01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í B-deild Alþingistíðinda. (485)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Sveinbjörn Högnason:

Ég vil byrja að svara þeim, er síðast talaði, hv. þm. N.-Ísf. Ég verð að segja, að ég skil ekki hugsanagang hv. þm. Hann er mótfallinn því, að nokkur skattur sé lagður á flutningabáta, sem þó eru styrktir eða haldið uppi af ríkinu, eins og er um flóa- og fjarðabáta. En frá sjónarmiði sama hv. þm. er rétt og sjálfsagt að skattleggja flutningatæki þeirra héraða, sem eiga við dýrastar og erfiðastar samgöngur að búa og jafnvel engar hafnir hafa.

Hæstv. fjmrh. sagði nú, að frv. þetta væri ekki borið fram vegna kreppunnar og hefði ekki verið í fyrravetur. En ég man þó ekki betur en að hann segði það þá fram komið af þeim ástæðum, og að það væri einn liður í þeim ráðstöfunum, sem þá var talið að gera þyrfti vegna kreppunnar til að afla tekna í ríkissjóð. Það var áreiðanlega slagorð þeirra, er þá börðust fyrir þessari ranglátu ráðstöfun.

Út af þeim samanburði, sem gerður hefir verið við nágrannalöndin, vil ég segja, að þar er svo ólíku saman að jafna, að ekki verða dregnar þar línur á milli. Þar eru járnbrautir aðalflutningatækin og þær eru styrktar eða haldið uppi af ríkisfé, með stórum framlögum. En við höfum engar járnbrautir, einungis vegi, sem eins og hæstv. fjmrh. segir, eru margfalt verri en vegir tíðkast þar. Er því sízt ástæða til að skattleggja flutninga okkar, sem af þeim orsökum hljóta að verða mjög dýrir og eru það líka.

Hvað því viðvíkur að láta vegina bera sig sjálfa með slíkri skattlagningu og að ekkert sé hægt að leggja af vegum nema svo sé, þá má minna á það, að talsvert hefir þó verið lagt hér af vegum, þó þessi sáluhjálplega skoðun, sem nú telst sú eina rétta, væri þá ekki til. Og það er vitanlega engin frekari ástæða að búa svo um löggjöfina að vegirnir beri sig sjálfir en aðrar samgöngur t. d. strandferðirnar. Um þær 20 þús. kr., sem ákveðnar eru í fjárl. til að bæta íbúum austanfjalls þær þungu búsifjar, er þeir verða að þola vegna þessarar löggjafar, vegna hafnleysis og vegalengda, þá á nú þar að taka með annari hendinni það, sem gefið er með hinni. Vegna þess hve austanbændur verða að nota mikið bíla til þungavöruflutninga, kemur skatturinn afarhart niður á þeim. En svo kemur upp úr kafinu, að það á líka að nota þessar 20 þús. kr. til að gera sýsluvegi þar. Allt á þetta að fara til vega. Annað sér stj. ekki. Ég og fleiri hefðu þó getað búizt við, að þessari upphæð yrði jafnað niður til þess að létta mjólkurflutningana m. a. Ef slíkt á að verða framvegis, þá fer mér að standa nokkuð á sama, hvort þessi upphæð verður í fjárl. eða ekki, því eins má veita fé til vegagerðar austanfjalls af öðru vegafé. Og þegar athugað er, að í grg. frv. er gert ráð fyrir því, að skattur þessi nemi 300 þús. kr., þá er vist, að þessi 20 þús., sem ætluð eru til endurgreiðslu, eru tiltölulega of lítill hluti fyrir Suðurlandsundirlendið, miðað við það, hvað flutningarnir hækka í verði vegna þessara l. Og svo á að verja þessari upphæð á sa.ma hátt og því fé öðru, er inn kemur vegna þessara 1.