31.03.1933
Efri deild: 39. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Magnús Torfason:

Ég stend upp til þess að mótmæla því, að enn sé hert á álögum á flutninga um héruð landsins. Ég geri það fyrst og fremst af þeim sökum, að mér er það fullkunnugt, að þeir menn, sem hafa atvinnu af flutningum, berjast nú mjög í bökkum og eiga afarerfitt með að halda áfram þeirri atvinnu. Mér er kunnugt um, að bankar og einstaklingar, sem lagt hafa fé í farartæki handa þeim mönnum, sem þessa atvinnu stunda, hafa tapað því og eru að tapa því ár frá ári. Þetta kemur líka fram á þann hátt, að síðan þessi nýju lög um bifreiðaskatt komu í gildi, hefir hver bifreiðin á fætur annari í mínu umdæmi skilað númerinu á skrifstofuna til þess að komast undan skattinum. Það er vitanlega ekki eingöngu skattinum að kenna, að númerunum er skilað, en hann herðir þar á samfara yfirstandandi kreppu.

Í öðru lagi er það vitanlegt, að þau héruð, sem erfiðast eiga með flutninga, og þar sem bifreiðaaksturinn er dýrastur, það eru einmitt héruðin, sem ekki hafa grjót til undirlags í vegina, heldur aðeins mold. Og þau hafa orðið, samkv. kröfum vegamálastjóra og þeirra manna, sem vegagerðinni og vegaviðhaldinu stjórna í sýslunum, að láta loka sínum vegum hverjum á fætur öðrum. Þessi lokun veganna hefir einnig orðið til þess, að bílar hafa hætt að ganga í þeim héruðum. Yfirleitt má lýsa ástandinu fyrir austan þannig, að ekki eru aðrir bílar í ferðum heldur en þeir, sem atvinnu hafa hjá mjólkurfélögunum, kaupfélaginu eða kaupmönnum í þorpinu. Ég held mér sé óhætt að segja, að það sé ekki nema einn bílskrjóður á vegunum í Árnessýslu í vetur, fyrir utan þær bifreiðar, sem mjólkurfélög og verzlanir skipta við. Því er það, að ég held, að ekki sé vert að fara að hækka benzínskattinn. Eins og ég hefi áður haft tækifæri til að sýna fram á. kemur hann alltaf þyngst niður þar sem vegirnir eru verstir, og þar með flutningarnir erfiðastir og dýrastir. Ég verð því fyrir mitt leyti algerlega að leggja á móti brtt. 1 a á þskj. 284. Að því er snertir brtt. 2 b á sama þskj. get ég vísað til þess, sem hv. 1. landsk. sagði þar um. Ég get tekið það fram, að ég skildi orðið „vegaviðhald“ þannig, að með því væri ekki átt við lagningu nýrra vega. Ef það hefir verið meining hv. flm. till., að telja mætti fé, sem lagt er í nýja vegi, þarna með, þá má vitanlega bæta úr því með skrifl. brtt. En þá held ég, að þetta ákvæði komi ekki að miklu haldi. Ég skil ekki í, að nokkurt sýslu- eða bæjarfélag verji minna en 20/00 af matsverði fasteigna innan sinna takmarka til vega yfirleitt. Því það er nú svo, að kröfurnar um bætta vegi eru æði háværar, og a. m. k. þar sem ég er þessum málum kunnugur stendur á því, að sýslu- og sveitarsjóðir hafi nægilega mikið fé til þessara framkvæmda, en ekki á löngun almennings og kröfum hans um nýja vegi.

Ég lít svo á, að þótt samkv. till. n. eigi að létta þessa skatta eilítið, þá sé alls ekki víst, að það verði neinn verulegur tekjumissir fyrir ríkissjóð. Við verðum að athuga það, að við lifum á krepputímum. Maður í ofanverðri Árnessýslu, sem hefir atvinnu af almennum flutningum þar, jafnframt því sem hann flytur mjólk til búanna, sagði mér, að mannflutningarnir með hans bifreið hefðu verið helmingi minni í júní og júlí síðastl. ár heldur en árið áður. Slíkt og annað eins sýnir getuleysið hjá mönnum og sannar það, sem ég áðan hélt fram, að ekki mun vera gert að leggja meiri skatt á þessa atvinnu og þar með á alla flutninga heldur en orðið er, heldur væri fremur ástæða til að létta nokkuð á. Ég fyrir mitt leyti hefði komið með frekari till. í þá átt, ef ég hefði ekki litið svo á, að ríkissjóður mætti sem minnst missa af þeim tekjum, sem hann nú hefir.