17.03.1933
Efri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í C-deild Alþingistíðinda. (4982)

103. mál, æðsta dóm

Jónas Jónsson:

Ég býst við, að þessi fyrsta umr. geti farið að styttast, því að það hafa komið fram aðalatriðin, sem menn þurfa að vita til þess að átta sig á frv. Ég lauk ekki alveg í minni fyrri ræðu við líkinguna um þann saklausa sveitamann, sem kemur í þá stóru Reykjavík, og þá tæru Svartá, sem fellur í Blöndu, en Blanda verður ekkert hreinni fyrir því; hún er svo gruggug fyrir. Eins er með það, þótt hv. þm. komi með góðan vilja heiman að frá sér og margar góðar hugsjónir, þá er það eins og Svartá og Blanda. Þetta frv., sem hann kemur nú með, er eins skolulitað og íhaldið hefði frekast viljað hafa það.

Það kom í ljós eftir ræðu hv. flm. að dæma, að hann hafði borið þetta undir einn lögfræðing hér í d. og farið með það sem mikið leyndarmál. Ég skil ekki, hvers vegna þetta er svo mikið leyndarmál, nema það hafi lagzt í hv. flm., að þetta mundi af mörgum samherjum hans álitið tilheyra frekar sjálfu íhaldinu, að koma með þetta frv., en landskjörnum manni úr Framsfl. En svo mikið get ég sagt honum, að það var a. m. k. um nýár, sem mér var orðið kunnugt aðalefni þessa frv., eftir íhaldsmanni hér í bænum, sem sagði, að stj. væri að vinna að því. Þá gerði ég ráð fyrir því, að það væri dómsmrh., sem væri að því; ég gat vel skilið, að það heyrði undir formann klíkunnar. En það er ekki útilokað, að hv. þm. hafi borið sig saman við hann, heldur er það augsýnilegt, og að hugsanir hans hafa verið í samræmi við hugsanir þessara íhaldsmanna, sem voru að glíma við þetta sama vandasama problem, hvernig hægt væri að koma sem flestum sínum flokksmönnum í réttinn. Um hina opinberu atkvgr. í réttinum er það að segja, að hún má teljast umbót, og það er búið að leiða að því máli svo sterk rök, að jafnvel hinir svörtustu íhaldsmenn eru með því.

Ég fylgdi Jóni heitnum Magnússyni að málum 1924, og út frá þeim forsendum, sem þar má sjá, þá áleit ég ekkert betra að hafa 5 menn í réttinum, ef enginn bætti annan upp. Ég áleit það sparnað, þegar svona er með réttinn eins og er, þá er það 16 til 20 þús. kr. á ári, sem sparast, ef ekki eru hafðir nema 3 menn. 4 sömu skoðun er ég ennþá, að afskaplega litlu muni, hvort bætt er við 2 mönnum af sama tægi og þeir, sem eru nú, en nú þarf 2 til að mynda meiri hluta, annars 3. Og eru 20 þús. kr. gefandi árlega fyrir það, að þrír, en ekki tveir Mbl.menn myndi meiri hl. í réttinum. Ég vil minna hv. þm. á það, að hann talaði um það í fyrra með miklum fjálgleik, hvað rétturinn væri pólitískur. En hann átti sinn góða þátt í því að velja þann dómsmrh., sem nú er, og virðist hafa mikla trú á honum, en fyrsta verk þessa ráðh. var að setja einn æstasta flokksmann sinn í hæstarétt. Einar Arnórsson var búinn að öðlast veitingarskilyrði sem prófessor og varadómari í hæstarétti. Hafði hann dæmt þar svo marga dóma, að prófskilyrðin voru uppfyllt án tilstuðlunar réttarins. Hér var því eingöngu um stjórnarveitingu að ræða.

