18.03.1933
Efri deild: 28. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í C-deild Alþingistíðinda. (4969)

102. mál, fimmtardóm

Flm. (Jónas Jónsson):

Ég get nú verið hv. 1. landsk. þakklátur fyrir það, að hann notar orðið afturhald eins og hið grófasta ádeiluorð; ég er honum samdóma um, að rétt sé að leggja þá merkingu í það orð, sem sést af því ekki hvað sízt, að það er einmitt einn aðalgallinn á hans pólitísku skoðunum, hve afturhaldið er ríkt hjá honum. Að öðru leyti er ég honum nú ekki sammála, eins og ég mun nú sýna með þeim rökum, er ég færi fram gegn skoðunum hans.

Það er óneitanlega dálítið undarlegt, sem hann heldur fram, að elzta lýðveldið í heiminum utan Evrópu og elzta lýðveldið innan Evrópu, sem unnið hafa sitt stjórnfrelsi með því að sigrast á grimmustu kúgun, hafi algerlega úreltar hugmyndir um réttarfar og lýðræði, en í hinum löndunum, þar sem einveldisumbrotin stóðu yfir fram um miðja síðastl. öld, og eru sum, eins og t. d. Þýzkaland, á góðum vegi með að verða einveldi aftur, þar sé allt í bezta lagi. Það var að heyra á hv. þm., að hann teldi, að þar hlyti að ríkja hið sanna lýðfrelsisfyrirkomulag. Það þarf í meira lagi einkennilegan lestur á sögunni til þess að komast að slíkri niðurstöðu. En þetta er alveg öfugt. Sviss hér í álfu og Bandaríkin í Ameríku eru elztu griðastaðir frelsis og mannréttinda, þó ég fyllilega viðurkenni áhrif Englands í parlamentarískum efnum, en þeim þykir allt of mikið varið í konunginn, sem eru einhverjar hinar úreltustu leifar af föllnu skipulagi, til þess að geta talizt standa öðrum framar í þessum efnum. Hv. þm. þarf því að segja, að hvítt sé svart og að svart sé hvítt, til þess að geta komizt að þeirri niðurstöðu, sem hann fékk; hann verður að snúa öllu við. Hv. þm. komst nú ekki hjá því að játa það, að þetta fyrirkomulag um skipun hins æðsta dómstóls landsins gæfist vel í Sviss, en það er ekki að marka, segir hv. þm., við erum of ófullkomnir til þess að geta haft sama fyrirkomulag. Þess vegna eigum við að hafa einræði í dómsmálum, við eigum að hlíta forsjá lítillar lokaðrar klíku í þeim efnum.

