04.03.1933
Efri deild: 16. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 645 í C-deild Alþingistíðinda. (4833)

57. mál, hámarkslaun

Flm. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Ég hafði nú búizt við meiri stuðningi frá hv. l. þm. Reykv. en ræða hans bar vott um. Annars þætti mér gaman að fá að vita, hvort hann væri með eða á móti þeirri stefnu, sem í frv. felst, jafnvel þó að eitthvað sé í því, sem ekki er í þingmálafundagerðunum. Ég treysti því, að þessi hv. þm. láti ekki sitt eftir liggja til að auka við þá kosti, sem þegar eru á frv. Annars þótti mér kenna nokkurrar léttúðar hjá hv. þm. í tali hans um frv:, þegar þess er gætt að líklegt er, að það gæti orðið til að létta undir með hinum fátækari stéttum í ekki allóverulegum mæli á þessum erfiðu tímum. Margir fátæklingar hafa kosið hv. 1. þm. Reykv. á þing, og má ganga út frá því sem vísu, að hann vilji létta byrði þeirra.

Ég veit vel, að frv. nær ekki til fastra embættism., nema menn vilji færa hámarkið neðar, sem mér finnst geta komið til mála. Hinsvegar nær það til margra starfsmanna við einkafyrirtæki, og jafnvel þótt frv. yrði til þess, að þessi laun. lækkuðu svo, að lögin næðu ekki til þeirra, ætti það að verða atvinnulífinu ávinningur.

Um laun bankaeftirlitsmannsins er það að segja, að þau hafa verið 16 þús. kr., unz nú, að einn bankinn hefir neitað að greiða sinn hluta. Frv. er ekki samið með það sérstaklega fyrir augum að ná til þessa manns, enda virðist þegar vera búið að framkvæma sparnað í launagreiðslum til hans.

Út af ræðu hv. 2. landsk. þarf ég lítið að segja. Frv. segir, að hlunnindi forsrh. og menntaskólarektoranna skuli vera undanþegin þessum skatti, og sýnir það, að frv. ætlast til, að skatturinn sé lagður á hlunnindi yfirleitt. Annars má taka skýrar fram um þetta, ef þörf þykir á.

Hv. þm. talaði um, að Reykjavík myndi verða hart úti, ef frv. væri samþ. óbreytt. Þetta kann rétt að vera, en mér þykir ekki ósennilegt, að frv. stuðlaði að því, að lífsvenjur manna breyttust til hófsamlegri hátta, og á þann hátt yrði bæjarfélaginu einnig ávinningur að frv. Ennfremur veit ég, að hv. þm. hefir tekið eftir því, að gert er ráð fyrir því í frv., að nokkur hluti þeirra tekna, sem mundu fást, ef frv. verður að lögum, á að ganga til samvinnuútgerðar í bæjum. Slíkt mundi koma í góðar þarfir hér í Reykjavík, þar sem einmitt slík útgerð er í undirbúningi í samræmi við þær breytingar, sem verið er að gera á höfninni hér. Ég gæti því hugsað, að Reykjavíkurbær mundi njóta góðs af þessum skatti, bæði vegna þessa og eins hins, sem til sérstakra bæjarfélaga á að ganga sem hjálp gegn atvinnuleysi af völdum kreppunnar.