stríðsáranna og nokkur árin næstu hækkuðu laun við einkafyrirtæki og stofnanir gífurlega. Það var í lok þess tímabils, eða eiginlega þegar kreppan var að byrja, að hinn kunni samningur var gerður við mann, sem ráðinn var bankastjóri við einn bankann hér. Var sá samningur gerður til 10 ára og skyldi bankastjórinn hafa 40 þús. kr. árslaun. Samningur sem þessi hlaut vitanlega að draga dilk á eftir sér. Og þó má rekja dýpri rætur að þessu. Sá maður, sem valinn var í þessa bankastjórastöðu, mun hafa haft mjög háar tekjur í sinni „prívat“ starfsemi. Svo var og um ýmsa starfsemi hér þá. Sú stóra tekju- og eyðslubylgja, sem þá skall yfir, gerði það að verkum, að skipstjórar á togaraflotanum voru ráðnir fyrir tugi þúsunda króna, og gátu jafnvel fengið þau laun, þó útgerðin tapaði stórum, því svo var frá samningum gengið. Þessi flóðbylgja færðist brátt yfir fleiri og fleiri svið. T. d. stórhækkaði kaup við verzlanir, einkum forstjóra og hátt settra skrifstofumanna. Í bönkunum bar fordæmið fljótlega ávexti. Laun bankastjóra höfðu verið 6000 kr. og voru það fram yfir stríð. En er, í skjóli hátekna einstaklingsatvinnurekstrarins, laun eins bankastjóra höfðu verið hækkuð jafngífurlega og áður er lýst, voru laun hinna bankastjóranna við sama banka bráðlega hækkuð upp í 25 þús. kr. og laun þjóðbankastjóranna jafnframt upp í sömu hæð og hinir lægra launuðu bankastjórar höfðu við Íslandsbanka, enda engin sanngirni að launa þeim miður betur unnið starf. En á meðan öllu þessu fór fram, urðu þeir, er sátu í embættum samkv. launalögum, er samin höfðu verið fyrir stríð, við lág laun að búa. Má þar til nefna presta, sýslumenn og kennara, einnig póst- og símamenn. Þessir menn, og sérstaklega þó þeir síðasttöldu, hafa allan tímann setið við lág launakjör. Þar hefir gamla fyrirkomulagið haldizt við. Má vel vera, að það teljist sæmilegt nú, miðað við getu þjóðarinnar, og verði því við hæfi næstu árin. Gullöld sú, sem skapaði háu launin við einstaklingsfyrirtæki, Eimskipafélagið, banka og fleiri slíkar stofnanir, er nú liðin hjá og engin von um nýja slíka gullöld næstu árin.

Ríki og bæjarfélög, einkum hér í Reykjavík, hafa smátt og smátt sogazt inn á braut kauphækkunar. Dugandi menn til slíkra opinberra starfa, er kunnáttu þurfti til, var ekki hægt að fá á annan hátt. Dæmi er um það frá undirbúningi Alþingishátíðarinnar. Við, sem sæti áttum í undirbúningsnefndinni, leituðum mikið að duglegum manni til að veita forstöðu margháttuðum undirbúningi, er fram þurfti að fara. Við fengum að vísu góðan mann. En greiða þurfti honum 15 þús. kr. árslaun meðan á verkinu stóð. Þau laun taldi hann sig hafa við það fyrirtæki, er hann rak. Þessi háu laun, sem greidd hafa verið við fjölda stofnana og einstaklingsfyrirtækja og að nokkru leyti hafa færzt yfir á launamenn þess opinbera, hafa haft í för með sér margháttaða eyðslu. Þeir, sem hæst launin höfðu, voru að vísu færir um að standa undir henni, en margir, sem ekki gátu; hafa þó elt tízkuna, sem þannig hefir skapazt. Svo er t. d. með óhófsbyggingar síðari ára. En á margvíslegan annan hátt hefir verið, og er enn, lifað miklu hærra en nauðsynlegt er og forsvaranlegt, þegar miðað er við lífskjör og lifnaðarháttu alls almennings. Hálaun og óhófseyðsla eru að vísu alltaf óheppileg frá þjóðhagslegu sjónarmiði. En á sérstökum erfiðleikatímum, eins og nú eru, er slíkt alveg óþolandi.

Á þingmálafundum þeim, sem haldnir hafa verið nú í vetur, hefir það líka komið í ljós, að kjósendur hafa ámálgað mjög við þm. sína, að komið verði skipun á launamálin. Að vísu kemur það nokkuð í ljós, að menn hafa naumast nógu gott yfirlit yfir launamálið sem heild, né ósamræmi það, sem er á milli hinna eldri og nýrri launaákvæða. Einnig hafa ekki allir áttað sig á því, að vafasamt er, að það stæðist fyrir dómstólum, þótt farið yrði að lækka laun einstakra embættismanna t. d. niður í það, sem prestar hafa nú. Þá þarf það enn að athugast, að ef laun embættismanna eru lækkuð, án þess að launakjör þau, er einstaklingsfyrirtæki bjóða, lækki tilsvarandi, þá yrði afleiðingin sú, að enginn dugandi maður fengist í störf þess opinbera. Það er því ljóst, að ef launalækkun er framkvæmd, þá þarf hún að ná til allra, annars flytjast beztu mennirnir að þeim eldinum, sem helzt brennur. Það væri líka hart og óréttlátt, ef t. d. ógiftur kontoristi fær óáreittur að taka 10 þús. kr. laun, sem dæmi eru til, en farið er að lækka við prófessora, sýslumenn eða aðra lægra launaða starfsmenn hins opinbera.