Ég ætla þá að svara ofurlítið þeim röksemdum hv. þm. um það, að öfgarnar, sem eru á vissum sviðum þjóðmálanna í Bandaríkjunum, séu því að kenna, að dómsmálin séu ekki í góðu lagi, vegna þess að dómararnir væru kosnir og keyptir til fylgis og andstöðu í ýmsum málum. Ég held það sé nokkuð hæpið fyrir hv. þm. að kveða þann dóm upp yfir dómstólum Bandaríkjanna í heild. Og eftir sömu rökum mætti segja, að hvergi væri vogandi hjá nokkurri þjóð að hafa almennan kosningarrétt, því atkv. yrðu keypt. Slík rök hv. þm. koma nú ekki sem bezt heim við þá stefnu hans í mannréttindamálum að vilja færa aldurstakmark fyrir kosningarrétti niður í 21 ár, og að einstakir menn haldi þeim rétti þrátt fyrir þeginn sveitarstyrk. Hv. þm. hefir nú á síðustu árum tekið upp þessa frjálslyndu stefnu, a. m. k. á yfirborðinu, hversu mikil sem alvaran hefir verið. En þetta hefði hann ekki átt að gera, ef kosningarrétturinn er svo eitrað vald eins og hann lýsir því í Bandaríkjunum. Ef vald fjármunanna er þar svo mikið, að þeir hafa lagt undir sig dómsmálin, þá sýnist, að öruggast væri að leggja niður lýðræðið og stofna einveldi. En hv. þm. hefir nú þótzt breyta alveg gagnstætt þessu. Hann hefir talið það stærstu nauðsyn þjóðarinnar nú á þessum krepputímum, að komið verði á því kosningarfyrirkomulagi, sem hann telur, að bezt tryggi það, að almenningur njóti síns kosningarréttar. Þetta finnst honum svo eftirsóknarvert þrátt fyrir þá galla, sem fram hafa komið á lýðræðinu í Bandaríkjunum, eftir því sem honum finnst, að hann telur þetta kosningamál mesta kreppumálið. En þessir stóru gallar, sem felast í þjóðlífi Bandaríkjanna, stafa ekki frá stjórnarfyrirkomulaginu, heldur eru þeir afleiðing af því ógnar auðmagni, sem safnazt hefir á hendur örfárra manna og notað hefir verið til þess að ná tökum á ýmsum áhrifamiklum stofnunum, eins og t. d. kirkjunni og K. F. U. M., sem greinilega gengur erindi auðvaldsins. Jafnvel vísindin hafa auk heldur komizt í kast við dollarinn. Auk þessa má geta um það sérstaka ástand í Bandaríkjunum, að þjóðin er samsett af miklum fjölda ólíkra kynflokka, og á það ekki lítinn þátt í því að torvelda stjórnarfarið. En þrátt fyrir þetta allt ríkir þar meiri frelsisandi og næmari réttarmeðvitund en annarsstaðar, og þessir gifturíku eiginleikar eru sprottnir af því, að þjóðin skapar sér sitt eigið frelsi, en hlítir ekki úreltu valdi um landsstjórn eða réttarfar. Þjóðin hefir þroskazt stig af stigi án þess að taka bakföll eða afturköst, og engum dettur í hug, að þar geti komið fram nein öfgahreyfing, hvorki svört eða rauð. Það er sagt, að stjórnmálafræðingar Evrópu segi, að í Bandaríkjunum sé eiginlega ekki nema einn stjórnmálaflokkur; þar beri sama sem ekkert á milli. Það megi líkja ágreiningi þeirra við það, hvort réttara sé að drekka úr stóru eða litlu glasi. Það er því hreinn óþarfi af hv. þm. að vantreysta fordæmi Bandaríkjanna. Það kom einmitt fyrir nú á síðastl. ári, að þjóðin tók verulega í taumana gegn óheppilegum niðurstöðum yfirdómstólsins gegnum sína umboðsmenn, þingfulltrúana. Það er og kunnugt, að í tíð síðasta forseta Bandaríkjanna var skipt um tvo af níu dómurum í réttinum. Það varð hörð deila um það, hverja ætti að velja, og deilan stóð milli Hoovers forseta og hans flokks og meiri hl. öldungadeildarinnar. Hoover ætlaði að gera dómstólinn pólitískan fyrir sína flokka, eins og hæstiréttur er hér, en öldungadeildin sagðist vilja hafa dómarana óháða auðvaldinu og fulltrúa þjóðarinnar, og það varð. Efri deildin réð.

Og nú fer orð af því, hversu dómstóllinn hafi breytzt við tilkomu þessara tveggja manna. Annar þeirra er portúgalskur gyðingur, og fer af vinnu hans mikið frægðarorð. Nú er dómstóllinn orðinn dómstóll fólksins, hann vinnur nú fyrir þjóðina í heild sinni, en ekki fyrir auðvaldið.

Ég vil ráðleggja hv. 1. landsk. að kynna sér ástæðurnar til þess, að Bandaríkjamenn tóku upp lýðræðisfyrirkomulag um dómaraskipun, - hann gæti t. d. lesið það, sem Macaulay skrifar um dómara á Englandi í tíð Stúartanna, og útflytjendurnir áttu í höggi við, áður en þeir flýðu land og héldu til Ameríku. Og þeir flýðu fyrst og fremst harðstjórn konungs og dómstóla, og jafnákveðnir og þeir voru í því að yfirgefa harðstjórnina heima á ættlandi sínu, jafnákveðnir voru þeir í því að koma sér hvorki upp konungum né dómurum af sömu tegund og þeir þekktu áður, í sínu nýja landi. En er á því, að hv. l. landsk. misskilji algerlega áhrif stjórnarbyltingarinnar miklu. Það var hún, sem tók það pólitíska vald af konungum, aðli og kirkju og fékk það þjóðinni í hendur, og það tók langan tíma að fá Evrópu til þess að ganga inn á þessa umbót. En franska byltingin snerist ekki síður gegn dómstólunum en konungum. Dómararnir voru þá ekkert annað en klíka, tilheyrandi afturhaldssömu harðstjórnarvaldi, án allrar íhlutunar þjóðarinnar. En þjóðin gerði uppreisn gegn vondum konungum og vondum dómstólum. Og víðast hvar í Evrópu varð gerð sú skipun á þessum hlutum, sem sprottin var upp af lýðræðishugsjóninni, á sama hátt og löggjafarþingin.

