01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Aðalatriði þessa frv. er 4. gr., því að þær breyt., sem gert er ráð fyrir á 1., eru svo smávægilegar, að vart er um þær talandi. Þó vil ég taka fram að því er snertir endurgreiðslu á tolli af benzíni til traktora og smábáta, að þá tel ég sjálfsagt, að markið verði fært niður, ég vil segja niður í 250 1., eins og gert er ráð fyrir í þeirri till., sem lengst gengur. Auðvitað er það hláleg fjarstæða að leggja á samgöngur á landi, smátrillur og traktora. En aðalatriði frv. er 4. gr., þar sem gert er ráð fyrir, að framlengja l., sem annars eiga að falla úr gildi í árslok 1933. Og það er ekki gert ráð fyrir framlengingu um ákveðið árabil, heldur gildi l. þar til öðruvísi sé ákveðið. Mér þykir rétt að benda á, að það er farið að taka upp nýja aðferð í skattamálum, sem ég tel mjög óviðeigandi, en það er að koma skattaálögum á landsmenn undir því yfirskyni, að vegna einhverrar knýjandi nauðsynjar sé alveg óhjákvæmilegt að leggja þennan skatt á til bráðabirgða. Síðan er ýmist, að skattal. eru framlengd óbreytt, eða beinlínis svo gengið frá, að tímatakmarkið er burt numið. Það er ekki langt að leita dæma. Vörutollurinn var upphaflega til „bráðabirgða“ til þess að sjá fyrir tekjum í staðinn fyrir víntollinn. Verðtollurinn var til „bráðabirgða“, og átti að standa þangað til pundið væri komið í 28 kr. Það komst það mjög fljótlega. En verðtollurinn hefir heldur hækkað en lækkað síðan. Hækkunin á bifreiðaskattinum frá því sem hann var áður, nemur 200%, þar sem hækkun hans samkv. grg. frv. er á ¼ úr ári 132 þús. kr. En allt árið áður nam hann 100 þús. kr. Það þýðir því ekkert að eyða orðum að því, að þessi hækkun skattsins hlýtur að gera alla flutninga með bifreiðum miklu dýrari en þeir voru áður. Hér þýða því engar umbúðir. Þetta er öllum svo ljóst, að ekki er hægt að villa mönnum sýn. Hæstv. forsrh. sagði, að skattur þessi væri til bóta bæði fyrir sveitir og kaupstaði. Væri öllu fólki til mikilla hagsbóta. Ég veit nú ekki, hvort þetta á aðeins við skatt þann, sem hér er til umr., að hækkun hans sé til bóta fyrir landslýðinn. eða að hann telji það almennt til bóta fyrir fólkið, að skattar séu sem hæstir. Ef svo væri, þá held ég, að ekki sé vandræði að bjarga sér út úr kreppunni. Hækka bara alla skatta og álögur á þjóðina. Hæstv. ráðh. segir, að skattur þessi auki vegina, bæti vegaviðhaldið og skapi því töluverða atvinnu. Það er því ekki úr vegi að athuga, hvernig þetta hefir orðið síðastl. ár. L. um bifreiðaskatt gengu í gildi 8. júní 1932 og gefa 135 þús. kr. þann tíma, sem eftir er ársins, sem nota á til viðhalds og umbóta vegum landsins. Til vegamála er áætlað 1932 990 þús., að frátöldu því, sem hinn nýi bifreiðaskattur gefur. En til vegamála er þó ekki eytt á árinu nema 770 þús. kr. í allt, eða 220 þús. kr. minna en áætlað er, og auk þess engu af bifreiðaskattinum. Það þarf því mikil brjóstheilindi til þess að segja, að skattur þessi hafi orðið til þess að bæta vegina og auka atvinnu, þegar engum eyri af honum er varið til þess, sem hann á að fara til, og auk þess er greitt til vegamála 220 þús. kr. minna en þingið gerði ráð fyrir. Heldur er a. m. k. ¼ hl. hans varið til þess að halda uppi rándýrri og óþarfri ríkislögreglu.

Ef verja á skatti þessum til umbóta á vegum, þá á hann að vera umfram það fé, sem varið hefir verið undanfarið til vegamála. 4 árunum 1928—1931 var greitt til vegamála frá 1,5 millj. til 2 millj. á ári, en á síðasta ári var áætlað til þeirra 990 þús., og þá sagði hæstv. forsrh., að skorið hefði verið svo nærri kviku sem fært þótti. En þó skar hæstv. forsrh. enn nær kvikunni, þar sem hann eyddi ekki til vegamálanna nema 770 þús. og engum eyri af bifreiðaskattinum. Reynslan er því sú, að engu minna hefði verið varið til vegamála, þó að skattur þessi hefði ekki verið tekinn upp á þinginu í fyrra. Hann hefir aðeins verið notaður til almennrar tekjuöflunar fyrir ríkissjóðinn.

Það var og er því blekking ein að nota eigi hann til vegamála, gerð í þeim tilgangi að fegra hið gamla „litla og ljóta frv.“

Það er alls ekki hægt að jafna þessum skatti saman við bifreiðaskatt erlendis. Þar er skattinum eingöngu varið til þess að gera varanlegt slitlag á akvegi og mun víðast renna í sérstakan sjóð, sem stendur fyrir utan ríkissjóðinn og er undir umsjón amtráða og héraðsstjórna, og framlag ríkissjóðanna til vegamála raskaðist ekkert þó að skatturinn væri tekinn upp.

Það var einhver háttv. þm., sem gat þess, að sér fyndist óviðfelldið að skattleggja bifreiðar til vegaviðhalds, en hæstv. forsrh. gerði gys að þessu og spurði þm., hvort hann vildi t. d. heldur skattleggja skófatnaðinn, af því að menn træðu með honum á vegunum. En ég sé engan mun á þessu, því ef það er rétt að skattleggja bifreiðar til viðhalds vegum, þá má engu síður skattleggja skósóla og skóhlífar til viðhalds götum í bæjunum. Út af orðum háttv. frsm. fjhn. um hina pólitísku neitun, sem hann sagði, að átt hefði sér stað í fyrra gagnvart öllum tekjuöflunarfrv. stj., vil ég bera fram þá fyrirspurn, hvort nú sé fallin niður sú afstaða, sem Sjálfstæðisflokkurinn kvaðst hafa tekið í fyrra, að binda alla atkvgr. um tekjuaukafrv. við viðunandi lausn stjórnarskrármálsins. Hvort þessi afstaða er breytt frá síðasta þingi, vildi ég fá upplýst frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins hér í hv. d.