Niðurstaðan verður því sú, að ef launalækkun er framkvæmd, þá þarf hún og á að ná til allra, sem sitja á háum launum. En afleiðing þess er sú, að fara verður skattaleiðina til að ná því marki. Hún ein er fær um að ná til frumuppsprettu þeirrar, er kom af stað hálaunum og óhófseyðslu, sem er launagreiðsla atvinnufyrirtækjanna, eins og áður er lýst.

Eins og nú stendur er ríkið og bæjarfélög, t. d. Reykjavík, rekið með tekjuhalla. Stafar það vitanlega að talsverðu leyti af kaupgreiðslum. En sú krafa, sem hæst ber á og er eðlileg, er sú, að ríkið komi til hjálpar atvinnuvegunum með því að styrkja framleiðendur. Til þess þarf vitanlega fé. Enn hafa engin frv. til fjáröflunar í þessu augnamiði komið fram. En það er ljóst, að slíkt fjáröflunarfrv. verður að ná til þeirra, er mest hafa.

Þetta frv. er því einnig borið fram með þetta fyrir augum og er því bæði skattafrv. og launafrv. - Grg. frv. gefur bendingu um, hvers vænta hefði mátt af því 1931. En vitanlega yrði um miklu minna að ræða en þar er nefnt. Bæði má gera ráð fyrir því, að laun hafi lækkað nokkuð síðan, og ennfremur má búast við, að skattur sem þessi myndi þrýsta niður kaupgjaldi. Ætti það að verða til þess að setja vissan sparnaðarblæ á lifnaðarháttu manna og til hagshóta þeim atvinnufyrirtækjum, er launin greiða.

Eins og sjá má af frv., hefi ég lagt til, að því fé, sem fengist á þennan hátt, verði varið til stuðnings atvinnurekstri bæði til sjávar og sveita og til hjálpar bágstöddum sveitarfélögum.

Meðan þessi hugsun, sem kemur fram í frv., var fyrst til umr. í blöðum og annarsstaðar, gátu menn látið sér detta í hug, að skattur þessi næði einnig til atvinnufyrirtækja. En frv. ber með sér, að svo er ekki gert. Það kæmi heldur ekki til mála. Þar er það stighækkandi tekjuskattur, sem á að samræma skattgreiðslurnar.

Það má vera, að framkvæmd á l. sem þetta frv. gerir ráð fyrir, valdi nokkrum erfiðleikum. Hugsa má sér það, að atvinnufyrirtæki reyni að fara í kringum þau með launagreiðslu á óeðlilegan hátt. Við þessu eru að vísu nokkrar skorður reistar í frv., og er það verk skattan. að sjá um, að slíkt verði ekki gert. Vera má, að um þetta þurfi gleggri ákvæði, en út í það fer ég ekki að sinni. Aðeins vil ég leggja áherzlu á, að það er andi frv., en ekki form, sem ég vil að haldist óbreytt.

Ég gat þess í upphafi máls míns, að hugmyndinni um hátekjuskatt hefði verið óvenjulega vel tekið. Í öllum þeim þingmálafundargerðum, sem nú liggja frammi í lestrarsal Alþ., er máli þessu hreyft, beint eða óbeint. Er sjaldgæft, að nokkru máli sé svo vel tekið, og vil ég, til sönnunar því og með leyfi hæstv. forseta, lesa upp það, sem þar segir um þetta mál. Í Vestur-Skaftafellssýslu er á þingmálafundum í Vík í Mýrdal 10. febr. síðastl. og ýmsum fleiri stöðum skorað á Alþ. samþ. „hátekjuskatt svo háan, að enginn hafi hærri framfærslutekjur en kr. 8000.00“. Till. alstaðar samþ. í e. hlj.

Að Stórólfshvoli í Rangárvallasýslu 11. febr. síðastl.:

„Fundurinn skorar á Alþingi að samþ. hátekjuskatt, er gildi meðan kreppa sú, sem nú er, varir, og sé þannig, að hann byrji við 3500 kr. og fari stighækkandi að 8000 kr. og taki þá allt, sem þar er fyrir ofan“.

Samþ. með shlj. atkv.

Á þingmálafundum Árnessýslu voru shlj. till. samþ. einróma:

„Fundurinn skorar á Alþingi að hækka skatt á hátekjum og óhófseyðslu“.

Í Vestmannaeyjum 7. febr. síðastl.: „Að laun einstakra embættis- og starfsmanna, sem á ríkisins vegum eru, séu samræmd og hálaun færð niður að miklum mun“.