Af þessu verður séð, að sú skipun, sem er á hæstarétti okkar, er í fyllsta máta miðaldarleg. Og samt voga dómararnir í þessum rétti sér að segja í álitsskjali til Alþ., að þessi sjálfssköpun dómaranna sé algeng í Evrópu. En sannleikurinn er sá, að þetta fyrirkomulag er hvergi notað í germönskum löndum, nema Danmörku, og þó er það mjög óvinsælt þar. - Hv. þm. sneri málinu alveg við. Það er miðaldatilhögun á dómstólnum, sem enn er í Danmörku, og sökum þess, hvað íslenzkir lögfræðingar voru háðir dönskum anda, var þetta úrelta skipulag flutt hingað og yfirtekið af Íhaldsfl. Þetta má m. a. sjá af því, að eitt af aðalblöðum flokks hv. 1. landsk., Stormur, hefir alltaf talað svo um hæstarétt, eins og dómurinn væri því sérstaklega tilheyrandi. Nei, það skipulag, sem byltingin mikla skolaði burt í dómsmálum, var ekki kviðdómarnir, sem forfeður okkar höfðu og víða eru enn við lýði í germönskum löndum, það var ekki vald þjóðarinnar yfir dómstólunum. Það, sem hreinsað var burt með byltingunni, var konungskúgun og klíkudómstólar. Það er t. d. ekkert undarlegt, þó að Voltaire hafi horn í síðu dómstóla samtíðar sinnar. Hann fékk ósjaldan að kenna á því að vera hnepptur í varðhald, bara af hví að einhver íhaldsmaður setti klíkudómstólana í gang, af því að honum þótti Voltaire of frjálslyndur. Og það er engin furða, þótt reiði fólksins skoli slíkum dómstólum burt.

Hv. þm. hélt því einnig fram, að það skipulag, sem bæði Sviss og Bandaríki Norður-Ameríku hafa á dómstólum sínum, sé hreint og beint kúgunarmeðal. Ég vil benda hv. þm. á það, að Sviss hefir verið frjálst lýðveldi síðan á miðöldum, og börðust landsmenn þar drengilegri baráttu við einvaldskonunga og verkfæri þeirra, klíkudómstólana, þar til yfir lauk. Sviss hefir notað vel frelsi sitt, bæði hvað snertir það pólitíska vald og vald dómstólanna.

Sú eina vitglóra, sem gæti verið í „rökum“ hv. þm., væri það, ef að baki þeim lægi sú skoðun, að Íslendingar væru svo pólitískt óþroskaðir, að þeir gætu ekki notað frelsi sitt í dómaravali réttilega. En þá get ég ekki séð samræmi í því, að hann skuli berjast fyrir því mikla ,,réttlætismáli“, sem hann og flokkur hans stærir sig af. Sannleikurinn er sá, að það er ekki til heil brú í hugsanagangi þessa hv. þm. Hann kallar það miðaldadómstóla, sem í raun og veru eru dómstólar sannarlegs lýðfrelsis. Hann talar um klíkueðli dómstóla á miðöldum, og vill láta það líta svo út, sem það vaki fyrir mér að endurreisa slíka dómstóla, einmitt þegar ég er að gera tilraun til þess, að losa hæstarétt úr klíkuklóm íslenzka íhaldsins. - Það þarf sannarlega harða húð til þess að halda því fram, að það sé einhver skelfileg ógæfa fyrir þjóðina að fá valdið yfir vali dómara í æðsta dómstól sinn í eigin hendur! Þessi hv. þm. og flokkur hans hefir látið í veðri vaka, að hér eigi að afnema konungsstjórn og koma á lýðveldi. Ég skal ekkert lasta þá hugsun þeirra, því að ýmsir góðir menn munu vera á þeirri skoðun, að þetta beri að gera, þegar því verður við komið á löglegan hátt. En ef það er trú hv. þm., að þjóðin sé nógu þroskuð pólitískt til þess að halda hér uppi lýðveldi algerlega á eigin spýtur, þá þykir mér undarlegt, ef sú sama þjóð á ekki að vera nógu þroskuð til þess að velja sjálf sína æðstu dómara. Ef aftur á móti hv. þm. heldur fast í það, að íslenzku þjóðinni sé bezt borgið undir kúgunarvaldi klíkudómstóla, þá væri bein afleiðing af því, að hann og flokkur hans sýndu konungsættinni sem mestan sóma, og reyndi að auka og efla konungsvaldið eins og frekast væri unnt. En yfirleitt sést glöggt af rökvillum þessa þm., að mest ber til gáfnatregða og fáfræði. Enginn nema sá, sem væri í mesta máta grunnfær og menntunarlaus, gæti látið sér koma til hugar að ráðast á dómaskipun Svisslendinga, sem staðizt hefir próf veruleikans í margar aldir.

