16.03.1933
Efri deild: 26. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

18. mál, ljósmæðralög

Ingvar Pálmason:

Um frv. það, er hér liggur fyrir, skal ég ekki fjölyrða. Í 4. gr. þess stendur: „Laun skipaðra ljósmæðra í kaupstöðum skulu greidd úr bæjarsjóði, en utan kaupstaða að einum þriðja hluta úr ríkissjóði“. Þetta er ekki nýtt ákvæði, en í sambandi við það vil ég vekja athygli hv. allshn. á því, að biðja hana um að athuga, að fyrir þinginu liggur frv. um ráðstafanir út af fjárþröng sveitarfélaga. Í því frv. er gert ráð fyrir að leggja sýslusjóðunum nokkrar auknar byrðar á herðar.

Þetta frv. vildi ég biðja hv. n. að athuga samhliða frv. því, sem hér er til umr. Það er alveg rétt, að í frv. til ljósmæðralaga er ekki um neinar nýjar fjárhagslegar byrðar að ræða, hvorki fyrir ríkissjóðinn eða sýslusjóðina, en í frv. um ráðstafanir út af fjárþröng sveitarfélaga er um að ræða nýjar álögur á sýslusjóðina. En eins og nú er háttað, tel ég ekki bætandi nýjum álögum á þá, nema þá því aðeins, að þeim sé séð fyrir nýjum tekjustofnum eða af þeim létt eldri álögum. Ég hreyfi þessu hér, ekki af því, að ég geri ráð fyrir, að farið verði að breyta launakjörum ljósmæðranna, heldur til þess, að þingið taki til athugunar, hvort ekki sé fært að létta einhversstaðar gömlum álögum af sýslufélögunum, ef enn á að bæta á þau nýjum gjöldum.