Hæstv. dómsmrh. hafði áfellzt mig fyrir að veita Lárusi H. Bjarnasyni lausn frá dómarastarfi. En ástæðan til þess var sú, að hann var á tímabili algerlega heilsulaus og vart hugað líf um tíma. Var því ekki hægt að sjá, að hann mundi fær um, heilsunnar vegna, að gegna embætti lengur. Í fyrra á þinginu kom núv. hæstv. dómsmrh. með till. til þál. um að skora á stj. að setja Lárus H. Bjarnason í embættið aftur. Taldi hæstv. ráðh. þá, að hann hefði heilsu til þess. En svo koma stjórnarskiptin og hv. till.maður tekur sæti í stj. sem dómsmrh. En annaðhvort hefir hv. till.maður ekki talað við L. H. B. áður en hann flutti till., og þá þar með sýnt megna ókurteisi með því að flytja hana að honum fornspurðum og án þess að hafa tryggt það, að hann vildi taka við embætti aftur, eða þá að hann hefir gleymt till. og gengið framhjá honum þegar hann var orðinn dómsmrh. og veitti embættið. Hvort sem heldur er, þá er framkoma hæstv. dómsmrh. í þessu máli alveg óviðurkvæmileg. Það, sem hann vill fá þingið til að heimta, að ég geri, það vill hann ekki sjálfur gera, eða getur ekki fengið framgengt. Hann lætur L. H. B. sitja „við beztu heilsu“, að því er hann sjálfur sagði, áfram á eftirlaunum. En skipar þann mann sem dómara í hæstarétti, sem viðfrægur hafði orðið sem þingrofslögfræðingur íhaldsins, hafði manna mestan þátt tekið í pólitík á undanförnum árum og hafði vægast sagt mislita fortíð á því sviði. Var þetta gert til þess að sýna svart á hvítu, hversu ópólitísk stofnun hæstiréttur er? - Þetta var þó gert í nafni og með tilstyrk hv. flm. þessa frv., sem í fyrra taldi hæstarétt „heilaga stofnun“. Ég vona, að stofnun sú hafi ekki misst neitt af þeim heilagleik í augum hans, þótt þessi maður væri skipaður í embættið.

Hv. flm. frv. vill bæta tveim dómendum við og skipa réttinn 5 föstum dómendum. Ég hafði í frv. þeim, er lágu fyrir undanförnum þingum, lagt til, að þeir gætu orðið 5, en af þeim voru tveir varadómendur, sem bæta mátti við í meiriháttar málum. Ég held, að það hafi verið fyrirkomulag, sem vel mátti reyna, einkum þar sem það sparaði fé. Það var einnig fyrirkomulag, sem ekki festi fleiri menn í réttinum. En nú er frv. það, er hér liggur fyrir, svo úr garði gert, að ekki er hægt að sjá, að þjóðin geri sig lengi ánægða með skipulag hæstaréttar, eða æðsta dómsins, ef það verður samþ. óbreytt. En verði svo, og ef þjóðin svo vill bráðlega gera aðra skipun á þessum málum, þá er búið að festa 2 menn í dómnum, sem Alþ. verður að sjá fyrir launum. Gæti af þessu leitt ekki svo óverulegan aukakostnað. Og það mega hv. flm. og aðrir vita, að þjóðin verður aldrei ánægð meðan skipun þessara mála er sú, að dómurinn skapi sig sjálfur.

Hv. flm. vildi ekki beinlínis verja ósamræmið í skaðabótadómum hæstaréttar í málum Björns Kristjánssonar annarsvegar og hrossamáli Garðars Gíslasonar móti Tryggva Þórhallssyni hinsvegar. En hann vildi þó afsaka réttinn með því, að annar sá fjarstæðudómur hefði verið kveðinn upp af þrem dómendum. En sú afsökun gildir þó ekki um þann dóminn, sem var enn fjarstæðari. Hann var felldur með shlj. atkv. 5 dómenda - þessara heilögu manna, er hv. flm. talaði um af svo miklum fjálgleik í fyrra. Hv. flm., sem vill ekki með nokkru móti afnema dómararaunina, vill þó með skipun þessara tveggja nýju dómenda sniðganga hana. Það lítur út fyrir, að flm. hafi allt í einu fengið þarna vissa fyrirferð af kjarki, sem ekki hefir annars orðið vart. Að vísu er þetta framhald af því, sem áður hefir gerzt. Ég vil benda á, að enginn þeirra dómara, er Jón heit. Magnússon skipaði, hafði gengið undir dómararaun. Og núv. hæstv. dómsmrh. veitti Einari Arnórssyni upp á sömu spýtur og fyrirrennarar hans. Það var bara sérstök tilviljun, að hann hafði starfað sem settur í. réttinum áður. Nú telur hv. flm. enn gerlegt, að forsrh. veiti þessi tvö viðbótarembætti, þrátt fyrir þessa prófreglu, er hann telur þó svo ábyggilega og nauðsynlega. Það er eins og hv. flm. vilji með þessu beinlínis sniðganga hæstv. dómsmrh. En það verð ég að segja, að þótt ég sé ekki neinn fylgismaður hæstv. dómsmrh. og hafi ekki mikla trúa á glöggskyggni hans eða heppni í veitingum, þá finnst mér þetta þó ekki rétt að farið gagnvart honum. Ég vil, að á meðan hann situr í þessu embætti, þá hafi hann þær skyldur og ábyrgð, sem því embætti eru samfara, og eiga að vera samfara að háttum allra menningarþjóða.

