01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Það er vitanlega rétt hjá hv. þm. Seyðf. og hv. 3. þm. Reykv., að það, sem hér er fyrst og fremst um að ræða, er ákvæði 4. gr., nefnilega það atriði, hvort framlengja á l. eða ekki, eða hvort framlengja á þau í eitt ár, eða um óákveðinn tíma. Ég held, að ekkert hafi komið fram við hina stuttu reynslu, sem þessi l. hafa fengið, sem styður skoðanir þeirra manna, sem vilja láta þau falla úr gildi. Það hafa orðið miklar umr. um þetta mál hér á þingi, og þar sem ekkert nýtt virðist hafa komið fram nú, hygg ég, að hv. þm. geti farið að ákvarða sig, án þess að lengja umr. úr þessu.

Um brtt. þær, sem fyrir liggja, hefi ég lítið að segja. Brtt. á þskj. 58 finnst mér nauðaómerkilegar og lítilfjörlegar. Þær eru um að lækka skattinn á einkabifreiðum lækna og ljósmæðra. En hver er nú þessi skattur, sem þar er um að ræða? Eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið, munu bifreiðar lækna og ljósmæðra yfirleitt vera um 1000 til 1300 kg., og verður skatturinn af þeim því í mesta lagi 156 kr. Eftir brtt. yrði skatturinn á þessum bílum 60 til 78 kr. og nemur því lækkunin sömu upphæðum. Og hverjir eru það svo, sem hér eiga hlut að máli?

Halda menn virkilega, að þetta komi fram sem lækkun á kostnaði einstaklinga við læknisvitjanir? Halda menn, að réttlætistilfinning og fjármáladómgreind læknanna sé svo hárnákvæm, að þeir taki tillit til þessara 60 kr. á ári, þegar þeir ákveða laun sín fyrir lækningaferðir? Ennfremur munu sumir læknar nú farnir að nota enn léttari bíla, sem ekki vega nema 500 kg., og verður sparnaðurinn fyrir þá ekki nema svo sem 30 kr. á ári. Það þyrfti mikla lægni til þess að láta þann sparnað koma niður hjá heilum árgangi af sjúklingum. Og ef hann kemur ekki fram hjá sjúklingum, sem lækkun á vitjanakostnaði, hvaða ástæða er þá til að létta svona lítilli upphæð af ársrekstri þessara embættismanna. Á það svo sem að vera einskonar hallærisráðstöfun fyrir þessa borgara sérstaklega? Ég held það væri meiri ástæða til þess að stinga hendinni einhversstaðar annarsstaðar niður fyrst til slíkra hluta.

Um brtt. á þskj. 64, frá nokkuð mörgum þm., sem hv. þm. Borgf. hefir talað fyrir, verð ég að segja það, að mér finnst ekki heldur mikið til um hana. Hv. þm. ætlaði í seinni ræðu sinni að fara að færa fram þau rök, sem allir þm. hlytu að fallast á, þegar hann kom með þær upplýsingar, að bátar með þannig vélar, sem „startað“ er með benzíni, en ganga að öðru leyti fyrir annari teg. olíu, eyddu frá 3—4 hundruðum l. af benzíni á ári. Ég er nú ekki vel að mér í mótorfræði, en ég held þó, að hér hljóti að vera um svo stóra báta að ræða, að 12—16 kr. aukagjald geti alls ekki skipt miklu máli fyrir þá. Það getur ekki verið hér um neina smábáta að ræða. Litlu bátarnir, sem eyða eingöngu benzíni, þurfa eflaust meira benzín en þetta, og engir smábátar geta haft vélar, sem þurfa 3—400 l. á ári til „störtunar“ (PO: Þetta er allt saman misskilningur). Auðvitað er það misskilningur hjá hv. þm., og mér þykir vænt um, að hann kannast við það. (PO: Það er allt misskilningur hjá hv. þm. V.-Húnv.).

Sú ástæða fyrir því, að lágmarkið þurfi að lækka, að ella komi skatturinn óréttilega niður á traktorunum, stafar af skorti á kunnugleika hjá hv. þm. Það þarf ekki mikla starfsemi hjá vélum, sem eyða kannske 100 1. af benzíni á dag, til þess þær komist undir það ákvæði, að þær fái allan tollinn endurgreiddan. Þetta er því aðeins tylliástæða, sem sýnir aðeins, að hv. þm. þarf að grípa til allra mögulegra ráða til þess að styðja sinn málstað. Það er ekki að undra, þótt sum rökin, sem fram eru færð, séu nokkuð vafasöm, þegar um er að ræða jafnómerkilega brtt. og þessa.