20.03.1933
Efri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (577)

18. mál, ljósmæðralög

Frsm. (Magnús Torfason):

Hv. 4. landsk. verð ég að svara því, að mér hefir þá algerlega skotizt yfir það, ef það hefir verið ætlunin að bera brtt. aftur fyrir n. eftir að búið var að sýna hæstv. fjmrh. hana. Það var samþ. að tala við hæstv. ráðh. um brtt., og það hefi ég gert. Hitt hefir mér alveg skotizt yfir, og verð því að biðja hv. 4. landsk. afsökunar á því. Í þessu sambandi vil ég minnast á það, að það er dálítil prentvilla í brtt. við 5. gr. Þar stendur „Síðasta málsgr. orðist svo“, en ætti að vera: Síðasti málsliður orðist svo. — Ég býst við, að hv. 4. landsk. hafi ekki athugað það, að hér er það aðeins síðasti málsliðurinn, sem um er að ræða, því í málsl. á undan er kveðið svo á, „að sýslunefndir skuli með samþykki ráðh. ákveða þeim ljósmæðrum eftirlaun, sem verða fyrir slysi, þegar þær eru að gegna lögmæltum skyldustörfum“. — Hv. 4. landsk. hefir ekki tekið eftir því, að þessi brtt. þræðir í aðalatriðum frvgr., þannig að bæjarstjórnir eða sýslunefndir skuli ákveða eftirlaunin með samþ. ráðh. Þarna er einmitt breyting frá fyrri lögum þar sem sýslunefndir einar áttu að kveða á um þessa hluti, en nú þarf þeirra úrskurður að vera samþ. af ráðh., m. ö. o. ríkisvaldið hefir hér algerlega tögl og hagldir, eins og vera ber.

Ég vænti svo, að ég þurfi ekki að taka fleira fram um þetta atriði. Mér þykir leitt, að þessi misskilningur hefir átt sér stað milli mín og hv. 4. landsk. Þá gerðist hæstv. dómsmrh. spámaður um það, að kaupstaðirnir kæmu á eftir og krefðust þess, að ríkið launaði einnig þeirra ljósmæður og þeir væru losaðir við þau útgjöld. Hann fann engan eðlismun á þessum tveimur tilfellum. Ég skal fyrst leyfa mér að benda á ákaflega mikinn stigmun í þessu máli. Ég tek t. d. Árnessýslu, sem hefir um 5 þús. íbúa; þar eru 18 starfandi ljósmæður, en kaupstaður, sem hefir 4 þús. íbúa, hefir ekki nema 2 ljósmæður. Staðhættirnir gera þennan gríðarlega stigmun á sveitum og kaupstöðum í þessum efnum. Auk þessa má á það líta, að oft getur verið um mikinn ferðakostnað að ræða í sveitunum, sem aftur er enginn í kaupstöðunum. Þessi liður getur í ýmsum tilfellum orðið mjög tilfinnanlegur í sveitunum, þegar ljósmæður þurfa oft að bíða heilar vikur vegna örðugra samgangna. Þetta vildi ég taka fram viðvíkjandi stigsmuninum, en eðlismunurinn milli kaupstaða og sýslufélaga í þessu efni er í því fólginn, að kaupstaðirnir geta aflað sér margskonar tekjustofna, eins og hv. þm. er kunnugt, en þeim hafa sveitarfélögin ekki ráð á. Hér er því um feikilegan eðlismun að ræða, sem sanngjarnt er, að þingið taki tillit til.

Ég get nú ekki annað séð en blessaðar ljósmæðurnar séu starfsmenn þjóðarinnar engu síður en hreppsstjórarnir. Ég veit ekki betur en það sé þjóðinni í heild ekkert síður viðkomandi, að borgari fæðist heldur en einstöku sýslufélagi. Að því er snertir veitingu þessara tveggja sýslana, er ég var að gera samanburð á, ljósmóðurstarfsins og hreppstjórastarfsins, þá má segja, að sama gildi um þau bæði, því sýslunefndir skipa hreppstjóra og líka ljósmæður. Þar er því enginn munur á, og bendir það atriði eins og önnur til þess, að laun fyrir hvortveggja störfin eigi að greiðast á sama hátt. Hvað snertir skoðunarmun milli mín og hæstv. dómsmrh. um það, hjá hvorum aðilanum séu betri möguleikar til þess að greiða ljósmóðurlaunin, þá er það mín trú, að það sé erfiðara fyrir sýslu- og sveitarsjóðina heldur en ríkissjóðinn, þó hann eigi erfitt líka.