Á Akranesi 11. febr.:

„Fundurinn skorar á þingmenn kjördæmisins að styðja að því, að fram komi á næsta Alþingi frumvarp um hálaunaskatt, sem tekinn sé af launum, er fara yfir 8000 kr. með dýrtíðaruppbót, þannig að það, sem er fram yfir 8000 kr., falli til sjóðs, sem nefnist atvinnubótasjóður, sem síðar sé varið til atvinnubóta á erfiðum tímum“.

Till. samþ. með shlj. atkv. Héraðsráð Dalasýslu samþ. 6. febr.: „Taka hátekjuskatt af nettótekjum yfir 7000 kr. .... að samantalin laun embættismanna fari ekki fram yfir 8000 kr.“ .

Héraðsmálafundur V.-Ísafjarðarsýslu 29.-31. jan. 1933 samþ.:

„Fundurinn telur, að nauðsyn beri til að skattleggja allar hátekjur umfram það, sem nú er“.

Á Ísafirði er 24. febr. samþ. í e. hlj.: „.... Einkum leggur fundurinn sérstaka áherzlu á, að sérstakur hátekjuskattur verði nú þegar lagður á skattskyldar tekjur yfir 6000 kr. . ...“.

Í V.-Húnavatnssýslu, á Hvammstanga, 28. jan., er samþ. með 30:2 atkv.: „Fundurinn skorar á Alþingi að setja lög um hálaunaskatt, er nemi allt að helmingi þeirra launa, er ríkið greiðir starfsmönnum sínum fram yfir fjögur þúsund krónur til hvers þeirra árlega“.

Á Blönduósi 25. jan. var samþ. með 30:6 atkv. - og víðar á fundum í sýslunni var í e. hlj. samþ. svipuð till.:

„Fundurinn telur óumflýjanlegt, vegna núverandi kreppuástands, að komið sé á sérstökum hátekjuskatti, eða aðrar þær ráðstafanir gerðar, er komi í veg fyrir, að nokkur einstaklingur í landinu hafi hærri laun eða persónutekjur en 8000 kr. næstu ár“.

Á Stóru-Ökrum í Skagafirði var samþ. einróma 27. jan.:

„Fundurinn skorar á næsta Alþingi að samþ. ríflegan tekjuskatt af hátekjum. En hann telur það hátekjur, sem er umfram rífleg þurftarlaun“.

Á Sauðárkróki 28. jan. og á Hofsósi 4. febr. er samþ. einróma :

„Fundurinn skorar á Alþingi að samþykkja ríflegan tekjuskatt af hátekjum, sem eru umfram hæfileg þurftarlaun, allt að 8000 kr. En þurftarlaun séu ákveðin með hliðsjón af framfærslukostnaði í hverjum landshluta og tillit tekið til ómegðar“.

Í Saurbæ í Eyjafirði 13. nóv. f. á.: „Fundurinn skorar á Alþingi að setja nú þegar hámark á laun allra starfsmanna ríkisins; telur hann 6000 kr. hæfileg hæstu laun. Ennfremur telur fundurinn sjálfsagt, að tekið verði tilsvarandi af launum annara starfsmanna þjóðfélagsins með skatti“.

Á Þelamörk 29. jan. og í Öngulsstaðahreppi 31. jan. var till. samþ. um að hækka skatt af hátekjum“.

Í S.-Þingeyjars., á Laugum 23. jan. og Svalbarðsströnd 15. febr.:

„Fundurinn skorar á næsta Alþingi að setja lög um hálaunaskatt, er gildi á meðan verið er að koma á launajöfnuði hjá embættismönnum þjóðarinnar. Bendir fundurinn á, að á þann hluta launa, sem fer yfir 6000 kr., skuli lagður 50% skattur, og fari skatturinn stighækkandi, þannig að af launum, sem fara yfir 8000 kr., skuli greiddur 75% skattur“.

Á Egilsstöðum á Völlum er samþ. 15. des. f. á.:

„Fundurinn skorar .......

b. Setja hátekjuskatt, sem tekur í ríkissjóð allar tekjur manna, sem umfram eru þurftarlaun þeirra, 5-6 þúsund kr.“.

Á Seyðisfirði 4. febr. er samþ. í e. hlj.: „Fundurinn skorar á Alþingi að setja sérstök lög um hátekjuskatt, er fyrst og fremst renni í sérstakan sjóð til atvinnubóta, og miðist skatturinn við það, að tekjur einstaklings umfram 8 þús. kr. renni til sjóðsins, enda sé hlutaðeigandi sveitarfélögum bættur upp útsvarsmissirinn“.

Á Fáskrúðsfirði 29. jan. og Firði í Mjóafirði 9. febr. er samþ. „Að hækkaður verði verulega skattur af hátekjum og stóreignum“.

Og í A.-Skaftafellssýslu er samþ. í e. hlj.: „Leggur fundurinn til, að hátekjur verði drjúgum skattlagðar“.

Fleiri fundargerðir liggja ekki frammi nú. En samþykktir þessar sýna, að alstaðar hefir mál þetta verið ofarlega í hugum manna. Og alstaðar, að undanteknum tveimur tilfellum, þar sem samtals eru 8 mótatkv. hafa till. þessar verið samþ. einróma.