08.03.1933
Efri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 665 í C-deild Alþingistíðinda. (4894)

63. mál, tóbaksvörugerð

Jónas Jónsson:

Ég álít heppilegt, að frv. um þetta efni sé fram komið, hvort sem því verður fylgt í því formi, sem það nú er i. Enginn vafi er á því, að það væri mjög eðlilegt, að hér væri hafin nokkur tóbaksvörugerð. Fyrir ári síðan var ég staddur í Stokkhólmi og fann þá að máli forstjóra sænsku tóbakseinkasölunnar til að ræða við hann um reynslu Svía í þessu efni. Taldi hann, að hagnaður hefði verið fyrir sænsku einkasöluna að hafa þennan iðnað og tók vel í það, ef til þess kæmi, að Ísland þyrfti að fá aðstöðu til að uppala sérfróða verkamenn í þessari grein, að vera til nokkurar aðstoðar. Það er eftirtektarvert, að Svíþjóð hefir bæði tóbakseinkasölu og tóbaksiðnað, og þykir mér ekki ólíklegt, að verkamenn héðan gætu haft gagn af þeirri reynslu, sem þar er fengin.