Þá heldur hv. þm. því fram, að tilraun mín til þess að gera dómaraval í hæstarétti jafnréttlátt og í öðrum lýðfrjálsum löndum eigi að verða til þess að gera dómstólinn pólitískan. Ég vil minna hv. þm. á þá staðreynd, að síðastl. sumar tók hæstiréttur sem dómara lögfræðisráðunaut og baráttuforingja íhaldsins í því mesta hitamáli, sem komið hefir upp hér á þingi. Eftir það þarf talsverð brjóstheilindi til þess að halda því fram, að rétturinn sé ópólitískur nú. Ef litið er til baka, verður fyrir manni einn flokksbróðir hv. 1. landsk., sem nýlega er genginn úr réttinum. Þessi maður var harðsnúinn leiðtogi í pólitík heila kynslóð, og þar að auki mjög áberandi riðinn við dóm í Skúlamálinu, sem tæplega mun kallað ópólitískt. Ef athugaðar eru blaðagreinar, sem nýlega hafa verið endurprentaðar, má sjá, hvað þeir Páll Einarsson og Lárus H. Bjarnason voru veikir fyrir pólitískum deilumálum um 1910.

Allir vita, að þessir menn hafa tekið harðvítugan þátt í pólitískum deilum um landsmál. Og það vakir áreiðanlega ekki fyrir hv. 1. landsk. að hafa réttinn ópólitískan, heldur hitt, að hafa hann svo, að þar geti jafnan átt sæti æstir íhaldsmenn, sem dæmi hans flokki í vil. Það er algerlega þýðingarlaust að halda því fram, að rétturinn sé ópólitískur núna. Dómararnir eru teknir úr einum pólitískum flokki, og því mun verða haldið áfram, ef engin breyt. verður gerð á skipun réttarins. Og samt tilkynnir hv. 1. landsk. þm. með mesta merkissvip, að ég hafi nú kastað grímunni, eins og það sé ég, sem vil gera réttinn pólitískan! Það væri samskonar og manni, sem kæmi með dálítið kolablað inn í Newcastle, væri borið það á brýn, að hann hefði í hyggju að gera bæinn svartan. Hv. þm. heldur því fram, að bezta fyrirkomulag landsstj. sé bræðingsstj. stærstu flokkanna, eins og nú er; honum þykir miklu betra að hafa bræðingsstj. Íhalds og Framsóknar en hreina framsóknarstj. En þegar litið er á það, að þessum hv. þm. hefir alls ekki orðið bumbult af bræðingnum í landsstj., þá get ég ekki skilið, hvers vegna hann er svo heitur á móti því, að 2 eða 3 flokkar kysu dómara í hæstarétt. Nú yrðu dómararnir kosnir til 6 ára, en þm. aðeins til fjögurra, og þessar hættulegu ráðstafanir, sem hv. þm. er alltaf að tala um að ég vilji gera viðvíkjandi hæstarétti, felast í því, að ég vil láta þing eða kjósendur ráða vali dómaranna. Ef hv. þm. gæti frekar fallizt á það, skal ég gjarnan ganga inn á þá breyt., að kjósendurnir sjálfir velji dómarana. Og það yrði að mínu viti bezta dómaraprófið, sem fengizt gæti. Getur ekki hv. þm. hugsað sér, að einhverjir af núv. dómurum yrðu kosnir aftur í dóminn, þó að þetta nýja fyrirkomulag yrði tekið upp? Eða er hann hræddur um, að þeir yrðu léttvægir fundnir, ef ætti að meta þá eingöngu eftir verkum þeirra?

En það er önnur hlið á þessu máli, sem ekki hefir verið nægilega bent á ennþá. Og það er, hve mikil sanngirni felst í till. mínum frá flokkslegu sjónarmiði: Ef þetta fyrirkomulag væri tekið upp, mundu allir flokkar smám saman fá fulltrúa í hæstarétti. En fái vilji hv. 1. landsk. að ráða, kemst engin sanngirni að í þessu máli, fær ekki að komast að. Hæstiréttur á að vera áfram það, sem hann nú er, klíkudómstóll með ófullkomnum vinnubrögðum, skapaður í mynd íhaldsfl.

Ég vil aftur á móti, að í dómstólnum séu menn af öllum flokkum, eins og í þinginu. Það er ekki ýkjalangt síðan flokkur hv. 1. landsk. var sá stærsti í þinginu, og nú er hann sá næststærsti, svo það er langt frá því, að ekki geti verið íhaldsmenn dómarar í réttinum. En þeir yrðu þar ekki einir.

Eins og ég gat um áðan, þá skal ég ganga inn á það til samkomulags, að dómarar verði kosnir beint af kjósendum, og geri ég ráð fyrir, að í því tilfelli yrðu dómarar að mestu kosnir án tillits til hreinna pólitískra lína. En þá kæmi vilji fólksins skýrast fram.

Hv. þm. vill hafa bræðing í ráðuneytinu, en þó að hans flokkur, eins og allir aðrir, fái áhrif á dómaraveitinguna að sínum hluta samkv. frv. mínu, þá vill hann það ekki, því að þarna vill hann hafa óskorað einræði síns flokks. Hann stendur því í þessu máli afhjúpaður fyrir öllum landslýð sem forsvari pólitísks einræðis íhaldsflokksins íslenzka, líka í dómsmálum.