Ég vil víkja nánar að því, að mér er óskiljanlegur kjarkur hv. flm., að bæta þessum tveimur mönnum inn án prófraunar. Hv. flm. hefir á undanförnum þingum stutt íhaldsmenn í því, að tryggja þeim það, að jafnan væru íhaldsmenn í dómarasætunum. En nú játar hv. flm., að ekki sé rétt að láta þá hafa þetta vald. Þetta virðist benda á vissan kjark gagnvart íhaldsmönnum. En það getur þó líka verið, að hv. flm. sé að svigna undan þunga almenningsálitsins, sem hefir viðurkennt þá réttmætu kritík, sett fram hefir komið um það, að íhaldinu sé ekki trúandi fyrir þessu valdi. - En ég vil benda á það, að þó heppilegt sé, að ekki séu tómir íhaldsmenn skipaðir í réttinn, þá er þó tæplega rétt, að dómsmrh. fái engu um það að ráða. Og þótt þetta eigi máske að vera hegning á núv. hæstv. dómsmrh., vegna hans mörgu og stóru synda, sem jafnvel flokksmenn hans geta ekki fyrirgefið honum, þá brýtur þetta fyrirkomulag í bág við venju allra siðaðra landa. Í Danmörku er það hæstiréttur, sem raunverulega veitir dómaraembættin, en í öðrum nálægum löndum dómsmrh. Þetta nýja fyrirkomulag, að láta þá tvo ráðh., sem rétturinn þó ekki heyrir undir, veita þessum tveimur viðbótarmönnum í trássi við dómsmrh., er því gert, eftir því sem ráða má af orðum hv. flm., til þess að sýna núv. dómsmrh. sérstaka fyrirlitningu. En þetta mál er þó í raun og veru ekki svona einfalt. Bæði form. Íhaldsfl. og blöð hans hafa hvað eftir annað lýst því yfir, að íhaldið ætti væna sneið af Framsfl., og þá víst núv. hæstv. forsrh. og hv. flm. þessa frv. Ég tek nú að vísu ekki mikið mark á því, þó Morgunbl. segi þetta. En formaður Íhaldsfl. hefir lýst því mjög greinilega, að heppilegt væri, þegar sá flokkur væri ekki í meiri hl., að geta fengið lánaða menn frá Framsfl. til þess að geta stjórnað í anda íhaldsins. Ég vil benda á það, að þótt hv. 1. landsk. hafi þarna ekki á réttu að standa, þá hefir þessu þó ekki verið mótmælt. Það er því ekki hin fyllsta trygging fyrir því, að farið verði út úr fjölskyldunni með skipun þessara tveggja dómara. - Ég vil bæta því við, að hið eina stóra mál, sem komið hefir frá stj. að þessu sinni og flokkum skiptir, stjórnarskrármálið, er þannig framborið, að það er vel til þess fallið að styrkja þessa skoðun form. Íhaldsfl. Það frv. er, eins og atvik frekast leyfðu, í anda Íhaldsfl. Hv. flm. mundi því styrkja málstað sinn mjög á því og honum yrði trúað betur, ef hann og félagar hans lýstu því skorinort yfir, að allt þetta umtal andstæðinganna væru tilhæfulaus ósannindi, sem ekki ættu við neitt að styðjast, og að þeir hefðu sömu óbeit á Íhaldsfl. og áður var. Þótt þetta ákvæði í frv., um skipun þessara viðbótardómara, sé skrítið, þá yrði þó hv. flm. betur trúað um góðan tilgang með því, ef slík yfirlýsing kæmi fram.

Hv. flm. sagði eina setningu, sem sýnir það, að hann finnur þó til þess, eins og annað gott sveitafólk, að laga þurfi til í réttinum. Hann sagði, að ef tveir menn væru skipaðir í réttinn á þann hátt, sem lýst hefir verið, þá væri þráðurinn slitinn. En seinni tíminn mun sýna, hvort hv. flm. meinar þetta eins alvarlega og orð lágu til. Hv. flm. vék alveg réttilega að þeim ummælum, sem höfð eru eftir öðrum af gömlu dómurunum, þess efnis, að rétt væri að gera alla Alþfl.menn höfði styttri. Hann taldi, að sá dómari, er viðhefði slík orð, ætti tafarlaust að víkja úr sæti. Allir vita, að hér er átt við þann dómara, sem fæðingardagsbrtt. hv. flm. var gerð fyrir í fyrra. Er sú brtt. ein hin allra frumlegasta af þeim brtt., er fram hafa komið og miða hafa átt að því að gera hæstarétt að guðsdómi íhaldsins hér á landi.